Knörr VE 73 var seglbátur smíðaður í Noregi, en í hann var sett átta hestafla vél í Danmörku og siglt á honum til Vestmannaeyja.
Knörr VE 73 var seglbátur smíðaður í Noregi, en í hann var sett átta hestafla vél í Danmörku og siglt á honum til Vestmannaeyja. — Ljósmyndasafn Reykjavíkur/Magnús Ólafsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Merkileg sýning, sem nefnist Upphaf vélvæðingar bátaflotans í Eyjum var opnuð í Byggðasafni Vestmannaeyja föstudaginn 17. febrúar. Með sýningunni er þess minnst að 3. febrúar voru liðin 100 ár síðan svonefnd vélbátaöld hófst í Vestmannaeyjum.

Merkileg sýning, sem nefnist Upphaf vélvæðingar bátaflotans í Eyjum var opnuð í Byggðasafni Vestmannaeyja föstudaginn 17. febrúar. Með sýningunni er þess minnst að 3. febrúar voru liðin 100 ár síðan svonefnd vélbátaöld hófst í Vestmannaeyjum. Guðjón Ármann Eyjólfsson fjallar um sýninguna og vélvæðingu bátaflotans í Eyjum.

Þriðja febrúar árið 1906 fara tveir vélbátar, Knörr VE 73 og Unnur VE 80, í sögulegan róður.

Þorsteinn Jónsson í Laufási var formaður með Unni og vetrarvertíðina 1906 var Unnur langaflahæsti báturinn í Eyjum og sannaði þar með yfirburði vélbátanna. Brotið var blað í útgerðarsögu Vestmannaeyja og upphaf vélbátaaldar í Vestmannaeyjum er miðað við árið 1906.

Knörrinn aflaði ekki eins vel þau tvö ár sem báturinn var gerður út í Vestmannaeyjum "og var því kennt um að hann væri of stór til línuveiða," ritar Þorsteinn í Laufási í Aldahvörf í Eyjum, útgerðarsögu Vestmannaeyja frá 1890 til 1930. Knörrinn varð síðar vatnsbátur í Reykjavíkurhöfn, þ.e. sigldi með vatn til skipa sem lágu úti á legunni og bar beinin í Reykjavík um 1926.

Eros - fyrsti vélbáturinn

Fyrsti vélbáturinn kom þó til Vestmannaeyja vorið 1904. Sá bátur hét Eros VE 63 og var tæp 4 tonn að stærð. Bjarni Þorkelsson, skipasmiður og skipaeftirlitsmaður í Reykjavík, smíðaði Eros, sérstaklega í þeim tilgangi að setja vél í bátinn. Hann var með tveggja strokka Möllerups-vél, sex hestafla, sem reyndist gallagripur og misheppnaðist þessi tilraun með mótorbát í Vestmannaeyjum. Hefur þetta eflaust tafið fyrir að Vestmannaeyingar hæfust þá almennt handa við að vélvæða flotann. Eigendur Erosar voru hinn mikli athafnamaður, Gísli J. Johnsen, stjúpfaðir hans Sigurður Sigurðsson í Frydendal, sem var formaður og Ágúst Gíslason í Valhöll.

Um þessar mundir var vélvæðing bátaflotans að hefjast á Íslandi, en árið 1902 var fyrst sett vél í sexæringinn Stanley á Ísafirði sem þeir Árni Gíslason og Sophus J. Nielsen áttu.

Nokkru síðar, vorið 1904, var sett vél í bátinn Bjólf á Seyðisfirði og segir Þorsteinn í Laufási svo frá í Aldahvörfum í Eyjum: "Sú hugsun að fá hingað vélbát lét mig ekki í friði, þegar ég hafði séð vélbátinn Bjólf á Seyðisfirði."

En Þorsteinn var í ágústmánuði árið 1904 við sjóróðra austur á Seyðisfirði. Bjólfur var byggður í Frederikssundi og var með 6 hestafla Dan-vél.

Sumarið 1904 var sett vél í bát frá Hrísey á Eyjafirði og fyrstu vélbátarnir komu til Norðfjarðar, Reyðarfjarðar og Eskifjarðar árið 1905 og 1906 og voru með Gideon- og Dan-vélar.

