Kolbrún Halldórsdóttir er sú eina af þingkonunum sem er lærður leikari. Hún hefur ekki einungis margsinnis staðið á sviði heldur líka leikstýrt um land allt.

Kolbrún Halldórsdóttir er sú eina af þingkonunum sem er lærður leikari. Hún hefur ekki einungis margsinnis staðið á sviði heldur líka leikstýrt um land allt. Kolbrún lætur vel af leikhæfileikum þingkvennanna og segir glettin að þær standi sig með stakri prýði.

Í Píkusögum flytur Kolbrún meðal annars langt eintal þar sem kona segir frá því hvernig hún uppgötvaði sjálfa sig og fann fyrir áður óþekktum tilfinningum, eftir að hafa áttað sig á að píkan væri hluti af henni sjálfri - og væri hún sjálf.

"Margt sem fjallað er um í Píkusögum er mjög viðkvæmt. Allt svona starf, að ég tali nú ekki um þegar unnið er með eins vandmeðfarin mál og þessi, byggist á að hópurinn sé samstiga og að þar styðji hver annan. Þetta hefur verið nokkuð lengi í undirbúningi og V-dagssamtökin hafa farið mjög fagmannlega að okkur, enda var alls ekki sjálfsagt að þingkonur samþykktu allar sem ein að gera þetta," segir Kolbrún.

Pólítísk gleraugu tekin niður

"Eins og eðlilegt er litast samskipti okkar af hversdagslegum, pólitískum málum sem við tökumst á um alla jafna. Mér finnst stemmningin á milli okkar hafa mildast. Daginn eftir að við höfum verið á fundum og æfingum vegna leikritsins hefur að minnsta kosti verið mikil vinkonustemmning í hópnum! Það er frábært að við fáum tækifæri til að horfa hver á aðra sem manneskjurnar sem við erum, en ekki endilega í gegnum þau pólitísku gleraugu sem við notum dagsdaglega," segir Kolbrún. Hún bendir á að með texta verksins hafi höfundur Píkusagna, Eve Ensler, í raun búið til ákveðin vopn og dæmin sýni að þau virki.

"Hún leggur þessi vopn síðan í hendurnar á okkur. Við vonum að með okkar lóði á vogarskálarnar, sem vonandi vegur nokkuð þungt, verði umræðan um kynbundið ofbeldi hér á landi endurnýjuð. Það er eðli þeirrar baráttu að það þarf stöðugt að endurnýja súrefnið í vatnsglasinu. Umræðan þarf að halda áfram og við þurfum að vera sívakandi fyrir kröfunni um að kynbundnu ofbeldi verði útrýmt. Samstaða er aflið til að brjóta ofbeldið á bak aftur."