María Ellingsen á leikæfingu með þingkonunum.
María Ellingsen á leikæfingu með þingkonunum.
"Ég verð að viðurkenna að þetta er með einbeittustu og öguðustu leikkonum sem ég hef fengið í hendurnar," segir leikstjórinn María Ellingsen.

"Ég verð að viðurkenna að þetta er með einbeittustu og öguðustu leikkonum sem ég hef fengið í hendurnar," segir leikstjórinn María Ellingsen. "Þær eru náttúrlega allar ákaflega uppteknar en eru mjög skipulagðar, mæta stundvíslega og hafa hellt sér af krafti út í þetta. Við vorum svo heppnar að fá aðstöðu í gamla Eimskipshúsinu, á Hótel Radisson SAS 1919. Konurnar hafa getað skotist úr Alþingishúsinu þegar þær hafa haft tíma, einar eða nokkrar saman. Sjálf bý ég á Vesturgötunni þannig að ég hleyp þá til móts við þær," segir hún.

María bendir á að form verksins sé sérstakt. "Flytjendur eru með handrit og hljóðnema og lána rödd sína annarri konu og segja sögu hennar. Alþingiskonurnar eru náttúrlega vanar því að hafa rödd einhverra annarra að láni, það er kjósenda sinna, og túlka þeirra mál. Þetta kemur því ofboðslega vel út," segir hún ánægð.

Ekkert mál að segja "píka"

Æfingar á verkinu hófust í byrjun mánaðar. Fyrst þegar hópurinn hittist allur í einu horfði hann á heimildarmynd sem gerð var um V-daginn og Píkusögur. "Eftir að hafa séð myndina skilur maður að þessi barátta er miklu stærri en maður sjálfur sem einstaklingur og manns eigið egó hættir að þvælast fyrir," segir María. Í annað skiptið sem hópurinn var allur samankominn hitti hann Jónu Ingibjörgu Jónsdóttur kynfræðing. "Hún er brautryðjandi og opnaði umræðuna um þessi mál hér á landi. Hún fór svolítið inn á stoltið með okkur og fegurðina við það að vera kona. Píkusögur koma annars vegar inn á ofbeldið sem kvenmenn verða fyrir en eru líka til þess að konur uppgötvi sjálfar sig og taki sig í sátt."

María bendir á að efni verksins sé viðkvæmt en þingkonurnar séu víðsýnar og hafi mikla samkennd gagnvart þeim sem sögurnar í verkinu eru af. "Lærðir leikarar eru náttúrlega vanari en áhugafólk að hella sér inn í hvaða heim sem er," segir hún.

Aðspurð hvort ekki hafi reynst neitt erfitt að fá þær til að segja "píka", oft og mörgum sinnum, og það uppi á sviði, svarar María hlæjandi: "Nei, veistu þær hafa nú aldeilis ekki hnotið um það orð! Flutningurinn á Píkusögum fyrir nokkrum árum varð að mörgu leyti til að opna píkuumræðuna. Þegar byrjað var að sýna verkið þorði fólk ekki að kaupa miða því það vissi ekki hvað það átti að segja. Á vissan hátt hefur verkið því unnið með okkur, fyrir utan það að þetta eru einfaldlega víðsýnar konur sem eru ekkert feimnar við að segja eitthvað eins og píka..."

- Eiga þær framtíð fyrir sér sem leikarar, ættu þær ef til vill að huga að frama í leikhúsinu?

"Ein þeirra er náttúrlega leikari, Kolbrún Halldórsdóttir, en margar hinna eru mjög efnilegar, dramatískar og með flotta rödd," svarar María og bætir síðan hlæjandi við: "Nú er þetta hins vegar barnahópurinn minn og ég geri ekki upp á milli þeirra. Ég get samt sagt þér að þær gera þetta allar af mikilli alvöru. Það að þessar konur, sem eru okkar fulltrúar á Alþingi og fyrirmyndir í þjóðfélaginu, skuli ljá þessu rödd og taka upp þennan kyndil er að mínu mati algjörlega ómetanlegt."