Menn óttast nú að borgarastyrjöld brjótist út í Írak milli araba af kvísl súnní-múslíma og sjía-múslíma. Ástæðan er sú að á miðvikudag var eyðilögð í sprengingu hvelfing Gullnu moskunnar í borginni Samarra, en moskan er einn mesti helgistaður sjía-múslíma í Írak.
Sjía-múslímar í Írak eru ævareiðir vegna atburðarins. Í kjölfar hans réðust sjía-múslímar á moskur súnní-múslíma víða í Írak og á fimmtudag týndu síðan á annað hundrað manns lífi í óöld, sem rakin er til atburðarins í Samarra.
Jalal Talabani, sem er forseti Íraks, skoraði á landsmenn að halda friðinn. Sagði hann að ef borgarastyrjöld brytist út milli súnní-múslíma og sjía-múslíma þá myndi sá eldur engu eira.
Útgöngubann var fyrirskipað í Bagdad á fimmtudagskvöld en vonuðust menn til þess að með því mætti stöðva versta ofbeldið.