Þuríður Jónsdóttir fæddist í Grafardal í Hvalfjarðarstrandarhreppi 31. janúar 1933. Hún lést á Landspítalanum miðvikudaginn 26. október síðastliðinn og var jarðsungin frá Áskirkju í Reykjavík 2. nóvember.

Dalurinn þögli grætur

(P.B.)

Mér fannst ég snögglega eldast um mörg ár þegar ég heyrði um fráfall fermingarsystur minnar, Þuríðar Jónsdóttur.

Þótt söknuðurinn sé sár, þá grátum ei. Gleðjum okkur við minningar um að hafa átt með henni samleið. Hvar sem hún fór skildi hún eftir góð áhrif og verk. Fyrstu minningar mínar um hana eru að mér var bent á hana sem fyrirmynd. Hún væri svo háttvís og prúð. Mér var reyndar svo oft bent á þetta að ég varð dálítið öfundsjúk, rétt eins og þegar fólk var að dást að henni litlu systur minni. Ég man þessa ljóshærðu telpu með fallegu brúnu augun og háa, hvelfda ennið. Hana sem alltaf mundi að bjóða góðan dag og þakka fyrir sig.

Þannig byrjuðu barnaskólaárin og við kynntumst. Fljótlega urðum við einlægar vinkonur allar þrjár. Ég man þvílíkur léttir það var þegar ég áttaði mig á að vera stolt og hamingjusöm að eiga slíka vinkonu sem Þuru og eiga líka ljúfa og fallega litlu systur.

Stundum hef ég orðað það svo að fjölmennustu útihátíðir bernsku og æsku minnar hafi verið vorsmalamennskur í Grafardal.

Í minningunni er líka oftast sólskin, vorblíða og hiti. Þannig var veðrið allavega dag þann sem ég minnist nú á. - Vorum við Þura 13 eða 12 ára. Svo hafði atvikast að það hafði orðið að skilja eftir gemling í ullarhafti, frammi í dal. - Nú bað Jón dóttur sína að fara og finna hann. Ég bauð mig fram henni til fylgdar. - Svo fékk hann okkur sauðaklippur og hníf, því að ef við næðum gimbrinni áttum við að rýja hana og hreinsa af henni ullarhaftið. Lagði hann ríka áherslu á að við hreinsuðum sárin á fótum hennar vel svo að þar yrði ekkert eftir af ullartægjum. Vissulega lögðum við okkur fram og til þess að hreinsa nú sárin til fullnustu sóttum við dýjamosa með kristaltærum vatnsdropum og þvoðum þau. Það voru stolt og kotroskin ung búkonuefni sem skiluðu Jóni bónda reyfi, klippum og vasahníf og hlutu hrós fyrir. Það liðu mörg ár þangað til ég heyrði Sigurð Brúnar segja frá því að Guðmundi Hannessyni, frænda hans, hefði hugkvæmst að nota dýjamosa til sótthreinsunar. Svona hefur móðir náttúra kennt börnum sínum að bjargast af gegnum aldirnar.

Þura fór í Gagnfræðaskólann á Akranesi. Þar vakti hún strax athygli fyrir góðar námsgáfur og meðferð íslensks máls. Eftir gagnfræðaskólann fór hún í hjúkrunarnám og lauk því með prýði, starfaði síðan löngum sem hjúkrunarkona. Snemma á þeim ferli kynntist hún Sigurbirni Þorvaldssyni. Þau eignuðust tvö börn, Margréti og Daníel. Tóku auk þess í fóstur unga frænku Sigurbjarnar, Ingibjörgu, bjuggu börnum sínum gott og traust heimili.

Þura þekkti af eign raun hin nánu tengsl við landið og gróðurinn, þráði að geta kennt börnum sínum að njóta þess sama. Hún fékk aðstöðu í Vatnshorni, yfirgefnu æskuheimili mínu. Þar dvaldi hún með börn sín hluta úr ellefu sumrum. Þar kenndi hún þeim að bjargast við fábreytta aðstöðu og hlusta eftir og læra boð umhverfisins.

Mér var ljúft að koma að Vatnshorni meðan fjölskyldan dvaldist þar. Viðtökurnar eins og ég væri aftur í foreldrahúsum. Veit að áhrif og minningar frá þessum sumardögum fylgja þeim sem nutu. Vissi hvað foreldrum mínum þótti vænt um það samband sem hún rækti við þau. Man þegar pabbi sagði mér frá sjötugsafmæli sínu: "Hún Þura kom með rjómatertu á stærð við vænan tunnubotn." Þær mamma drifu upp veislu og buðu nánasta venslafólki og vinum. Þar eins og oftar tókst henni að skapa öðrum hamingjustund með dugnaði sínum og fórnfýsi.

Ein af góðum gjöfum lífsins að hafa átt hana að vini frá bernsku til síðasta dags.

Sendi samúðarkveðju öllum sem sakna. Blessuð sé minning hennar.

Sigríður Höskuldsdóttir.