STÓR hópur Dana á vinnumarkaðinum á í miklum erfiðleikum með að komast yfir allt í hversdagsleikanum og dreymir um betri vinnuaðstæður. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem greiningarrstofnunin Analyse Danmark gerði fyrir danska Alþýðusambandið.

STÓR hópur Dana á vinnumarkaðinum á í miklum erfiðleikum með að komast yfir allt í hversdagsleikanum og dreymir um betri vinnuaðstæður. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem greiningarrstofnunin Analyse Danmark gerði fyrir danska Alþýðusambandið. Frá þessu er greint á vef Alþýðusambands Íslands.

Meðal þess sem fram kemur í rannsókninni er að í hverri einustu viku upplifa fleiri en þriðji hver einstaklingur á vinnumarkaði í Danmörku erfiðleika við það, vegna tímaskorts, að samræma einkalíf og vinnu. Yfir helmingur upplifir þetta vandamál í hverjum mánuði eða oftar.

Yfir helmingur Dana á vinnumarkaði saknar tíma með fjölskyldu og vinum.

Fjórir af hverjum tíu hugsa um vinnutengd vandamál í frítíma sínum. Sjö af hverjum 10 hugsa um vinnutengd vandamál í frítíma sínum minnst einu sinni á viku.

"Danskir fræðimenn hafa velt þessum niðurstöðum fyrir sér og leitað skýringa. Jens Christian Tonboe, prófessor í félagsfræði við Álaborgarháskóla, telur að ein aðalorsök vandans sé að Danir séu mjög vinnufúsir. Hann bendir á að tíðarandinn sé þannig í dag að tilveran snúist að mörgu leyti um vinnuna. Við metum okkur út frá vinnunni og því sem við gerum. Okkur finnst við vinna of mikið en samt aðlögum við okkur vinnunni og það kemur einmitt fram ákveðin mótsögn hjá þátttakendum í rannsókninni, því þrátt fyrir að margir segi að þeir eigi erfitt með að láta hlutina ganga upp, segja 7 af hverjum 10 blátt nei við því að vinna minna og fá tilsvarandi lægri laun," segir í greininni á vef Alþýðusambands Íslands.