Ástir á akrinum. Scarlett Johansson og Jonathan Rhys-Meyers .
Ástir á akrinum. Scarlett Johansson og Jonathan Rhys-Meyers .
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Woody Allen er búinn að söðla um. Þessi sérvitri gamalreyndi kvikmyndagerðarmaður sem helst hefur viljað gera myndir sínar í dyragættinni á heimili sínu í Manhattan-hverfi í New York er nú farinn að gera myndir í Englandi.

Woody Allen er búinn að söðla um. Þessi sérvitri gamalreyndi kvikmyndagerðarmaður sem helst hefur viljað gera myndir sínar í dyragættinni á heimili sínu í Manhattan-hverfi í New York er nú farinn að gera myndir í Englandi. Skarphéðinn Guðmundsson komst að því á blaðamannafundi með karlinum að það var hreint ekki vegna aukinnar víðsýni heldur miklu fremur af illri nauðsyn.

Fyrsta sem fólki dettur í hug þegar það hugsar til hins sérlundaða listamanns Woodys Allens - fyrir utan dæmalausar flækjur í einkalífinu sem hér verða látnar liggja milli hluta af tillitssemi við lesendur - er væntanlega borgin sem aldrei sefur, Stóra eplið, Nýja-Jórvík; eða bara New York eins og hún heitir og við köllum jafnan. Hún er heimaborg Allens, eins ástkær honum og Keflavík Rúnari Júlíussyni, og þar hefur Allen gert og sviðsett nær allar sínar kvikmyndir - sem eru nú orðnar 35 talsins.

Það sætir því talsverðum tíðindum að hann hafi skuli hafa gert sína nýjustu mynd, Match Point, og vinni nú að þeirri næstu, sem enn hefur ekki hlotið nafn, í Lundúnum. Skýringin liggur ekki í því að á efri árum hafi hann talið sig þurfa á tilbreytingu að halda. Nei, skýringin er einfaldlega sú að í heimalandi hans fyrirfinnast ekki lengur fjársterkir aðilar sem trú hafa á listsköpun eins af sínum dáðustu og virtustu kvikmyndagerðarmönnum. Þeir voru reyndar nokkrir í Hollywood sem vildu púkka upp á sinn mann, en þó ekki með öðrum hætti en gengur og gerist þar í borg núorðið, þ.e. því skilyrði háð að fá að hafa puttana í handrits- og kvikmyndagerðinni og ráða lokaútgáfunni. Sem er nokkuð sem Allen hefur og mun aldrei sætta sig við.

Morðgáta

Karlinn neyddist því til að leita út fyrir landsteinana að fjármagni. Fann það svo í Bretlandi, hjá BBC og öðrum sönnum kvikmyndaunnendum, sem björguðu ferli hans og sálarró okkar sem vitum fátt betra en góða og innihaldsríka mynd eftir þann sem færði okkur meistaraverk á borð við Annie Hall, Manhattan, Zelig, The Purple Rose of Cairo, Broadway Danny Rose, Crimes and Misdemeanors, Hannah and Her Sisters, Husbands and Wifes, Bullets Over Broadway og Sweet and Lowdown. Hver veit nema næsta mynd hans bætist í þann hóp? Og hversu sorglegt yrði það þá ef enginn fengist til að gera honum kleift að skapa slíkt listaverk. Bara vegna þess að þau henta síður til sýningar í verslunarmiðstöðvum og það þykir ekki beint vænlegt að láta fylgja með barnaboxum litla karla með spangargleraugu og munnræpu.

Verður þessi sérkennilega aðstaða sem hann hefur komið sér í, einn af merkilegustu kvikmyndagerðarmönnum sögunnar, ennþá sérkennilegri eftir að hafa upplifað myndina Match Point , þá fyrstu sem hann gerir og staðsetur alfarið utan New York. Hún fer nefnilega hæglega í flokk með hans betri myndum, í öllu falli síðustu árin. Karlinn rær líka á svolítið frábrugðin mið; taugaveiklunin er minni og viðfangsefnið er ekki sjálfskapaðar sálarflækjur miðaldra karlmanns í að manni virðist tilefnislítilli tilvistarkreppu. Nei, Match Point er gamaldags morðgáta af breska skólanum, þar sem reyndar spila stóra rullu gömul eftirlætisviðfangsefni Allens eins og ástir, afbrýði, iðrun og sektarkennd - svíðandi sektarkennd.

