ÁBYRGÐ á útgáfu almennra vegabréfa færist frá Útlendingastofnun til Þjóðskrár og dómsmálaráðherra getur ákveðið að fingraför umsækjanda skuli skönnuð og varðveitt í vegabréfinu, samkvæmt frumvarpi til laga um breytingu á lögum um vegabréf, sem kynnt...

ÁBYRGÐ á útgáfu almennra vegabréfa færist frá Útlendingastofnun til Þjóðskrár og dómsmálaráðherra getur ákveðið að fingraför umsækjanda skuli skönnuð og varðveitt í vegabréfinu, samkvæmt frumvarpi til laga um breytingu á lögum um vegabréf, sem kynnt hefur verið í ríkisstjórninni. Þá verður samkvæmt frumvarpinu stafræn mynd af umsækjanda varðveitt í vegabréfinu og heimild til útgáfu vegabréfs til barns á grundvelli umsóknar frá öðru tveggja forsjárforeldra þrengd frá því sem nú er. Þá verður gildistími almenns vegabréfs almennt fimm ár frá útgáfudegi en heimilt er að lengja þennan tíma. Þjóðskrá skal halda skrá, skilríkjaskrá, um öll útgefin vegabréf og önnur skilríki sem Þjóðskrá er falið að annast útgáfu á.

Samkvæmt upplýsingum frá dómsmálaráðuneytinu eru í frumvarpinu lagðar til nauðsynlegar breytingar vegna alþjóðlegra krafna um rafræn lífkenni í vegabréf. Notkun rafrænna lífkenna í vegabréfum sé einkum ætlað að auka nákvæmni auðkenningar og þar með öryggi og skilvirkni í landamæraeftirliti.

Bandaríkin hafi sett fram þær kröfur að ríki sem vilja halda stöðu sinni í Visa Waiwer Program, þ.e. að borgarar þeirra geti ferðast til Bandaríkjanna án áritunar, gefi út vegabréf með örflögu sem í séu stöðluð rafræn lífkenni eftir 26. október 2006. Eftir þann dag geti Íslendingar ekki ferðast til Bandaríkjanna án vegabréfsáritunar nema þeir hafi vegabréf með tölvulesanlegum lífkennum.

Samkvæmt reglugerð frá 2004, skulu aðildarríki Evrópusambandsins hefja útgáfu nýrra vegabréfa með örflögu sem bera lífkennaupplýsingar eigi síðar en 28. ágúst 2006. Reglugerðin er bindandi fyrir Ísland og Noreg vegna Schengen-samstarfsins.