Það er ljómandi skemmtilegt að prófa að vera leikkona," segir Guðrún Ögmundsdóttir, sem í Píkusögum segir meðal annars sögu af fyrstu jákvæðu kynlífsreynslu ungrar konu og er í eftirminnilegu atriði, þar sem rætt er hverju ólíkar píkur klæðist.

Það er ljómandi skemmtilegt að prófa að vera leikkona," segir Guðrún Ögmundsdóttir, sem í Píkusögum segir meðal annars sögu af fyrstu jákvæðu kynlífsreynslu ungrar konu og er í eftirminnilegu atriði, þar sem rætt er hverju ólíkar píkur klæðist.

"Í hverju myndi píkan manns vera ef maður myndi klæða hana? Mín píka er í ofboðslega mörgu - leðurjakka, silkisokkum og öllu mögulegu! Þetta er ofsalega fallegur kafli," segir Guðrún og bætir hlæjandi við: "Svo er ég eitthvað í stunukaflanum, það er að segja þegar konurnar byrja að stynja. Mér var skellt í það! Ég er kynlífsfræðingur sem kenni konum að stynja og uppgötva sjálfar sig."

- Er ekkert erfitt að fara úr Alþingishúsinu og upp á svið, að ég tali nú ekki um til að stynja?

"Veistu, það verður bara að reyna á það! Við verðum líka að hafa gaman af þessu. Píkan er náttúrlega partur af manni þannig að ég veit ekki hvað ætti í raun að vera erfitt, nema kannski að fletta hulunni af eigin feimni og komast nær sínum eigin kjarna. Það er fínt fyrir okkur að tengjast okkur sjálfum svona og einnig hver annarri. Þetta minnir mig satt best að segja dálítið á tímann í kvennahreyfingunni eldri og er ægilega skemmtilegt.

Á æfingatímabilinu erum við bæði búnar að hlæja og gráta. Sumt í leikritinu er nefnilega mjög sorglegt. Hluti af þessu er algjör hryllingur eins og þegar Þorgerður Katrín túlkar sögu bosnískrar konu sem var ítrekað nauðgað af hermönnum."

Sambandi náð við sögurnar

Guðrún bendir á að með því að túlka verkið nái þingkonurnar sambandi við sögurnar og leggi sig fram um að skilja það sem Píkusögur fjalli um.

"Ég held að það að konur á þingi standi saman á þennan hátt og séu allar orðnar málsvarar og talsmenn gegn kynbundu ofbeldi geti skilað sér mjög langt. Ég held að í því séu falin ákveðin margfeldisáhrif. Sem betur fer höfum við þingkonur hist óformlega áður og skemmt okkur saman. Tengingin á milli okkar var því að einhverju leyti þegar til staðar og ég held að það hafi gert Píkusöguverkefnið auðveldara," segir Guðrún. Hún bætir við að það hafi glatt sitt "gamla baráttuhjarta" þegar farið var að halda V-daginn hátíðlegan hér á landi. "Það er gaman að sjá til hversu margra V-dagshópurinn hefur náð, ekki síst til stráka varðandi nauðganir."