Langafasta er byrjuð, og því hollt að rifja upp atburðina sem leiddu til dauða meistarans og upprisu. Sigurður Ægisson valdi til þess prósaljóð gamals lærimeistara síns, Jónasar Gíslasonar, fyrrum vígslubiskups í Skálholti.

Hefur þú hugleitt,

hvað það kostaði Guð

að leysa sköpun sína

undan bölvun syndarinnar?

Það kostaði hann allt.

Fastan gengur í garð

og vér minnumst þess,

hvað sonur Guðs þjáðist,

áður en hann gat hrópað:

Það er fullkomnað!

Ekkert sýnir betur

kærleika Guðs

en píslarsaga

Jesú Krists,

er síra Hallgrímur

gjörir frábær skil

í Passíusálmunum.

Sá, sem kann ekki

að meta hana,

lítilsvirðir

kærleika Guðs.

Jesús fórnaði sér

oss til lífs.

Ég er hræddur um,

að ýmsir misskilji

fórnardauða Krists

og líti fyrst og fremst

á hann sem píslarvott

háleitra kenninga.

Alvarlegur

misskilningur

væri að halda það.

Veiztu

hvers vegna

Jesús í Getsemane

baðst undan

þessari fórn?

Honum var gjört

að tæma í botn

þjáningabikar

mannkyns.

Vér fáum vart skilið,

hvað í því felst!

Jesús Kristur,

sonur Guðs,

er átti hlut

með föðurnum

í himneskri dýrð,

varð að afsala sér

dýrð himnanna

og taka á sig

alla synd,

er menn hafa drýgt

á þessari jörð.

Allur sori og óþverri

mannlegrar grimmdar

var honum tilreiknaður

og hann varð

persónulega ábyrgur

fyrir allri illskunni!

Jesús Kristur

varð sekur

um öll fólskuverk

mannkyns

frá upphafi sköpunar

og var útskúfað

frá Guði!

Því hrópaði hann:

Guð minn!

Guð minn!

Hví hefur þú

yfirgefið mig?

Kristur varð

persónulega sekur

um allan óþverrann,

og úrslitaorustuna

við Satan

og þjóna hans

háði hann sem maður,

en ekki Guð.

Hann hafði afklæðzt

dýrð og valdi Guðs

og gjörzt maður.

Það var eina leiðin

til að frelsa

synduga menn.

Hinn saklausi

talinn er sekur,

að sekir

við refsingu sleppi.

Minnumst á föstunni

kærleika Guðs til vor.

Lof sé þér, Kristur,

frelsari vor.

sigurdur.aegisson@kirkjan.is