[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bandaríska hljómsveitin Liars sendi frá sér þriðju breiðskífuna í liðinni viku og breytti um stíl og stefnu í þriðja sinn.

Fátt er eins skemmtilegt, þegar tónlist er annars vegar, og að fá í hendurnar nýja plötu með bandarísku rokksveitinni Liars. Ekki er bara að tónlistin er allt í senn einkar lífleg, frumleg og furðuleg, heldur veit maður aldrei á hverju maður á von - ef það er einhver hljómsveit sem er óhrædd við að gera tilraunir, fara í óvænta átt, þá er það Liars, eins og sannast á nýrri plötu sveitarinnar, Drum's Not Dead , sem kom út í liðinni viku.

Liars er hugarfóstur þeirra Aaron Hemphill og Angus Andrew, báðir listaspírur, sem kynntust í skóla í Los Angeles og byrjuðu þar að vinna saman að margmiðlunarverkefni sem byggðist á tónlist og kvikmyndum. Þeir hittust svo aftur í New York fyrir sex árum og ákváðu að taka upp þráðinn, en leggja þó meiri áherslu á tónlistina. Eftir vangaveltur í nokkurn tíma rákust þeir á auglýsingu í hljóðfæraverslun og gengu til liðs við þá Pat Noecker og Ron Albertson undir nafninu Liars. Þeir félagar skiptu þannig með sér verkum að Andrew tók að sér sönginn, Hemphill lék á gítar og annaðist forritun, Noecker spilaði á bassa og Albertson á trommur.

Það tók Liars ekki langan tíma að finna sér stíl og stefnu, aðallega pönkað rokk, en þó með sterkum dansáhrifum, forrituðum töktum, víruðum textum og geggjuðum söng. Þó þeir félagar væru kannski heldur villtari en flest það sem efst var og á baugi í New York í upphafi aldarinnar má þó segja að tónlistin hafi fallið að mestu undir merkimiðann pönkfönk.

Sveitin var eiginlega komin á fullt frá fyrsta degi og þannig var hún ekki ýkja gömul þegar hún var farin að spila á tónleikum sem mest hún mátti og fyrsta breiðskífan var tekin upp ekki löngu síðar, They Threw Us All in a Trench and Stuck a Monument on Top. Sú var tekin upp á tveimur dögum, kom út í október 2001 og vakti athygli fyrir kraft og hugmyndaauðgi. (Platan var endurútgefin í tilefni af samningi sveitarinnar við Mute plötuútgáfuna árið 2002.)

Burt með hrynparið

2002 voru þeir félagar vel iðnir, spiluðu víða og sendu frá sér þrjár stuttskífur með nýju efni og tvær þeirra, Fins to Make Us More Fish-Like og We No Longer Knew Who We Were, voru báðar einkar vel heppnaðar, mjög ólíkar plötur sem sýndu mismunandi hliðar á sveitinni. Með tímanum áttuðu þeir Andrew og Hemphill sig á því að hrynparið var eiginlega óþarft, enda tónlistin öll eftir þá tvo fyrrnefndu og að auki allar bassalínur og ásláttur. Þeir Noecker og Albertson voru því reknir við svo búið. Ekki var þó bara að þeim fannst Noecker og Albertson væru ekki að leggja nóg til málanna heldur var sveitin að þróast í átt að meiri forritun, harðari og vélrænni takti, í það minnsta í bili.

Í ársbyrjun 2003 fluttist Andrew út í skóg með kærustu sinni, Karen O úr Yeah Yeah Yeahs, settist að í afskekktum kofa og samdi tónlist. Þegar Yeah Yeah Yeahs héldu í tónleikaferð sumarið 2003 kallaði hann á Hemphill sem kom með gamlan félaga með sér, slagverksleikarann Julian Gross. Þeir hljóðrituðu svo nýja plötu í kjallaranum á skógarkofanum, They Were Wrong, So We Drowned , en titillinn vísar í afdrif norna fyrr á öldum.

Platan kom út snemma árs 2004 og fékk misjafna dóma, alla jafna lofsamlega en margir áttu efitt með að átta sig á skífunni, fannst hún stinga svo í stúf við það sem á undan var komið að þeir vissu ekki í hvorn fótinn þeir ættu að stíga. Andrew hefur látið þau orð falla að fátt þyki honum mikilvægara en að vera sífellt að breytast og mikilvægast af öllu sé að breytast þegar fólk telji sig vera farið að skilja sveitina og skipa henni á ákveðinn bás. "Við leggjum hart að okkur til að koma í veg fyrir að fólki líki við okkur, viljum alls ekki lenda í því að vera meðvitað að gera fólki til geðs."

Tekið upp í Berlín

Næstu mánuðir fóru í hefðbundið hljómsveitastúss og síðan í lagasmíðar. Þegar vinna hófst við þriðju breiðskífuna fannst þeim Liars-félögum sem tími væri til kominn að skipta enn um stíl, enda höfðu þeir ekki bara sökkt sér í evrópsk nornafræði heldur var tilraunakennd þýsk raftónlist einnig í hávegum. Það kom því fátt annað til greina en að leggja land undir fót og leita að rétta hljóðverinu í Þýskalandi og fannst í Berlín.

Platan nýja, sem kom út í síðustu viku, heitir Drum's Not Dead og segir frá sögupersónunum Drum og Mount Heart Attack sem koma við sögu í nokkrum laganna. Hljómsveitin lýsir því svo að Drum sé skapandi og ákveðinn þáttur í tónlist sveitarinnar, eiginlega fjórði meðlimur hennar, en Mount Heart Attack er viðbrögð við framkvæmda- og sköpunargleði Drum - streita, óöryggi og vantrú á eigin getu. Andrew hefur lýst því svo að samstarf hans og Hemphills sé einmitt blanda af þessu tvennu, þeir séu ýmist kraftmiklir og ákveðnir eða óöruggir og feimnir.

Fyrstu útgáfu plötunnar Drum's Not Dead fylgir DVD diskur með þremur útgáfum af plötunni, ef svo má segja, því á DVD disknum eru þrjár kvikmyndir sem byggjast á plötunni og hver kvikmynd er samsett úr myndböndum við lög hennar. Ein myndin, The Helix Aspersa , er eftir Angus Andrew, önnur, Drum's Not Bread , eftir Julian Gross og sú þriðja, By Your Side , er eftir Markus Wambsganss.