— Ljósmynd/Helgi Garðarsson
Þeir eru glæsilegir þessir tveir á myndinni, Ford-vörubíll, árgerð 1930 og eigandi hans Gunnar Egilsson sem er árinu eldri, en hann hefur undanfarin ár unnið að því að gera upp bílinn á Reyðarfirði.
Þeir eru glæsilegir þessir tveir á myndinni, Ford-vörubíll, árgerð 1930 og eigandi hans Gunnar Egilsson sem er árinu eldri, en hann hefur undanfarin ár unnið að því að gera upp bílinn á Reyðarfirði. Að sögn Gunnars kom bíllinn nýr til landsins á sínum tíma og var alla tíð á Seyðisfirði, allt þangað til Gunnar keypti hann fyrir rúmum 12 árum. Bíllinn var þá í mjög slæmu ástandi og hefur Gunnar lagt mikið í verkið en hann hefur einnig ljósmyndað uppbyggingarferlið og eru til margir tugir mynda af því. Gunnar sagðist ekki hafa ákveðið hvaða hlutverk bíllinn fengi í framtíðinni en í fortíðinni hefði hann haft veigameira hlutverk, enda með fyrstu vörubílunum sem komu hingað til lands. Hann sagði ennfremur að á sínum yngri árum hefðu hann og félagar hans haft mikið gaman af slíkum bílum og óhætt væri að segja að nú væri gamall draumur að rætast.