Herborg Jónsdóttir fæddist á Herríðarhóli í Ásahreppi í Rangárvallasýslu 4. maí 1936. Hún lést á Landspítalanum við Hringbraut 7. desember síðastliðinn og fór útför hennar fram frá Fossvogskirkju 16. desember.

Herborg fæddist á Herríðarhóli í Ásahreppi í Rangárvallasýslu. Börnin voru mörg, eða 16 alls, svo margt var um manninn á æskuheimili Herborgar. Þegar ég kynntist Herborgu var hún ung og hraust og var ein af 35 nemendum í húsmæðraskólanum á Laugarvatni, sem var þá í Lindinni, gamla rauða húsinu sem okkur öllum þótti vænt um.

Núna, rúmlega 50 árum seinna, eru sex látnar úr hópnum okkar. En 5. maí í vor tókst okkur að halda upp á 50 ára útskriftarafmæli okkar og þá var Herborg með okkur og engum datt í hug að svo yrði ekki áfram um margra ára skeið.

En enginn veit sína ævi fyrr en öll er.

Herborg var alltaf hress og kát, jákvæð og í góðu skapi. Hún var hinn mesti dugnaðarforkur og lét aldrei sitt eftir liggja, þegar eitthvað stóð til.

Við vorum allar ungar og brölluðum ýmislegt en aldrei neitt sem braut í bága við reglur skólans.

Slíkt gerði uppeldi okkar.

En þetta skólaár á Laugarvatni var það skemmtilegasta. Okkur líkaði öllum vel og ég er alveg viss um að það hefur átt við Herborgu líka.

50 ára afmælið var haldið í Lindinni. Þangað mættum við 22 af þeim 30 sem þá lifðu. En nú erum við einni færri og eigum eftir að sakna Herborgar.

Samúðarkveðjur okkar allra.

Fyrir hönd skólasystra,

Valborg Soffía Böðvarsdóttir.