Gunnlaugur P. Pálsson
Gunnlaugur P. Pálsson
Gunnlaugur P. Pálsson fjallar um flugöryggi og börn: "Nú boðar sýslumaður aukið álag á börn og foreldra með því að banna foreldrum að fylgja barninu í gegnum flugstöðvarbygginguna og að flugvélinni."

JÓHANN R. Benediktsson, sýslumaður á Keflavíkurflugvelli, tilkynnti nýlega að öryggisreglur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar yrðu hertar. Samkvæmt forsíðugrein Fréttablaðsins þann 12. febrúar síðastliðinn felur það í sér að fólki verði meinað að fylgja þeim inn í flugstöðina sem af einhverjum ástæðum komast ekki hjálparlaust í og úr flugi, svo sem börnum, fötluðum og öldruðum.

Allmargir Íslendingar eru í þeirri aðstöðu að þurfa að senda börn sín á milli landa til að heimsækja foreldri í öðru landi, ömmur og afa eða önnur skyldmenni. Í nútíma samfélagi er mjög algengt að börn búi ekki hjá báðum foreldrum en réttur barna til umgengni við foreldra sína er ekki umdeildur. Samkvæmt reglum flugfélaganna mega börn, sem hafa náð 6 ára aldri, ferðast ein.

Fram að þeim aldri þurfa þau fullorðinn fylgdarmann. Flugfélögin hafa brugðist við þörfum barna, sem ferðast ein, með miklum sóma og bjóða upp á þá þjónustu að annast börnin í fluginu gegn þóknun. Forráðamenn barnanna hafa fengið leyfi til að fylgja þeim inn í flugstöðina, að brottfararhliði og hafa beðið með þeim fram að brottför. Jafnframt hefur það verið krafa að forráðamaður yfirgefi ekki flugstöðvarbygginguna fyrr en flugvélin er farin í loftið.

Þetta fyrirkomulag hefur reynst vel fyrir foreldra og börn. Það breytir hins vegar ekki þeirri staðreynd að það er álag fyrir börn að ferðast ein. Þau þurfa að sitja ein í margra klukkutíma flugi og fara í fylgd ókunnugra að töskufæribandinu þar sem þau þurfa að finna sína tösku sjálf. Nú boðar sýslumaður aukið álag á börn og foreldra með því að banna foreldrum að fylgja barninu í gegnum flugstöðvarbygginguna og að flugvélinni.

Allir sem fara inn á brottfararsvæði flugstöðvarinnar hafa hingað til farið í gegnum vopnaleit, hvort sem viðkomandi er á leið úr landi eða ekki. Hvaða sérstök ógn stafar öryggi flugumferðar af fylgdarmönnum barna, umfram flugfarþega? Það hefur ekki verið útskýrt á annan hátt en að krafan komi frá alþjóðlegum eftirlitsaðilum.

Hingað til hefur verið nógu erfitt fyrir börnin að fljúga ein og aðstandendur þeirra að senda þau ein í flugi og nú er ætlunin að þau verði einsömul á flugvellinum í allt að 2 klukkustundir fyrir brottför. Nefna má einnig að börn, sem alast upp að miklum hluta erlendis, eru ekki endilega fullfær í íslensku og vantreysta sér á því sviði. Án fylgdar foreldra í gegnum flugstöð er óvíst að börnin treysti sér til að ferðast ein og foreldrarnir telji forsvaranlegt að senda þau fylgdarlaust á milli landa. Kostnaður við að fullorðinn þurfi að fljúga með barninu í hverri ferð er umtalsverður og getur reynst mörgum fjölskyldum ofviða. Það hefur síðan áhrif á möguleika og rétt barnsins til að umgangast báða foreldra sína og skyldmenni.

Ég er í sömu aðstöðu og fjölmargir aðrir. Barnið mitt á móður og lögheimili í öðru landi en kemur til Íslands 3-4 sinnum á ári til að hitta mig og fjölskyldu sína hér.

Fyrstu ferðirnar, sem barnið var eitt í flugvélinni, voru mjög erfiðar fyrir barnið. Það er ekki tryggt að þetta barn geti flogið eitt á milli landa ef boðaðar breytingar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar koma til framkvæmda. Ég hefði haldið að stefna okkar í lýðræðislegu fjölskyldusamfélagi ætti að ýta undir samneyti skilnaðarbarna við það foreldri sem börnin búa ekki hjá. Slíkt samneyti eflir sjálfstraust barnanna og öryggiskennd. Það er býsna kaldhæðnislegt ef alþjóðlegt flugöryggi á Keflavíkurflugvelli verður sú hindrun sem nú er útlit fyrir. Ef fyrir liggja lausnir á hvernig tekið verður á móti börnum sem ferðast ein hefur þeim ekki verið komið á framfæri. Það eina sem sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli virtist hafa áhyggjur af, ef tekið er mið af fyrrnefndri grein í Fréttablaðinu, er aukinn kostnaður embættisins við breytt fyrirkomulag.

Það er ósk mín með þessu bréfi að koma af stað umræðu um þetta mál. Ég sendi þetta bréf til fjölmiðla og líka til þeirra sem hljóta að eiga að svara fyrir þessa ákvörðun.

Höfundur á barn, hvers móðir býr í öðru landi.