[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það góða við listina er að hún lætur ekki að stjórn frekar en höfuðskepnurnar og má hér vísa til málsháttarins alkunna: þó að náttúran sé barin með lurk leitar hún út um síðir.

Það góða við listina er að hún lætur ekki að stjórn frekar en höfuðskepnurnar og má hér vísa til málsháttarins alkunna: þó að náttúran sé barin með lurk leitar hún út um síðir. Skrifari enginn áróðursmaður fyrir ákveðnar listastefnur og hefur aldrei verið, flytur engan boðskap um kórréttar lausnir. Heldur sér einnig á hliðarlínunni og er talsmaður fjölbreytni og ferskra nýhugsana á öllum vígstöðvum þó einkum innan marka myndlistarinnar eins og hugtakið var lengstum skilið verklega séð. Það heitir einfaldlega að hann virðir eldri gildi en um leið er víðs fjarri að hann hafni þeim nýju, telst þó alfarið andvígur fjarstýrðum sveiflum sem reglulega vilja gerast allsráðandi þótt efast megi um inntakið, nú síðast inni í myndinni að rjúfa öll skil milli listgreina. Áður voru það einstaklingar og fámennir hópar sem breyttu umhverfi listarinnar en á seinni tímum hafa orðið mikil hvörf á vettvanginum, annars vegar stíf og mjög umdeilanleg markaðssetning, hins vegar fræðileg samræða hvar orðið þrengir hinu mynd- og skynræna í bakgrunninn. Orðræðan haft svo mikið vægi í myndlistarskólum á seinni árum að eiginlega voru þeir farnir að útskrifa rithöfunda í bland (!), leggja höfuðáherslu á sundurgreiningu og útlistun í stað upplifunar.

Samtímis hefur vægi og stjórnsemi sýningarstjóra aukist til mikilla muna og sér engan enda á þeirri þróun og ekki allir með hýrri há yfir framvindunni, einkum eldri kynslóðir sem vita að sýningarstjórar hafa alltaf verið til en lengstum haldið sig til hlés. Við hæfi að herma hér aðeins af sýningu verka Pierre Soulages á Ordrupgaard í útjaðri Kaupmannhafnar sem lauk 12. febrúar og vakti að sjálfsögðu mikla athygli. Dönsku blöðin slógu því upp að franski áhrifavaldurinn væri enn virkur þrátt fyrir árin 87 að baki, meðan allir helstu sporgöngumenn hans í Danaveldi væru horfnir til feðra sinna! Jafnframt að hann hafi sjálfur valið verk á sýninguna og fundið hverju þeirra stað á veggjunum. Væri af þeirri gerð listamanna sem gætu vísað svo til hvaða sýningarstjóra sem væri til atvinnumiðlunar!

Nú hefur orðið nokkur breyting á hlutunum, forsmekkurinn stofnun akademíu með gamla sniðinu í New York fyrir áratug eða svo, sem án tafar varð vinsælasti listaskóli vestan hafs, nemendum aftur haldið að vinnu en samræðunum vísað til síns heima, kaffihúsanna. Vinnan varð á ný drifkrafturinn og nemendum skylt að vera sýnilegir í skólastofunum, fátt ömurlegra fyrir lærimeistarana en að koma að tómum kennslustofum eða nemendum í samræðum yfir kaffibolla og kleinuhringjum. Spursmálið ekki stílar, stefnur, íhaldsemi né framúrstefna, einungis traust grunnmenntun og yfirsýn.

