Sigríður Baldursdóttir fæddist í Neskaupstað 1. nóvember 1936. Hún lést 17. febrúar síðastliðinn á lungnadeild Landspítalans í Fossvogi. Foreldrar hennar voru Baldur Jónsson, f. 19. júní 1910, d. 21. mars 1967, og Arnbjörg Ólafía Jónsdóttir, f. 14. desember 1913, d. 2. júlí 1961. Hún átti eina alsystur, Guðríði Halldóru Austmann, f. 28. ágúst 1934, og fjölmörg hálf- og uppeldissystkini. Þegar Sigríður var á fyrsta ári var hún send í fóstur að Steinum í Stafholtstungum í Borgarfirði. Fósturforeldrar hennar voru Kristján F. Björnsson, f. 29.2. 1884, d. 19.4. 1962, og Rannveig Oddsdóttir, f. 11.11. 1890, d. 23.12. 1986. Sigríður bjó á Steinum þar til hún var 16 ára og lauk gagnfræðaprófi frá Reykholti.

Árið 1954 eignast Sigríður fyrsta barnið sitt, Gunnar Hlöðver Tyrfingsson, f. 29.11. 1954, kvæntur Unni Herdísi Ingólfsdóttur, f. 20.10. 1955. Árið 2005 ættleiddi Gunnar eitt af börnum Unnar frá fyrra hjónabandi, Kolbrúnu Maríu Gunnarsdóttur, f. 28.12. 1979. Árið 1958 kynnist Sigríður eiginmanni sínum Ásgeiri Pálssyni, f. Aage Hansen, f. 6.6. 1933, og hinn 12. júlí 1960 giftust þau. Það ár eignast þau annað barn sitt, Bjarna, f. 11.11. 1960, áður kvæntur Helgu Steinþórsdóttur, f. 3.12. 1959. Dætur þeirra eru Inga Ásta, f. 17.8. 1984, Laufey, f. 15.3. 1988, og Sóley Þöll, f. 22.9. 1996. Þriðja barn Sigríðar og Ásgeirs er Kristján, f. 20.5. 1965, kvæntur Elínu Jónínu Clausen, f. 14.3. 1967. Börn þeirra eru Kolbrún Sigríður, f. 26.9. 1995, og Jón Ásgeir, f. 12.6. 1998. Elín á Ásmund Þór, f. 15.8. 1989, frá fyrra sambandi. Fjórða barn Sigríðar og Ásgeirs er Agnes, f. 6.3. 1974, gift Ragnari Guðmundssyni, f. 22.1. 1974. Dóttir þeirra er Dagrún, f. 22.1. 2004. Fyrstu hjúskaparár sín bjuggu Sigríður og Ásgeir á Álafossi í Mosfellsbæ. Árin 1961-1966 bjuggu þau í Svíþjóð og Danmörku. Árið 1972 flytja þau svo á heimili sitt að Stórateigi 7 í Mosfellsbæ þar sem Sigríður bjó allt til síðasta dags.

Frá árinu 1957, með hléum meðan þau bjuggu erlendis, vann Sigríður á Álafossi við ullariðnað en eftir að veikindin komu í veg fyrir að hún gæti unnið var hún heima. Hún hafði alla tíð mikið gaman af hannyrðum og eftir að hún veiktist prjónaði hún mikið og saumaði út. Þrátt fyrir veikindin var hún mjög dugleg að fara á hvers konar föndurnámskeið og tók mikinn þátt í tómstundastarfi eldri borgara í Mosfellsbæ. Sigríður las alltaf mikið og þá sérstaklega eftir að hún veiktist. Einnig hafði hún mikinn áhuga á ættfræði og lét eftir sig miklar upplýsingar sem hún hafði sankað að sér um föðurfjölskyldu sína. Garðyrkja og blómarækt áttu hug hennar allan og var garðurinn hennar á Stórateignum hennar líf og yndi. Hjá vinum og ættingjum er nú víða að finna blóm sem fengin hafa verið hjá henni.

Útför Sigríðar fór fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu.

Elsku mamma. Nú veit ég að þér líður vel. Getur fyllt lungun fersku lofti og andað að þér ilmi blómanna sem voru líf þitt og yndi. Þú þarft ekki lengur að hafa "viðhaldið", eins og við kölluðum súrefniskútinn, með þér hvert sem þú ferð. Þrátt fyrir veikindin varstu alveg ofboðslega dugleg og fórst allt sem þú ætlaðir þér. Að þið pabbi skylduð geta eytt jólunum hjá okkur í nýja húsinu okkar var alveg ómetanlegt. Þetta voru svo góð jól, þú varst svo glöð og ánægð og hafðir orð á því hversu góður andi væri hjá okkur. Ef þú bara vissir hversu stóran þátt þú áttir í að skapa þennan góða anda. Ég er svo þakklát fyrir að Dagrún fékk að kynnast ömmu sinni. Hún er enn svo lítil að hún skilur ekki alveg hvar þú ert. Við segjum henni samt á hverjum degi að amma sé hjá Guði og að henni líði vel núna. Við munum vera dugleg að segja henni og ófæddum systkinum hennar frá þér og hversu góð amma þú varst.

Hvíl í friði, elsku mamma mín, ég veit að þú vakir yfir okkur.

Þín dóttir

Agnes.