Sumarið 1905 fóru þeir Sigurður Sigurfinnsson hreppstjóri á Heiði og Símon Egilsson í Miðey í Vestmannaeyjum til Noregs til þess að leita sér að vélbát. Þeir keyptu þar seglbát sem var nefndur Knörr VE 73 og sigldu honum til Frederikshavn í Danmörku þar sem var sett 8 hestafla Dan-vél í bátinn. Sigurður lýsir bátnum þannig að hann hafi verið 36½ fet (um 11,5 m) á lengd, 12½ fet (um 4 m) á breidd og 6 fet (1,9 m) á dýpt. Knörrinn var 12-14 smálestir brúttó, "um 10 smálestir nettó" skrifar Sigurður sjálfur.

Þegar þetta gerðist var Sigurður hreppstjóri 53 ára gamall, f. 6. nóvember 1851, þaulvanur sjómaður og formaður á áraskipi. Í frægu kvæði eftir Örn Arnarson sem nefnist Sigurður hreppstjóri er honum líkt við fornan sjóvíking sem "stæði í lyfting, stýrði dreka/ strandhögg tæki að fornum sið".

Knörrinn - fyrsta sigling vélbáts upp til Íslands

Knörrinn undir skipstjórn Sigurðar lagði út frá Frederikshavn sem er norðan til á Jótlandi í lok ágúst árið 1905. Þeir voru þrír á bátnum og notuðu bæði segl og vél á siglingunni upp til Íslands. Til Vestmannaeyja komu þeir síðdegis 5. september í austan stormi og héldu sér á seglum (slöguðu) austan við Eyjarnar þar til varð nægilega hásjávað svo að þeir kæmust inn til hafnar sem var þá opinn vogur innan skerja með þröngri og varasamri siglingaleið. Þeir voru í höfn klukkan sex að kveldi hinn 5. september.

Faðir minn, Eyjólfur Gíslason frá Búastöðum (síðar Bessastöðum), sem fæddur var 1897 (d. 1995) minntist oft á hvað þessi atburður og biðin eftir að Knörrinn sigldi inn til hafnar hefði verið sér minnisstæð.

Um þessa siglingu Knarrarins sem er fyrsta sigling vélbáts upp til Íslands er til greinargóð frásögn Sigurðar í bréfi, sem var dagsett 6. október 1905, til Þorsteins Gíslasonar, ritstjóra fréttablaðsins Óðins, þar sem ferðasagan birtist í maí árið 1906. Kemur þar fram að á leiðinni hreppti Knörrinn iðulega slæmt veður og mótdræga storma á 10 daga siglingu bátsins frá Danmörku til Íslands. Sigurður Sigurfinnsson hefur verið afburða sjómaður og mikill og nákvæmur siglingamaður ("navigatör") með engan skóla að baki nema sjálfsnám og tilsögn Jósefs Valdasonar sem fórst árið 1887 við Eyjar.

Um hina nýju atvinnubyltingu þegar fiskiskipafloti Íslendinga var að breytast frá áraskipum til vélskipa skrifaði Sigurður í fyrrnefndu bréfi: "Sannfærður er ég um, að þessu líkir bátar (vélbátar eins og Knörrinn) eru vænlegri til aflabragða og áreiðanlegri fyrir líftóruna en opnu manndrápsbollarnir, sem vaninn, heimskan og þekkingarleysið eru búin að negla íslenzka og færeyska sjómenn við hverja öldina eftir aðra."

Eigendur Knarrar voru, auk Sigurðar Sigurfinnssonar, Magnús Þórðarson í Sjólyst, Lyder Höjdal, Þingvöllum, Einar Jónsson, Garðhúsum og Árni Filippusson í Ásgarði, áttu þeir allir jafnan hlut, 1/5 hver.

Aflaskipið Unnur VE 80

Þriðji vélbáturinn sem kom til Vestmannaeyja var Unnur VE 80 sem kom með flutningaskipinu Lauru hinn 9. september 1905.

Unnur VE 80 var nýsmíði, súðbyrtur bátur, smíðaður úr eik í Frederikssundi á Sjálandi, en síðar komu þaðan fjölmargir vélbátar til Vestmannaeyja, allt fram undir 1930.

