— Morgunblaðið/Sverrir
Eitt var að vinna og svo er að vinna og í vor ætlum við að vinna. Eyþór Arnalds í samtali við fréttavefinn mbl.is eftir sigurinn í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Árborg um liðna helgi.

Eitt var að vinna og svo er að vinna og í vor ætlum við að vinna.

Eyþór Arnalds í samtali við fréttavefinn mbl.is eftir sigurinn í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Árborg um liðna helgi.

Ég gerði mistök þegar ég sagði að það væru engir gasklefar í Auschwitz.

Breski rithöfundurinn David Irving sem dæmdur var til fangavistar í Austurríki í vikunni fyrir að afneita helförinni.

Irving er fífl. Og besta leiðin til að fást við fífl er að hunsa þau.

Christian Fleck félagsfræðingur við Graz-háskóla um téðan Irving.

Við finnum glöggt til þeirrar ábyrgðar sem lögð er á herðar okkar með því að fela okkur að gæta einnar lítillar fjaðrar. Það er raunar sú ábyrgð sem okkur er öllum lögð á herðar, ekki síst þeim ungu að gæta þess dýrmæta auðs sem felst í tungunni.

Matthías Johannessen skáld og fulltrúi hóps áhugafólks um eflingu móðurmálsins, þegar hann afhenti Laxnessfjöðrina í Austurbæjarskóla sl. þriðjudag.

Svo er þetta fallega flámæli hans Hallgríms, og dönskusletturnar sem eru svo fínar. Þegar allt er vaðandi í amerískum slettum, þá er svo yndislegt að taka sér í munn góðar og gegnar dönskuslettur. Fákænir klerkar sem hafa verið látnir lesa sálmana í útvarpið á föstunni hafa margir hverjir breytt þessu og leiðrétt skáldið. En maður ætti aldrei að styggja skáld. Það getur haft í för með sér vonda hluti.

Megas í samtali við Bergþóru Jónsdóttur í Morgunblaðinu sl. miðvikudag.

Mín sérgrein er að selja kjötfars, og ég hélt mig við það.

Jóhannes Jónsson í Héraðsdómi Reykjavíkur sl. mánudag. Þegar hann var spurður hvers vegna skuldastaða Gaums, hans sjálfs og barna hans við Baug hefði ekki verið aðgreind frá öðrum skammtímakröfum Baugs kvaðst hann ekki hafa vit á því. Við teljum að það hafi verið Ísland sem hleypti þessu öllu af stað. Það voru verðbréfamiðlarar í Asíu sem vissu ekki einu sinni að Ísland væri til. En það er alveg öruggt að þeir vita það núna.

Sabrina Jacobs, sérfræðingur hjá Dresdner, Kleinwort, Wasserstein, í samtali við Morgunblaðið um veikingu gjaldmiðla.

Ætlið þið að sýna þetta atvik 200 sinnum á viku til að reyna að fá UEFA til að spila leikinn aftur? Getið þið gert það fyrir okkur?

José Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, við sjónvarpsmenn frá Sky Sports eftir að leikmanni hans, Asier Del Horno, var vikið af velli í tapleik gegn Barcelona í Meistaradeild Evrópu sl. miðvikudagskvöld.