Píkusögur verða túlkaðar á táknmáli og heyrnarlausir geta því verið meðal áhorfenda. Ein af þeim sem flytja verkið er einmitt heyrnarlaus og mun sjálf nota táknmál í flutningi sínum.

Píkusögur verða túlkaðar á táknmáli og heyrnarlausir geta því verið meðal áhorfenda. Ein af þeim sem flytja verkið er einmitt heyrnarlaus og mun sjálf nota táknmál í flutningi sínum. Það er Sigurlín Margrét Sigurðardóttir, varaþingkona hjá Frjálslynda flokknum. Eins og aðrir flytjendur ljær hún annarri konu rödd sína, eða ættum við að segja hendur? Textann mun hún nefnilega flytja á táknmáli og túlkur mun raddtúlka.

"Í flutningi mínum er að finna upplestur á Píku-ótíðindunum sem fjalla um umskurð kvenna í heiminum. Þar er limur karlmanna notaður sem samlíking, það er ef limurinn fengi sömu meðferð og það sem píkan hjá milljónum kvenna hefur þurft að þola," segir hún. "Svo vona ég að áhorfendur haldi niðri í sér andanum þegar kemur að raðfullnægingarstununni í leikritinu!"

Hún bendir á að viðfangsefni Píkusagna sé vissulega viðkvæmt og orðið "píka" sé til dæmis ekki dagsdaglega í orðaforða fólks.

Að nauðga er ekki "kúl"

Sigurlín Margrét segir það hafa verið mikla upplifun að taka þátt í æfingum á Píkusögum. "Við höfum fengið að nálgast viðfangsefnið á skemmtilegan hátt og áttum til dæmis afar fróðlega kvöldstund með Jónu Ingibjörgu kynfræðingi. Að fá slíka stund var mér og sennilega öllum konunum ómetanlegt, því eftir á hugsaði maður kannski á annan hátt um viðfangsefnið. Píkan er ekki bara hlutur heldur líka eitthvað persónulegt sem verður að hlúa að, varðveita og sinna, á nákvæmlega sama hátt og manni þykir vænt um sjálfan sig," segir hún.

"Mér finnst uppátækið vera snilld, það er að setja Píkusögur upp með þessum hætti, og er afar stolt yfir að fá að taka þátt í því. Boðskapurinn er þjóðþrifaverk - eins og slagorðið segir: Ofbeldið burt - hverju nafni sem það nefnist. V-dagssamtökin hérlendis hafa frá stofnun beitt sér í baráttunni gegn nauðgunum. Þau beina kastljósinu að gerendum nauðgana og minna á að ábyrgðin er alltaf þeirra og í hvaða kringumstæðum sem er. Það finnst mér borðleggjandi barátta og þetta verkefni mun skila sér í því að það að nauðga er ekki lengur "kúl", verður aldrei og hefur aldrei verið."