Tölvugreining bendir til að 32 verk sem nýlega hafa komið fram sem verk Jacksons Pollocks, séu fölsuð. Hér sést eitt verkanna.
Tölvugreining bendir til að 32 verk sem nýlega hafa komið fram sem verk Jacksons Pollocks, séu fölsuð. Hér sést eitt verkanna. — Reuters
Eftir Ingu Maríu Leifsdóttur ingamaria@mbl.is UNDANFARIÐ hafa ýmsir sérfræðingar velt vöngum yfir því hvort 32 málverk, sem talin voru eftir bandaríska málarann Jackson Pollock og voru áður óþekkt, séu fölsuð eða ekki.
Eftir Ingu Maríu Leifsdóttur ingamaria@mbl.is

UNDANFARIÐ hafa ýmsir sérfræðingar velt vöngum yfir því hvort 32 málverk, sem talin voru eftir bandaríska málarann Jackson Pollock og voru áður óþekkt, séu fölsuð eða ekki. Það var Alex Matter, kvikmyndagerðarmaður sem þekkti Pollock frá barnæsku, sem sagðist hafa fundið verkin í dánarbúi foreldra sinna sem einnig þekktu Pollock, fyrir fjórum árum og hóf að sýna þau opinberlega í fyrra.

Pollock-Krasner-sjóðurinn, sem ekkja Pollocks, Lee Krasner, stofnaði á sínum tíma, hefur látið rannsaka verkin og komist að þeirri niðurstöðu að um falsanir sé að ræða. Þóttist stofnunin hafa sannreynt þetta með hjálp Richards Taylors, eðlisfræðiprófessors við Oregon-háskóla, sem rannsakaði sex verkanna og komst að þeirri niðurstöðu að þau væru öll fölsuð. Til þess notaði hann tölvugreiningu; ákveðna tækni þar sem leitað er að endurteknu mynstri í annars óreglulegum málverkum Pollocks. Hefur Taylor notað þessa tækni til að rannsaka verk Pollocks í meira en áratug.

Tilraunastarfsemi Pollocks?

Prófessor í listasögu við listasafnið í Cleveland og sérfræðingur í verkum Pollocks, Ellen Landeu, komst hins vegar að öndverðri niðurstöðu, og það var raunar niðurstaða hennar sem leiddi til þess að Matter ákvað að sýna verkin opinberlega. Hún segir verkin minna mjög á ljósmyndir föður Matters, Herbert Matter, sem hafði verið náinn Pollock undir lok 5. áratugarins, og taldi að um tilraunastarfsemi af hálfu málarans hefði verið að ræða. Pollock lést í bílslysi árið 1956 og heldur Alex Matter því raunar fram að verkin hafi verið geymd í vörugeymslu ekki langt frá staðnum þar sem Pollock hafði vinnustofu sína, og þar sem hann lést.

Pollock-Krasner-stofnunin sagði í tölvupósti til Reuters-fréttastofunnar fyrir skömmu, að enn lægju ekki fullgildar sannanir fyrir um að um tilraunaverk væri að ræða, eins og Landeu hefur haldið fram. "Sögulegar sannanir og stílgreining eru nauðsynleg, rétt eins og tæknilegar sannanir á borð við tölvugreiningu og skýrslur forvarða," sagði í póstinum.