NOKKUÐ hefur borið á kvörtunum og ábendingum til fjársvikadeildar lögreglunnar að undanförnu um erlendar tilkynningar þar sem gefið er til kynna að fólk hafi unnið háar fjárhæðir í alþjóðlegu happdrætti.

NOKKUÐ hefur borið á kvörtunum og ábendingum til fjársvikadeildar lögreglunnar að undanförnu um erlendar tilkynningar þar sem gefið er til kynna að fólk hafi unnið háar fjárhæðir í alþjóðlegu happdrætti. Þá hefur tilkynningum fjölgað sem sendar eru bréfleiðis og stílaðar á einstaklinga í stað tölvupóstsendinga, sem flestir eru farnir að sjá í gegnum.

Í flestum tilfellum eru bréfin póstlögð á Spáni og er vinningshafinn beðin um senda fyrirtækinu, sem stendur að happdrættinu, fax með persónulegum upplýsingum ásamt bankanúmeri.

Að sögn lögreglu eru landsmenn orðnir nokkuð kunnugir slíkum fjársvikum en alltaf kemur þó fyrir að einstaklingar láti glepjast og setji sig í samband við viðkomandi fyrirtæki í von um skjótan gróða. Enda þau viðskipti nær undantekningalaust með töpuðum fjármunum sem ógerlegt er að fá til baka.

Fjársvikarar af þessu tagi eru afar ágengir og láta sér ekki nægja að senda tölvupóst, eða bréfpóst, heldur eru dæmi um það að fólk fái hringingar frá erlendum aðilum þar sem m.a. er boðið upp á verðbréfakaup í gegnum símann. Að sögn lögreglu þarf vart að taka fram að slík viðskipti eru ekki talin líkleg til ávinnings.

Ef torkennilegur póstur berst er mælt með að fletta upp nafni viðkomandi fyrirtækis, eða hluta af innihaldi bréfsins, á leitarvef Google.