Hvað er David Irving? UNDANFARNA daga hafa birst fréttir um dómsuppkvaðningu í Austurríki yfir manni að nafni David Irving fyrir ummæli sem hann lét falla fyrir 17 árum um helför gyðinga.

Hvað er David Irving?

UNDANFARNA daga hafa birst fréttir um dómsuppkvaðningu í Austurríki yfir manni að nafni David Irving fyrir ummæli sem hann lét falla fyrir 17 árum um helför gyðinga. Sjónvarpsmyndir birtast af honum, umkringdum hópi fréttamanna, þar sem hann lýsir því yfir að dómurinn sé árás á heiður sinn sem "sagnfræðings".

Það vekur hinsvegar furðu að innlendir ljósvakamiðlar, RÚV, NFS, og allir prentmiðlarnir (að einum undanteknum, Mbl., sem titlar Irving "rithöfund"), api þetta upp athugasemdalaust í kjölfarið og titli manninn "sagnfræðing" þrátt fyrir að Irving hafi verið fréttaefni nánast samfellt sl. tvo áratugi og að sú staðreynd sé löngu fyrirliggjandi að maðurinn sé ekki hætis hót sagnfræðingur: Sagnfræðinám hans var ekkert (hann hvarf frá fyrsta árs námi í eðlisfræði) og þó að hátt á annar tugur bóka hans fjalli um sagnfræðileg málefni hafa þær ekki einu sinni gildi sem verk eftir sæmilega grúskara eða fúskara, því eins og dómkvaddur sagnfræðingur í öðru dómsmáli gegn Irving, prófessor Richard J. Evans í Cambridge, benti á þegar hann úrskurðaði, eftir tveggja ára yfirlegu á verkum Irvings, þá eru: "þau gjörsamlega einskisverð sem sagnfræðiverk, þar sem hvergi er hægt að treysta honum, í neinu þeirra, til þess að segja rétt og heiðarlega frá... ef við viljum kalla þá menn "sagnfræðinga" sem leggja sig eftir því að uppgötva og tjá það sem satt er og réttast um fortíðina, þá er Irving ekki sagnfræðingur".

Á RÚV, NFS og ofangreindum fjölmiðlum starfar fjöldi fréttamanna sem margir hverjir hafa áratuga starfsreynslu að baki, menn sem óhugsandi er að ekki sé fullkunnugt um feril Irvings, auk fréttastjóra sem ber skylda til þess að grípa inn í og koma í veg fyrir að bábilja af þessu tagi komist á fréttaborð landsmanna; þeir eiga vandaðri vinnubrögð skilið.

Björn Jónsson,

221149-2469.

Löglegt en siðlaust

ALVEG er maður undrandi á því að Ríkissjónvarpið skuli taka að sér að auglýsa öl sem kannski er til óáfengt, en lítur nákvæmlega eins út í sjónvarpi og um áfengt öl væri að ræða. Er það kannski þetta sem átt er við þegar sagt er löglegt en siðlaust?

Þ.B.

Hver þekkir konuna?

ÞESSI mynd fannst í ramma bak við aðra mynd. Ef einhver þekkir konuna þá vinsamlega hafið samband við Guðnýju í síma 8651219.