Frakkar hafa alltaf verið Woody Allen góðir og staðið með honum í gegnum sætt og súrt - kannski einmitt vegna þess að landar hans eiga svo erfitt með að sætta sig við hann - og því hefur hann alltaf átt sér griðastað í Cannes. Þangað fór hann þó ekki fyrsta sinn fyrr en árið 2003, til að kynna hina alvondu Hollywood Ending . Aftur var hann mættur í fyrra, nú með Match Point . Þótt myndin hafi verið sýnd utan keppninnar batt maður meiri vonir við hana, einfaldlega vegna þess að sagan sagði að hann hafnaði því alltaf að myndir hans tækju þátt í keppni, einfaldlega á þeim réttmæta grundvelli að hann teldi að ekki væri hægt að keppa í listum. Og sú tiltrú reyndist réttmæt. Myndin er sem fyrr segir í hópi með þeim sterkari sem hann hefur gert síðustu árin - þótt ekki sé hún gallalaus vel að merkja - og hefur myndin enda almennt fengið mjög góða dóma erlendra gagnrýnenda.

Þokkafull

Eitt af því sem gagnrýnendur hafa rætt um er að Match Point sé trúlega hans þokkafyllsta í langan tíma og var sú fullyrðing borin undir hann á blaðamannafundi sem haldinn var í Cannes eftir heimsopinberun myndarinnar og hann spurður hvort hinir ungu og myndarlegu aðalleikarar; Jonathan Rhys-Meyer og Scarlett Johansson, hefðu haft slík áhrif á hann.

"Handritið var bara svona," segir Allen hikandi og kallar að sjálfsögðu fram hlátur í salnum. "Það er kynlíf og ofbeldi í myndinni en efnistökin eru mjög hófstillt og settleg. Það eru nær engar kynlífssenur í myndinni en ýmislegt gefið í skyn og ástríðan ólgar undir niðri enda sumpartinn örlagavaldur myndarinnar, forsenda atburðarásarinnar. Hún kann því að vera þokkafull miðað við aðrar myndir mínar en almennt held ég að hún sé ekkert sérlega þokkafull."

Allen er frægur fyrir að taka ástfóstri við leikkonur sínar, reyndar svo miklu ástfóstri að hann hefur átt í ástarsambandi við ófáar þeirra, lengst þó með Diane Keaton og Miu Farrow. Svo virðist sem hin tvítuga Scarlett Johansson sé sú nýjasta sem er í uppáhaldi hjá karlinum því hann hefur fengið hana til að fara með aðalhlutverkið í næstu mynd sinni og hælir henni á hvert reipi fyrir frammistöðu hennar í Match Point .

"Ég er hæstánægð með að fá tækifæri til að vinna með honum aftur. Veit samt ekki hvort ég sé eitthvert ástfóstur hans," segir Johansson og horfir á Allen, sem virðist hreinlega ekki vera með á nótunum, horfir tómum augum til baka á hana og út í salinn og segir svo: "Þið verðið að afsaka. Heyrnin er farin að gefa sig. Ég heyri bara það sem ég legg mig eftir að heyra. Sem er fátt nú orðið, er ég hræddur um." Og karlinn kímir.

Kaldhæðni

En öðruvísi en oft áður, sérstaklega nú upp á síðkastið, bjóðast fá tilefni til að kíma yfir nýjustu mynd Allens, Match Point . Hér er enginn farsi á ferð, engin léttúðug og spaugileg millistéttarrómantík, heldur sver hún sig meira í ætt við þær sem hann gerði á "alvarlega" skeiðinu, á 9. áratug síðustu aldar, einkum þó hina mögnuðu Crimes and Misdemeanors. Þannig er að viðfangsefnin eru áþekk mjög. Enn og aftur fæst Allen við sektarkenndina og það með sínu einstaka kaldhæðnislega nefi, eða öllu heldur gleraugum.

En hvað hefur Allen um samlíkinguna við Crimes and Misdemeanors að segja?

"Sjálfur tel ég þær ansi ólíkar. Þessi mynd er um heppni, metnað og ástríðu en Crimes and Misdemeanors er trúarlegra eðlis, helmingurinn kómískur um sjónvarpið og að láta kaupa sig. En svo má vel vera að ég standi of nærri verkum mínum til að koma auga á hversu áþekk þau eru."

En hvað er það sem heillar hann við þetta sígilda viðfangsefni heimsbókmenntanna; hvað er það sem heillar hann við "hinn fullkomna glæp", glæp án refsingar? Eru þetta hugsanlega kaldhæðnisleg skilaboð frá honum um dómskerfi samtímans?

"Ég hef aldrei áttað mig almennilega á því hvers vegna ég er alltaf sagður kaldhæðinn. Sjálfum finnst mér ég ekkert kaldhæðinn. Kaldhæðni er lítið annað en önnur stafsetning á raunveruleikanum. En ég hef sterkar skoðanir á þessu viðfangsefni og líkt og svo mörgum öðrum þykir mér vera óskaplega mikið óréttlæti í heiminum í dag. Hvert sem litið er eru framdir glæpir - tilfinningaglæpir, líkamlegir glæpir, alþjóðlegir glæpir og stjórnmálaglæpir - sem fólk kemst upp með án refsingar og í ofanálag fyrir rífleg verðlaun."

