Breski listamaðurinn W. Hardy málaði myndina.
Breski listamaðurinn W. Hardy málaði myndina.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fyrsta íslenska þotan, Gullfaxi, Boeing 727-þota Flugfélags Íslands, á flugi yfir Öræfajökli í 35 þúsund feta hæð.

Fyrsta íslenska þotan, Gullfaxi, Boeing 727-þota Flugfélags Íslands, á flugi yfir Öræfajökli í 35 þúsund feta hæð. Á þessu ári eru liðin 40 ár frá því að forstjóri Flugfélagsins, Örn Johnson, gekk frá pöntun á nýrri 727-þotu hjá Boeing-verksmiðjunum í Bandaríkjunum.

Það var mikill hátíðardagur 27. júní 1967 þegar hin nýja þota Flugfélagsins lenti á Reykjavíkurflugvelli og var fjöldi fólks mættur. Flugstjóri heim til Íslands var Jóhannes R. Snorrason. Við sérstaka athöfn þennan dag var þotunni gefið nafnið Gullfaxi.

Tvær aðrar flugvélar félagsins höfðu áður borið Gullfaxa-nafnið, Skymaster-flugvélin TF-ISE frá 1948-1957 og svo Viscount-flugvélin TF-ISN frá 1957-1967.

Þessi fyrsta þota Íslendinga þjónaði landsmönnum til ársins 1984, en var þá seld til Bandaríkjanna, og hefur lengst af verið í eigu UPS sem er fragtflutningafyrirtæki. Gullfaxi kom til landsins tvisvar árið 2003 og nú um daginn lenti þotan á Keflavíkurflugvelli til að taka eldsneyti, kom frá Shannon á Írlandi og fór strax vestur um haf.

Í ársbyrjun 2003 var Gullfaxi búinn að fljúga 47.122 klst. og lendingar voru orðnar 30.408.

Og enn flýgur gamli Gullfaxi, bandaríski flugstjórinn Jonathan Hill sem hér lenti nú um daginn sagðist búast við að Gullfaxi myndi fljúga til 2010 a.m.k.

Önnur 727 þota bættist í flota Flugfélagsins vorið 1971, var hún keypt notuð frá Bandaríkjunum (framleidd 1968) og var Anton G. Axelsson flugstjóri heim. Þessi þota hlaut nafnið Sólfaxi, en það happanafn hafði áður verið lengi á Skymaster-flugvél félagsins TF-IST, og þar á undan á Catalina-flugbátnum TF-ISJ. Sólfaxi var seldur úr landi 1989 til UPS-félagsins, en á miðju ári 2004 var þessi þota búin að fljúga 57.411 klst. og lendingar voru orðnar 29.491.

Heimildir:

Sigurbjörn Sigurðsson.