Æft af kappi: Hluti nemenda skólans, sem leika með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands á tónleikunum, æfir sig í vikunni.
Æft af kappi: Hluti nemenda skólans, sem leika með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands á tónleikunum, æfir sig í vikunni. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tónlistarskólinn á Akureyri er menningarmiðstöð á Norðurlandi. Margrét Þóra Þórsdóttir spjallaði við Kaldo Kiis, starfandi skólastjóra, í tilefni 60 ára afmælis skólans.

TÓNLISTARSKÓLINN á Akureyri er 60 ára og af því tilefni verða tónleikar í Glerárkirkju í dag, sunnudaginn 26. febrúar kl. 16 þar sem nemendur sem langt eru komnir í námi leika með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands.

Tónlistarskólinn á Akureyri er stærsti tónlistarskólinn utan höfuðborgarsvæðisins og gegnir mikilvægu hlutverki í bæjarfélaginu segir Kaldo Kiis starfandi skólastjóri. Nemendur eru um 460 talsins og er starfseminni skipt upp í tvær deildir, áfangadeild þar sem eru 344 nemendur og almenna deild en á þeirri fyrrnefndu er kennt eftir námsskrá og meiri kröfur gerðar til nemenda. Flestir byrja á almennu brautinni, þar sem þeim gefst kostur á að kynnast tónlistarnámi og fá að feta sig áfram og leita eftir hvaða hljóðfæri á best við viðkomandi. Kaldo segir að eftir því sem áhugi nema aukist, þeir sýni framfarir, færni og ástundun geti þeir færst yfir á áfangabrautina þar sem kröfur til þeirra aukist til muna og þeim gert að sækja tíma í kjarnagreinum, samspili og leika í hljómsveitum. "Þá er líka ætlast til þess að nemendur komi fram á tónleikum og lengra komnir nemar fá tækifæri til að spreyta sig með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands," segir Kaldo.

Þá er einnig boðið upp á tónlistarforskóla í öllum grunnskólum bæjarins, fyrir nemendur í 1. og 2. bekk en að auki er gott samstarf við framhaldsskólana í bænum, Tónlistarskólinn starfrækir tónlistarbrautir í samvinnu við þá.

Kennt er á öll hljóðfæri sem eru í virkri notkun í tónlistarlífi samtímans segir Kaldo en einnig er hægt að nema allar nauðsynlegar tónfræðigreinar. Þá rekur skólinn öfluga söngdeild og nýverið hófst kennsla í djass- og dægurlagasöng við skólann. Þá má nefna að við skólann er alþýðutónlistardeild, sem er að sögn skólastjóra fremur fátítt í rekstri tónlistarskóla hér á landi. Deildin hefur vaxið ört á liðnum árum en áhersla er þar lögð á popptónlist og djass.

Kaldo segir að við skólann starfi hæfir kennarar, en þó sé oft erfitt að fá gott fólk til starfa. Með tilkomu Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands skapist fleiri tækifæri til að takast á við ögrandi verkefni og það auðveldi að fá færa kennara til starfa. "Samstarf milli tónlistarskólans og hljómsveitarinnar hefur alla tíð verið náið og það eflir starfsemi beggja, kennarar fá gott tækifæri til að koma fram og spila á vettvangi þar sem ríkir metnaður og vandað er til allra hluta. Það virkar hvetjandi fyrir hljóðfæraleikarana og eykur möguleika okkar á að fá góða kennara norður," segir Kaldo.

Menningarmiðstöð á Norðurlandi

Tónlistarskólinn hefur á þeim 60 árum sem liðin eru frá stofnun hans fóstrað marga meðlimi í bæði Sinfóníuhljómsveit Íslands og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og fjölmarga tónlistarmenn aðra sem þekktir eru á sínum vettvangi. Lausleg könnun sem gerð var árið 1998 leiddi í ljós að meira en eitt hundrað nemendur frá Tónlistarskólunum á Akureyri höfðu hljóðfæraleik eða tónlistarkennslu að aðalstarfi sínu um lengri eða skemmri tíma.

"Tónlistarskólinn er menningarmiðstöð á Norðurlandi, við eigum samskipti við fjölmarga hér á svæðinu og starfsemi er mjög mikilvæg hér í bæjarfélaginu," segir Kaldo. "Skólinn og starfsemi hans hefur sett mikinn svip á bæjarlífið í þau 60 ár sem hann hefur verið starfandi, kennarar og nemendur hafa verið bakhjarlar þess öfluga tónlistarlífs sem blómstrar í bænum."

Skólinn hafi í áranna rás breyst líkt og samfélagið allt en til að hann nái að vaxa og dafna og blómstra sem aldrei fyrr sé nauðsynlegt að allir vinni vel saman, nemendur, kennarar, stjórnendur og stjórnmálamenn. Það samstarf megi bæta að hans mati. "Síðast en ekki síst þarf skólinn að eiga gott samstarf við foreldra, það er afar mikilvægt. Þegar foreldrar sýna áhuga og aðhald við tónlistarnám barna sinna næst mun betri árangur en ef þess nyti ekki við. Þátttaka foreldra og samtaka þeirra er skólanum gríðarlega mikilvæg, þeir eru mjög ötulir m.a. í æfingabúðum, ferðalögum og öðrum uppákomum sem efnt er til og skapa skólanum nauðsynleg og mikilvæg tengsl við samfélagið," segir Kaldo.

Hann nefndi sem dæmi að foreldrafélag blásaradeildar muni taka þátt í að skipuleggja Norðurlandsmót blásarasveita í byrjun apríl, en slíkt mót var haldið í fyrsta sinn í fyrra og tókst vel.

Annars nefndi Kaldo að aðsókn að blásaradeild tónlistarskólans hafi minnkað, það sé þó ekki bara vandamál nyrðra, heldur um land allt. Nú sé í tísku að læra á gítar, einkum rafmagnsgítar og slagverk, "þær deildir eru yfirfullar og færri komast að en vilja," segir hann en nú eru t.d. um 30 nemendur á biðlista eftir að komast að til að læra á gítar. "Það hafa margir áhuga fyrir að leika í hljómsveit, nú þykir frekar hallærislegt að læra á blásturshljóðfæri, en töff að spila á gítar. Við verðum að hvetja fleiri krakka til að læra og spila á blásturshljóðfæri og sýna þeim fram á að það getur verið afar skemmtilegt."

maggath@mbl.is