Allen segist hafa verið innblásinn af bókmenntum 19. aldar þegar hann skrifaði söguna, einkum rússneskum bókmenntum á við verk Dostójevskís. Hann segir það tímabil lengi hafa verið í metum hjá sér. Þess vegna megi sjá titilpersónuna lesa Glæp og refsingu í myndinni; það hafi bæði verið hugsað sem virðingarvottur en einnig til að varpa betra ljósi á persónuna, ungan metnaðarfullan og yfirborðskenndan mann sem leggur allt upp úr ytra atgervi, fasi, framkomu og tilbúnum menntuðum persónuleika. Fyrir utan hina augljósu kaldhæðnislegu vísbendingu í fléttu myndarinnar. Ófáir blaðamenn og gagnrýnendur hafa líkt Match Point við eldri og sígildar bandarískar glæpamyndir á borð við A Place in the Sun eftir George Stevens frá 1951 og An American Tagedy eftir Josef von Sternberg frá 1931. Einkum þykir Scarlett Johansson minna sláandi mikið á Shelley Winters í A Place in the Sun . Er hugsanlegt að myndin sé óður til þessara mynda?

"Nei. Ég hef að sjálfsögðu séð þessar myndir og þær hafa eflaust haft einhver áhrif á mig enda áhrifaríkar myndir. En ég hafði þær aldrei í huga þegar ég skrifaði fléttuna."

Johansson segist hafa séð A Place in the Sun og líti á það sem mikið hól að sér skuli líkt við Winters.

London

Tökustaður Match Point , Lundúnir, hefur vakið mikla athygli, ekki síst vegna þess að þar á Woody Allen í hlut, sá sem ekki hefur hingað til viljað vinna annars staðar en í New York. Hefur þetta vakið ýmsar spurningar, eins og t.d. hvers vegna hann hafi kosið núna fyrst að söðla um og hvort hið breytta vinnuumhverfi hafi breytt honum sjálfum sem listamanni og hvernig hann vinnur myndir sínar.

"Sagan hefði getað átt sér sögusvið í hvaða stórborg sem er; New York, París eða London. Ég gerði myndina í London einfaldlega vegna þess að það hentaði mjög vel, ekki bara fyrir söguna heldur stóðu mér þar til boða kjörvinnuaðstæður. Bakhjarlar myndarinnar eru breskir og þeir reyndust mér einstaklega vel, voru örlátir og sýndu mér fyllsta traust, gáfu mér færi á að gera kvikmyndina án þess að skipta sér af með nokkrum hætti. Sem orðið er býsna sjaldgæft í kvikmyndaheiminum í dag skal ég segja ykkur, tala nú ekki um í Hollywood. Síðan hljómar enska mállýskan svo afskaplega vel í eyrum okkar Kana að ég stóðst ekki mátið að nota breska leikara - fyrir utan þá staðreynd að ég þurfti að gera það samkvæmt breskum lögum, sem segja að myndir sem gerðar eru með opinberum styrkjum verði víst að skarta að meirihluta heimaöldum listamönnum. Ekki spillti svo fyrir hvurslags fagmenn þar reyndust vera. Það rann upp fyrir okkur þegar við vorum að klippa myndina í New York að hver einasti leikari, niður í smæstu hlutverk, skilaði flekklausu verki. Jafnvel þeir sem áttu tvö orð í myndinni hljómuðu dásamlega í okkar Kanaeyrum. Ég var því himinlifandi yfir útkomunni. Þetta reyndust vera hinar ákjósanlegustu aðstæður; umvafinn breskum fagmönnum, allt frá húsvörðum og sendlum upp í leikara og framleiðendur, og með Scarlett í aðalhlutverki. Skothelt."

En í ljósi þessara ummæla og þeirrar staðreyndar að hann vinnur nú að annarri mynd sinni í Lundúnum, getur virkilega verið að líkt og svo mörg önnur ástarsambönd Allens í gegnum tíðina sé hans langlífasta af þeim öllum, ástarsambandið við New York, nú einnig runnið út í sandinn og hér eftir muni hann gera myndir sínar í Lundúnum?

"Það er satt að það reyndist mér svo vel að gera mynd í London að ég ákvað strax að gera aðra mynd þar en það þýðir þó ekki að ég sé fluttur þangað fyrir fullt og allt. Að sjálfsögðu mun ég gera aðra mynd, og vonandi myndir, í New York. Þar á ég heima og þar líður mér best. En það kom mér bara svo mikið á óvart hversu gott var að vinna í London. Meira að segja veðrið þar hentar mér miklu betur. Hitinn og sólin í New York eiga til að fara óskaplega illa í mig. En í London var svalt. Og himinninn grár. Sem er fullkomið fyrir mig."

