"Það er heiður fyrir okkur að fá að leggja þessu málefni lið og hefur verið mjög ánægjulegt.

"Það er heiður fyrir okkur að fá að leggja þessu málefni lið og hefur verið mjög ánægjulegt. Það er náttúrlega afskaplega skemmtileg tilbreyting að fara úr daglegum störfum á Alþingi og upp á svið í Borgarleikhúsinu," segir Arnbjörg Sveinsdóttir.

Eitt af atriðunum sem hún tekur þátt í fjallar um skapahár og rakstur. "Það er um þá kröfu sem virðist vera til staðar, gjarnan af hálfu karlmanna, að konur raki sig, og um það hvaða tilgang skapahárin hafa sem vörn fyrir kynfærin. Þau hafa hlutverki að gegna. Þessi umræða, eins og allt annað í verkinu, gengur út á að bera virðingu fyrir því sem leikritið snýst um, nefnilega píkunni."

Arnbjörg segir góðan anda í hópnum. "Það hefur myndast svolítil stelpustemning, sem er virkilega gaman. Þetta er dálítið eins og á unglingsárunum, svona stelpuhópur saman að tala, skríkja og hlæja yfir einhverjum atriðum. En auðvitað er verkið líka átakanlegt og erfiðir hlutir sem þarna er fjallað um," segir Arnbjörg.

Spennandi að vera með

"Það er þannig með öll mál að þau þurfa að komast upp á yfirborðið og vera rædd, til að hægt sé að taka á þeim með afgerandi hætti. Flutningurinn á Píkusögum og umfjöllunin í kringum þær verður vonandi til að vekja umræðuna um kynbundið ofbeldi. V-dagssamtökin hafa unnið gott starf á því sviði. Það er athyglisvert að þetta unga fólk skuli standa að þessu með svona myndarlegum hætti," segir Arnbjörg. Hún bætir við að hún hafi séð Píkusögur á sínum tíma í Borgarleikhúsinu og segir hlæjandi að þá hafi verkið verið flutt af "alvöru leikkonum".

"Mér fannst leikritið magnað og þótti því mjög spennandi að fá að taka þátt í því. Síðan verður að koma í ljós hvernig flutningurinn verður hjá okkur! Ég reikna ekki með að þetta verði jafnbrilljant og hjá leikkonunum um árið, en við skulum sjá... María Ellingsen er náttúrlega snillingur í að laða það fram í fólki sem hægt er."