Atli Már teiknari og listmálari fæddist í Reykjavík 17. janúar 1918. Hann lést á Landspítalanum, Landakoti, fimmtudaginn 9. febrúar síðastliðinn og var útför hans gerð í kyrrþey.

Lífskúnstnerinn Atli Már er nú frá okkur horfinn. Á æskuárum var hann nokkur sumur á Efri-Hólum, en þar bjuggu amma mín Guðrún Halldórsdóttir og Friðrik afi Sæmundsson. Undirritaður var þar og löngum á æskuárum og raunar hitti ég Atla frænda þar í fyrsta skipti. Þá kom hann til þess að kynna sína fögru konu. Ég, nánast barn, hreifst mjög af þessum glæsilegu hjónum.

Langur tími leið, en um 1964 hitti ég Atla Má á ný, þá í heimsókn hjá Kristjáni Friðrikssyni, móðurbróður mínum. Þetta var eftirminnilegur dagur. Talað var um "kúltúr" og "póesi" og svo var sungið. Atli söng "Gamla vísu um vorið". Lítið ljóð eftir Stein Steinarr. Ljóðið var mér ekki ókunnugt, en söngur Atla gerði mér það ógleymanlegt. Við hittumst oft á næstu árum og ég var svo heppinn að eignast nokkur málverka hans. Af þessum verkum er mér kærast það sem heitir: "Gömul vísa um vorið".

Ég er ennþá ódauður, en bíð loka, eins og við öll. Nú er ég dvalargestur á Eir og fer bærilega um mig, og einkum nú þegar til mín er komin "Gömul vísa um vorið", sem Atli sagði mér að hefði nánast verið máluð fyrir mig.

Hvað við tekur er lífi lýkur veit enginn. En ég lýt höfði við brottför Atla Más og óska góðri konu hans, Ólafíu og börnum þeirra velfarnaðar.

Fátækleg kveðja til frænda og vinar.

Björn Þórhallsson.