Egill Guðmundsson
Egill Guðmundsson
Egill Guðmundsson fjallar um styttingu náms til stúdentsprófs: "Umræðan verður í þessu efni að snúast um innihald fremur en form, en umfram allt verður að ríkja traust milli þeirra sem að skólamálum vinna..."

Menntamálaráðuneytið hefur unnið að styttingu framhaldsskólans í meira en áratug og málflutningurinn hefur alltaf verið á þá leið að fækka skólaárunum úr fjórum í þrjú. Ráðuneytið hefur látið vinna ýmsar skýrslur um efnið og 2004 kom "bláa skýrslan" svokallaða en hún hafði þann þversagnakennda undirtitil - aukin samfella í skólastarfi. Megin inntak skýrslunnar var stytting náms í framhaldsskólum og minna námsefni og um leið að spara fé til framhaldsskólastigsins.

KÍ, Félag framhaldsskólakennara (FF) og margir kennarar tóku einarða afstöðu gegn einhliða styttingu framhaldsskólans og hafa í ræðu og riti fært margvísleg rök fyrir því að brýnt sé að efla nám og námsframboð á framhaldsskólastiginu og um leið endurskoða alla m enntun frá leikskóla til loka framhaldsskólans með það að leiðarljósi að þekking og færni nemenda við útskrift af framhaldsskólastiginu verði meiri og markvissari en nú er.

Því miður hefur þessi málfluttningur ekki hlotið hljómgrunn eða undirtektir í menntamálaráðuneytinu og oft hefur undirrituðum fundist allur okkar málflutningur tal út í tómið og í stað samráðs hefur ráðherra klifað á innihaldslitlum klysjum um að við þyrftum að stytta vegna þess að svoleiðis sé það í útlöndum, okkar unglingar megi ekki vera eftirbátar Svía og Dana, eða annara Evrópuþjóða.

Auðvelt er að vera sammála því að við eigum ekki að vera eftirbátar annara hvað menntun varðar og við kennarar viljum taka skrefið lengra og vera framar öðrum um menntun og fræðslu ungra sem aldinna. En til að menntakerfið eflist þarf víðtækt samstarf allra sem að menntun og skipulagi náms koma og það þarf að tryggja fjármagn til þess að hrinda hugmyndum í framkvæmd. Eftir þessu samstarfi hefur forusta kennara og vel flestir kennarar sem um málið hafa fjallað verið að kalla í mörg ár en engar undirtektir fengið, þar til núna á miðjum þorra 2006. Skyndilega er ráðuneyti menntamála með ráðherrann í fararbroddi tilbúið til samstarfs á víðtækum grunni og menntamálaráðherra undirritar ásamt forustu kennarasamtakanna merkilegt plagg um 10 skref til sóknar.

Þetta plagg er merkilegt fyrir þær sakir að þar er um flest tekið undir ályktanir sem samþykktar voru á aðalfundi FF í febrúar 2005 og eru birtar á vefsíðu félagsins sem skólastefna þess. Skólastefnan er víðtæk og metnaðarfull ályktun um skólamál, en þar segir m.a.:

"Félögin (FF og FS innskot höf.) telja raunhæft að stefna að sveigjanleika í námstíma á öllum þremur skólastigum neðan háskólastigs. Félögin leggja til að opnaðar verði eða skýrðar leiðir fyrir börn til þess að hefja grunnskólanám á mismunandi aldri, fyrir unglinga til að ljúka skólaskyldu á mislöngum tíma, t.d. 9-11 árum og framhaldsskóla á 3-5 árum."

Fyrsti liður í samkomulagi menntamálaráðherra og KÍ er nánast samhljóða þessu, en þar segir:

"Endurskoðun laga um leik-, grunn- og framhaldsskóla hefst vorið 2006. Meginmarkmið endurskoðunarinnar er aukin samfella milli skólastiganna, sveigjanleiki milli og innan skólstiga og að mæta breytilegum þörfum ólíkra nemenda. Lokamarkmiðið er betri menntun og betri námsárangur nemenda."

Að mínu mati er ljóst að ráðherra hefur fallið frá fyrri hugmyndum um styttingu framhaldsskólans og vill vinna með kennurum og forustu þeirra að víðtækum breytingum innan skólakerfisins með það að leiðarljósi að nemendur ljúki námi frá leikskóla til útskriftar úr framhaldsskólanum á misjöfnum hraða og tekið verði tillit til ólíkra þarfa og getu nemenda upp í gegnum allt nám á þessum námsstigum, en gera megi ráð fyrir að meðal nemandi ljúki náminu á 13 árum.

Af lestri samþykkta síðasta aðalfundar FF er ljóst að félagið tekur ekki afstöðu til þess hversu mörg ár nemendur eigi að sitja á skólabekk, hitt er alveg skýrt að innihald náms og gæði skólastarfsins skiftir megin máli.

Það er brýnt að nemendur geti skipulagt nám sitt snemma (einstaklingsbundið nám) og sett sér markmið um skólagönguna sjálfir og stundað nám á þeim hraða sem hverjum og einum hentar (þó innan skilgreindra marka). Við verðum að gera kröfur um að skólinn uppfylli allar þær skyldur sem honum ber samkvæmt lögum og námsskrám og geti þróast í takt við breytingar í innra og ytra umhverfi hans. Hafi á að skipa vel menntuðum kennurum sem nemendur geta starfað með og treysta og stöðugleiki ríki í starfi og starfsmannahaldi. Skólinn verður að veita öllum nemendum sínum góða þjónustu og geta leyst félagslegan og þroskalegan vanda hvers og eins eins og lög og reglugerðir kveða á um.

Umræðan verður í þessu efni að snúast um innihald fremur en form, en umfram allt verður að ríkja traust milli þeirra sem að skólamálum vinna ef við eigum að bera gæfu til að taka heillavænleg spor í átt að bættu menntakerfi.

Höfundur er framhaldsskólakennari.