SAMKVÆMT könnun um hug Norðlendinga til álvers á Norðurlandi, sem Gallup framkvæmdi fyrir iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið, kemur fram að meirihluti Norðlendinga er hlynntur byggingu álvers á Bakka við Húsavík eða 77,0%.
SAMKVÆMT könnun um hug Norðlendinga til álvers á Norðurlandi, sem Gallup framkvæmdi fyrir iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið, kemur fram að meirihluti Norðlendinga er hlynntur byggingu álvers á Bakka við Húsavík eða 77,0%. Færri eru fylgjandi byggingu álvers á Brimnesi í Skagafirði eða 48,4% og enn færri á Dysnesi í Eyjafirði, eða 47,1%. Í flestum tilfellum er þetta aukning frá sambærilegri könnun sem gerð var fyrir ári síðan en þá mældist stuðningur við álver á Bakka við Húsavík rúmlega 11% minni eða 65,9%, stuðningur við álver á Brimnesi mældist 37,2%, einnig rúmlega 11% minni. Stuðningur við álver á Dysnesi í Eyjafirði hefur aftur á móti minnkað um 4,5% en stuðningur var meðal 51,6% íbúa í fyrra.
Minni stuðningur við virkjun
Stuðningur Norðlendinga við vatnsaflsvirkjun á svæðinu hefur einnig minnkað talsvert en um 30,6% Norðlendinga eru hlynntir virkjunum á Skjálfandafljóti eða í Þingeyjarsýslu og er það um 19% minna en í síðustu könnun. Tæplega 60% eru andvíg virkjunum á þessum svæðum. Fylgi við byggingu vatnsaflsvirkjana á Skagafjarðarsvæðinu hefur einnig minnkað og mælist nú 44,5% og er það 10,4% minna en síðast, en um 51% Norðlendinga er andvígt virkjunum á Skagafjarðarsvæðinu.