Hér bætir smásmugulegur breskur blaðamaður inn í að ekki séu allir leikararnir í myndinni breskir; Rhys-Meyer sé t.a.m. írskur og tali líka þannig, þegar grannt er hlustað.

"Veistu. Ég, og að ég held margir landar mínir, greini ekki muninn á ensku, írsku, áströlsku, skosku, velsku eða kanadísku. Þetta hljómar allt svo vel í okkar eyrum."

Bréfpokar

Það er orðin ísköld staðreynd að Woody Allen, eitthvert mikilvægasta kvikmyndaskáld Bandaríkjanna fyrr og síðar, nýtur ekki lengur nægilegs trausts í heimalandinu til að geta skapað listaverk sín þar óáreittur. Eins og kunnugt er tilheyrir hann þeim fámenna hópi kvikmyndagerðarmanna sem fer fram á að hafa fullt listrænt frelsi, að geta unnið að verkum sínum óáreittur og án afskipta framleiðendanna. Sem er nokkuð sem bandarískir framleiðendur og fjárhagslegir bakhjarlar kvikmynda þar í landi geta ekki lengur sætt sig við, að sögn Allens, þeir treysti ekki listamönnum lengur fyrir fjármunum sínum.

"Þeir vilja skipta sér af ráðningu leikara, útliti myndarinnar, endinum og næstum öllu því sem á að teljast til verksviðs leikstjórans, höfundar listaverksins. Ég hef hins vegar aldrei unnið þannig og get það ekki. Ég vil ráða alfarið handritsskrifunum og leikaravalinu. Er svo gamaldags að ég vil fá afhenta peninga í brúnum bréfpoka og skila af mér fullkláraðri bíómynd tveimur mánuðum síðar. Ég get útvegað mér fjármagnið í Bandaríkjunum, en það hangir meira á spýtunni en ég sætti mig við. Samstarfsmenn mínir í London uppfylltu allar þessar skrítnu kröfur sérvitringsins frá Ameríku."

Allen segist hafa farið svo samviskusamlega eftir reglunum um að ráða aðeins breskt starfsfólk að hann hafi í fyrstu haldið að hann þyrfti að láta breska leikkonu fara með hlutverk bandarísku konunnar, sem Scarlett Johansson átti síðan eftir að leika. Fregnir bárust einmitt af því að Kate Winslet hefði tekið hlutverkið að sér en einhverra hluta vegna - sem Allen vildi greinilega ekki fara út í - vék Winslet fyrir Johansson. "Svo vildi til að Scarlett var á lausu þegar verið var að ráða í hlutverkin og mér til mikils láns var hún til í tuskið og reiðubúin að vinna fyrir þau smávægilegu laun sem við höfðum svigrúm til að greiða. Kvikmyndagerðin mín er mjög lýðræðisleg, enginn fær greitt neitt," gantast Allen. "Og enginn er stjarna, allir í stafrófsröð. Ég hafði séð hana í tveimur myndum og þótti hún hreint einstakleg þroskuð leikkona miðað við aldur. Síðan komst ég að því að hún hefur áhuga á að vinna með álfum eins og mér, vegna þess að hún er ekki bara leikkona heldur hefur hún einnig brennandi áhuga á kvikmyndagerðinni sjálfri og lætur sig varða alla þætti hennar. Og vegna hennar og allra hinna sem ég var svo lánsamur að ná í held ég að myndin hafi komið býsna vel út. Ég er mjög gagnrýninn á myndir mínar og ég er bara ekki frá því að þessi sé með mínum betri." Og gott ef þessi ameríski sérvitringur í London hefur ekki bara rétt fyrir sér.

Meðferð

En nú þegar Allen stendur á sjötugu, á að baki 35 myndir og gerir myndir reglulegar en flestir aðrir, er það enn ástríðan sem drífur hann áfram eða gamall vani?

"Kvikmyndagerðin dreifir athyglinni. Heldur mér við efnið. Ef ég geri ekki kvikmyndir fer allt í flækju og ég lendi í alls kyns glímum við vágesti sem eru sál minni óhollir; eins og þunglyndi, kvíða, ótta. Það er eins og á geðsjúkrahúsunum; á meðan sjúklingum er haldið uppteknum við að föndra eða vinna í höndunum eru þeir yfirvegaðir og í jafnvægi. Sama gildir um mig ef ég er stöðugt að; að skrifa, leika, leikstýra, klippa. Þetta er meðferð. Ef fólk kemur og hefur áhuga á að sjá útkomuna er ég himinlifandi. Ef ekki, þá held ég samt áfram. Ég bara verð, andlegrar heilsu minnar vegna, og minna nánustu. Ég kann best við mig í skáldheimum mínum. Um leið og ég þarf að snúa aftur til raunheima kem ég mér oftar en ekki í klípu sem ég fæ ekki við bjargað."

skarpi@mbl.is