Þeir eru orðnir nokkuð margir taílensku veitingastaðirnir hér á landi og segja má að þeir séu jafnmisjafnir og þeir eru margir. Sumir afbragðsgóðir, aðrir metnaðarlitlir og óspennandi líkt og margir aðrir skyndibitastaðir á Íslandi.
Einn sá albesti er KruaThai í Tryggvagötu við Reykjavíkurhöfn. Þessi litli, látlausi staður fer eflaust framhjá mörgum enda húsið ekki jafn áberandi og þegar staður að nafni Stélið var starfræktur þar með tilheyrandi flugvélarstéli utan á húsinu.
Á KruaThai er hægt að sitja til borðs en jafnframt taka matinn með heim og virðist síðarnefndi kosturinn njóta mikilla vinsælda því það vilja myndast biðraðir í matsalnum að afgreiðsluborðinu þangað sem allir þurfa að fara og panta, hvort sem þeir ætla að taka matinn með eða borða á staðnum.
Kryddnotkun hreinasta snilld | Matseðillinn er langur og þar má finna flest það sem menn búast við að finna á taílenskum veitingahúsum: súpur, núðlur og óteljandi kjúklingarétti. Matseðilinn er hægt að fá jafnt í hefðbundnu formi sem myndskreyttan.
En þótt réttirnir séu að nafninu til þeir sömu og á svo mörgum öðrum stöðum eru þeir alla jafna miklu betri en á flestum stöðum öðrum. Eggjanúðlur með kjúklingi og grænmeti eru til að mynda hreinasta sælgæti - vissulega sama hráefni og hjá öðrum en eldunin fullkomin upp á sekúndu og kryddnotkun hreinasta snilld þannig að þessi að upplagi einfaldi réttur fær á sig margslungnari mynd.
Sama má segja um Satay-svínakjöt á teini. Kjötið vel marínerað og bragðgott og sjálf Satay-hnetusósan lostæti. Grillpinnarnir hverfa eins og dögg fyrir sólu.
Kjúklingur í ostrusósu var sömuleiðis góður. Mikið af fínu snöggelduðu grænmeti og sósan mild en bragðgóð.
Hagstætt verð | Þarna eru líka margskonar curry-afbrigði, það er sósur með mismunandi kryddblöndum, oft með kókosmjólk sem uppistöðu sósunnar, og í hádeginu eru tilboðin fjölmörg.
Raunar má segja að allir réttir séu á einskonar tilboðsverði því verðlag á KruaThai er með eindæmum hagstætt - flestir réttir á 900-950 krónur. Ef nokkrir borða saman er því fínt að panta nokkra rétti og skipta þeim á milli sín - allir fá svo sinn disk með hrísgrjónum og salati.
Matsalurinn sjálfur er afar einfaldur en jafnframt sjarmerandi. Gulir veggir og gervi-suðrænar plöntur og myndir frá Taílandi mynda ásamt einföldum borðbúnaði hina ósviknu taí-matstofustemmningu.
Maturinn á KruaThai væri einn og sér þriggja stjörnu virði, en við einkunnagjöf verður einnig að taka mið af heildarumhverfi og þjónustu. En Það má svo sannarlega mæla með þessum stað. | sts@mbl.is
Tryggvagötu 14
EINKUNN: * Viðunandi ** Góður *** Mjög góður **** Frábær *****Afburða veitingastaður
Einkunnagjög byggist á mati á þjónustu, húsnæði, vínlista og mat, að teknu tilliti til verðlags.