Alex Björn Stefánsson
Alex Björn Stefánsson
Alex Björn Stefánsson fjallar um prófkjör framsóknarmanna á Akureyri: "Við verðum að tryggja það að Jóhannes fái nægan stuðning til að verða næsti bæjarstjóri Akureyrar enda er þetta maður sem á traust Akureyringa og framsóknarmanna."

FRAMSÓKN er og mun alltaf verða góður kostur fyrir ungt fólk, hann er flokkur sem leyfir ungum að segja sína skoðun og er ekki að reyna að þagga niður í þeim. Eitt besta dæmið er þegar ungir framsóknarmenn fengu tvo menn kosna í prófkjöri Framsóknarflokksins á Akureyri, þetta eru tvær öflugar konur í 3. og 6. sæti. Á meðan íhaldið telur að ekki sé tími á ungt fólk í stjórnmálum virðast framsóknarmenn treysta ungu fólki fyrir framtíðinni og treysta á að ungir framsóknarmenn tryggi flokknum nægan stuðning í næstu sveitarstjórnarkosningum.

Af hverju Framsókn fyrir ungt fólk?

Ungt fólk hefur almennt ákveðnar skoðanir á því hvernig hlutirnir eigi að ganga fyrir sig í okkar ágæta þjóðfélagi. En það að mála sig út í horn með öfgum er ólíðandi, þannig fólki er ekki hægt að vinna með, eða tala við, hvað þá heldur hlusta á. Ungir framsóknarmenn bjóða upp á að það sé hægt að tala við þá á málefnalegum grunni og eiga von á því að skoðanir þínar sem einstaklings séu virtar. Framsóknarflokkurinn er miðjuflokkur, nokkurn veginn skilgreindur sem félagslyndur frjálshyggjuflokkur. Ungir framsóknarmenn eru framtíðin þar sem þeir eiga mikið fylgi hjá almennum flokksmönnum og fá einnig mikinn stuðning við að kynna fólki flokkinn sem flokk sem boðar að ákvarðanir séu teknar út frá málefnalegum rökum en ekki einhverri hægri eða vinstri öfgastefnu.

Við munum vinna Akureyri!

Baráttuandi ungra framsóknarmanna á Akureyri hefur aukist til muna með sterkan foringja og ungt fólk ofarlega. Mikilvægt er að hafa foringja fyrir flokknum og hafa fáir Akureyringar jafn mikla reynslu og þekkingu á því hvernig á að vera í forystu og leiða til sigurs og Jóhannes Bjarnason, bæjarfulltrúi og kennari. Við verðum að tryggja það að Jóhannes fái nægan stuðning til að verða næsti bæjarstjóri Akureyrar enda er þetta maður sem á traust Akureyringa og framsóknarmanna.

Höfundur er gjaldkeri ungra framsóknarmanna á Akureyri.