Frá flestu þessu hef ég áður greint en endurtek hér vegna þess að nú berast óvæntar fréttir frá Stokkhólmi og Kaupmannahöfn. Nýverið mátti lesa í sænska blaðinu Expressen, að nemendur listaakademíunnar væru aftur farnir að mála af krafti og var höfundur greinarinnar, hallur undir hugmyndalist, ósáttur við þá framvindu. Hann var þó nógu heiðarlegur til að gæta hlutlægni í skrifi sínu og bætir við að málverkið sé í slíkum uppgangi að jafnist á við níunda áratuginn. Sem kunnugt er varð mikil sprenging í listheiminum uppúr 1980 eftir að hugmyndalistin hafði haldið málverkinu utangarðs í áratug, um leið hefur sagan endurtekið sig um metverð á uppboðum vestan hafs sem austan. Frá Kaupmannahöfn berast enn óvæntari fréttir, en þar virðist ásóknin í málverkið enn meiri um þessar mundir, listhúsaeigendur og listunnendur gera sér jafnvel ferð á listaakademíuna á Kóngsins nýjatorgi með seðlaveskið á lofti og bjóða í málverk nemenda og hafa sumir ekki við að anna eftirspurninni! Stjórnendur skólans eðlilega farnir að hugleiða að setja hér einhverjar skorður þar sem stofnunin hefur ekki markaðs- og sölusjónarmið á stefnuskrá sinni. Til tals hefur komið að fara að dæmi Þjóðverja sem banna alla slíka sölumennsku innan veggja listakademía og framandi sýningahald utan þeirra svo lengi sem viðkomandi eru reglulegir nemendur og hafa sem slíkir aðgang að fjölda styrkja og fríðinda. Reyndar var sá háttur lengstum skráð og óskráð lög sem fáir voguðu sér að fara á svig við, gerandi um leið á hálum ís, en á seinni tímum hafa orðið miklar breytingar hér á og los komið á hlutina, en þegar málverkið og sjálft handverkið eiga í hlut að óvæntum uppgangi eftir að hafa verið utangarðs um langt skeið er líkast sem menn vakni við vondan draum.

Líkja má þessari þróun við endurreisn skynfæranna eftir að þau höfðu lengi átt erfitt uppdráttar og víða úthrópuð, rökræða og rökvísi skyldi koma í stað tilfinninga og náði hæstu hæðum á blómaskeiði naumhyggju og í stöðluðum módernisma. Tölvan tók við af blóðflæði rissins, listamenn hættu að vera með rissblokkina í vasanum dags daglega, raunveruleikinn allt um kring ekki skynjaður heldur til að mynda fiskaður upp á skjánum og prentaður út, enda öllu hægara um vik.

Reyndar hafði lengi kraumað undir yfirborðinu, fréttir borist af listspírum sem voru orðnar leiðar á þessum sandkassaleik innan skólaveggjanna sem skildi svo lítið eftir sig, vildu meiri kennslu og marksækni, minna af fyrirlestrum og orðgnótt. Ekki gekk heldur til lengdar að ryðja fortíðinni út af borðinu með sömu ákefð og múgurinn í Rússlandi var espaður upp að gera eftir byltinguna, afleiðingarnar skelfilegar sem menn þekkja einna best í húsagerðarlistinni sem fylgdi. Stefnumörkin bárust fljótlega til vestursins helst skyldi eldur lagður að listasöfnum og eldri list bar að útrýma, afneita gömlum gildum í myndlist og arkitektúr allt í nafni öreigabyltingarinnar. En svo gerðust löngu seinna þau stórmerki að réttlætanlegt varð að leita til sömu gilda undir formerkjum síðmódernisma og þá handagangur í öskjunni. Barokkinu, hinu forsmáðasta af öllu, jafnvel lyft á stall af stjörnuarkitektum tímanna en í nýjum búningi með aðstoð tölvutækninnar.

Kannski segir þetta einhverjum að ekki gengur nema skamma hríð að útbreiða stórasannleik sem allir skuli aðhyllast vilji þeir verða menn að meiri, - inni í myndinni. Hins vegar ósköp eðlilegt að þá og þá stundina sé eitthvað meira í sviðsljósinu en annað, en í kjarna sínum er eðlislægt og sjálfsprottið sköpunarferli hafið yfir þesslags handstýringu.

Picasso sagði einhvern tíma: Við vitum að listin er ekki sannleikur. Listin er lygi, sem gerir okkur mögulegt að höndla sannleikann, í öllu falli þann sannleika sem okkur er gefið að skilja. Listamaðurinn verður að þekkja háttinn hvernig hann sannfærir aðra um sannindin í lygi sinni. Og Michel Houellebecq segir í bókinni Öreindirnar: Lygin er gagnleg þegar hún gerir kleift að breyta raunveruleikanum, en þegar breytingarnar mistakast verður ekkert eftir nema lygin, biturðin og vitundin um lygina.

Í báðum tilvikunum er falinn mikill vísdómur, inntakið fyrst og fremst að engin stefnumörk geti talist fullkomin og óumbreytanleg, sannleikurinn engu síður hverfull en lygin. Framslátturinn klæddur í snjallan búning, stjakar við mönnum og vekur til umhugsunar sem vitaskuld var tilgangurinn.

Bragi Ásgeirsson