Unnur VE 80 var rúm 7 tonn að stærð, 33 fet á lengd (um 10,40 m), og 8 fet (rúmlega 2,5 m) á breidd með 8 hestafla Dan-vél og gekk 6 til 7 sjómílur í logni.

Eigendur Unnar voru Þorsteinn Jónsson í Laufási sem var formaður; þá 25 ára gamall en orðinn reyndur og farsæll formaður á áttæringnum Ísak sem hann var með í fimm vertíðir. Þorsteinn Jónsson í Jómsborg, síðar bóksali og skrifaði sig Johnson, var vélstjóri á Unni, Geir Guðmundsson á Geirlandi, Friðrik Svipmundsson í Görðum, síðar á Löndum og Þórarinn Gíslason Lundi.

Tímamótadagur

Þessir tveir vélbátar, Knörr VE 73 og Unnur VE 80, fóru í útdráttarróður frá Vestmannaeyjum 3. febrúar 1906.

Þorsteinn í Laufási, formaður á Unni, lýsir þessum fyrsta róðri í Aldahvörfum í Eyjum. Með frábærum aflabrögðum Unnar vetrarvertíðina 1906 sem var langaflahæsti bátur í Vestmanneyjum þessa vertíð urðu eins og áður segir straumhvörf.

Friðrik Ásmundsson, fyrrv. skólastjóri Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum, ritar í fróðlegum kynningarbæklingi fyrrnefndrar sýningar sem hér hefur verið stuðst við ásamt fleiri heimildum:

"Enginn dagur markar eins mikil tímamót hvað varðar framfarir og uppbyggingu Vestmannaeyja eins og 3. febrúar 1906. Þá hófst slíkt framfaraskeið með fólksfjölgun, uppbyggingu og öllu sem fylgdi að fá dæmi ef nokkur eru um slíkt á Íslandi. Vestmannaeyjar urðu strax í fararbroddi útgerðar og fiskvinnslu.

Knörr og Unnur mörkuðu stefnuna með afgerandi og eftirminnilegum hætti."

Bylting í atvinnuháttum

Þessi bylting í atvinnuháttum var svo algjör að vetrarvertíðin 1906 var jafnframt síðasta vertíð opnu áraskipanna og þau voru öll lögð fyrir róða og ekki eitt einasta hinna frægu áraskipa (Gideon, Auróra, Ísak o.fl.) sem gengu frá Vestmannaeyjum á 19. öld og fram til 1907 hefur varðveist.

Vetrarvertíðina 1907 voru gerðir út 22 vélbátar í Vestmannaeyjum og vertíðina 1908 voru vélbátarnir orðnir 40.

Það er athyglisvert að eigendur þessara 22 vélbáta voru 119 talsins og skýrir það að nokkru þann kraft sem varð í uppbyggingu og sókn bátaflotans næstu árin. "Þessari þátttöku í útgerðinni var það að þakka, að Vestmannaeyingar tóku forystuna í vélbátaútvegi Íslendinga þegar í upphafi og hafa haldið henni síðan," ritar Þorsteinn í Laufási í Aldahvörfum í Eyjum (útg. 1958).

Árið 1912 voru gerðir út 58 vélbátar, 4 til 12 rúmlestir að stærð. Árið 1920 voru vélbátar í Vestmannaeyjum 74, flestir minni en 12 rúmlestir. Árið 1930 voru vélbátarnir orðnir 97. Íbúatala Eyjanna óx einnig hröðum skrefum á þessum fyrstu árum vélbátanna. Ungt og þróttmikið dugnaðarfólk, flest sárfátækt, streymdi til Vestmannaeyja. Fólk kom af öllu Suðurlandi, flest úr nærsveitum Rangárvallasýslu, Landeyjum, Fljótshlíð, Eyjafjöllum, og úr Skaftafellssýslum, en einnig frá sjávarplássum eins og Stokkseyri og Eyrarbakka og frá Austfjörðum og Norðausturlandi.

