EINN af herrum íslenzku ráðstjórnarinnar boðaði fagnaðarerindi 5. janúar sl. í Blaðinu undir heitinu ,,Gleðilegt gengisfellingarár".

EINN af herrum íslenzku ráðstjórnarinnar boðaði fagnaðarerindi 5. janúar sl. í Blaðinu undir heitinu ,,Gleðilegt gengisfellingarár". Maðurinn bar þar eingöngu fyrir brjósti framleiðslu sjávarútvegs og erfiðleika hennar vegna hins háa gengis íslenzku krónunnar. Fyrir fleiru þóttist maðurinn ekki þurfa að hugsa.

Ráðstjórnarmenn hæla sér af því að hafa lækkað erlendar skuldir ríkissjóðs, en láta þess auðvitað ógetið að skuldir þjóðarbúsins hafa margfaldazt hin síðari árin svo háskasamlegt hlýtur að teljast. Enda hafa bankarnir dælt erlendu fé inn á íslenzkan markað og hirt gífurlegan vaxtamun vegna lágra vaxta erlendis en hárra hér. Þess eru mýmörg dæmi að bankar hafi lánað fólki allt að 100% til kaupa á húsnæði - með fullri gengisáhættu að sjálfsögðu auk verðtryggingar. Ekki áttu nýársóskir ráðherrans heima hjá þeim lántakendum.

Gengisfall íslenzku krónunnar, sem maðurinn þráir, mun þegar í stað valda hækkun neyzluverðs, sem mun skila sér fyrr og rækilegar í verðlagi en hækkun gengis hin síðari árin. Og vísitalan mun komast á skrið.

Ekki geta þeir, sem gengizt hafa undir klyfjar vísitölubundinna lána glaðst yfir nýárskveðju ráðherrans.

Spurning: Hversvegna skyldu lénsherrar fiskveiðanna ekki hafa lagzt fastar á árar um gengisfellingu?

Það skyldi þó aldrei vera vegna níðþungra skuldabagga, sem þeir hafa bundið sér erlendis?

Það er hérumbil sama hvar borið er niður: Nýárssýn ráðherrans er óvitatal ætlað til þess eins að koma ár sinni fyrir borð hjá sægreifunum, sem hann vill þjóna til borðs og sængur. Sennilega er þó sú þjónusta að þessu sinni á hæpnum forsendum, en allur er maðurinn af vilja gerður.

Á hinu háa gengi ber ríkisstjórnin alla ábyrgð - og rær raunar öllum árum að viðhaldi þess. Undir einni árinni situr svo stjórnmálafræðingurinn, með háskólapróf í blekkingum, og sendir landsmönnum nýársóskir um verðhrun íslenzka gjaldmiðilsins!

Höfundur er fv. formaður Fjálslynda flokksins.