Íbúar í Vestmannaeyjum voru 607 talsins árið 1901 og árið 1906 um 650. Árið 1910 bjuggu þar rúmlega 1.300 manns; árið 1920 voru íbúar 2.426 manns og hafði íbúatalan því fjórfaldast á 20 árum. Árið 1930 bjuggu í Vestmannaeyjum um 3.400 manns og stóð íbúatalan nokkuð í stað næstu 20 árin en var 3.726 árið 1950.

Upphafs vélbátaaldar minnst

Þessara uppgangstíma og upphafs vélbátaaldar í Vestmannaeyjum er nú minnst með mjög merkilegri og fróðlegri sýningu sem haldin er á tveim stöðum í Vestmannaeyjum:

Í Byggðasafni Vestmannaeyja með sýningu á bátavél frá fyrstu áratugum 20. aldar, fjölmörgum líkönum og málverkum af bátum, dagbókum og skjölum sem tengd eru þessum tíma, m.a. afladagbókum Þorsteins í Laufási. Önnur sýning er á veitingastaðnum Kaffi Kró sem Sigurmundur Einarsson og kona hans reka. Í Kaffi Kró sem er í einu af gömlu Tangahúsunum er sýning á fjölmörgum líkönum af Vestmannaeyjabátum, sem Grímur Karlsson og Tryggvi Sigurðsson hafa smíðað, flest þeirra í eigu Sigtryggs Helgasonar. Líkönin sýna vel þróun flotans en einnig er þar fjöldi ljósmynda af athafnalífinu í Eyjum á þessum tíma og vélbátur, Enok VE 123, sem sýnir vel bátalagið sem Ólafur Ástgeirsson í Litlabæ var þekktur fyrir. Einnig er þarna í gangi kvikmyndasýning um sjósókn og fiskvinnslu í Eyjum frá upphafi 20. aldar, sem Kristján Óskarsson hefur klippt í mjög skemmtilega og fræðandi sýningu.

Við opnun sögusýningarinnar flutti Friðrik Ásmundsson fróðlegt erindi um upphaf vélbátaaldar í Vestmannaeyjum.

Einar Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra flutti ávarp og rakti m.a. upphaf vélbátaútgerðar á Íslandi. Hann sagði að hinni merkilegu og þróttmiklu sögu atvinnuveganna og þá sérstaklega sjávarútvegsins hefði ekki verið gerð þau skil sem vert væri og þar með sýnt fram á hin miklu áhrif sem þróttmikill sjávarútvegur hefði haft á stjórnmálasöguna og sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. En einmitt um það leyti sem vélvæðing skipaflotans hefst, árið 1904, fá Íslendingar heimastjórn og framkvæmdavaldið flyst inn í landið. Með vélvæðingu bátaflotans hefst hin djarfa og mikla sókn bátaflotans á fjarlægari mið en áður var.

Bergur Elías Ágústsson bæjarstjóri opnaði síðan sýninguna en í máli hans kom fram að í samstarfi við Barnaskóla Vestmannaeyja og Framhaldsskólann í Vestmannaeyjum verður börnum og unglingum þessara skóla kynnt sýningin og efnt verður til ritgerðasamkeppni.

Að sýningunni standa, auk Byggðasafns Vestmannaeyja og Vestmannaeyjabæjar, Útvegsbændafélag Vestmannaeyja, Viking Tours, Skipstjóra- og stýrimannafélagið Verðandi, og Vélstjórafélag Vestmannaeyja.

Kristín Jóhannsdóttir, markaðsfulltrúi Vestmannaeyjabæjar, sem stjórnaði samkomunni sagði að einn helsti hvatamaður að sögusýningunni hefði verið Sigurmundur Einarsson, veitingamaður og ferðamálafrömuður í Kaffi Kró.

Sýningin Upphaf vélbátaútgerðar í Vestmannaeyjum 1906-1930 verður opin til 30. apríl nk. og vil ég hvetja alla, bæði Vestmannaeyinga og þá sem sækja Eyjarnar heim, að skoða þessa merkilegu sýningu, en þeir sem hafa lagt fram krafta sína til að koma upp sýningunni eiga þakkir skildar.

Höfundur er fyrrverandi skólameistari Stýrimannaskólans í Reykjavík.