Grétar Sigurbergsson með eiginkonu sinni, Kristínu Hallgrímsdóttur, í útgáfuteiti og sextugsafmælisveislu Grétars á Hótel Borg í síðustu viku.
Grétar Sigurbergsson með eiginkonu sinni, Kristínu Hallgrímsdóttur, í útgáfuteiti og sextugsafmælisveislu Grétars á Hótel Borg í síðustu viku.
Grétar Sigurbergsson geðlæknir byrjaði að semja tónlist samhliða læknastörfum fyrir átta árum. Nýlega varð hann sextugur og gaf sjálfum sér í afmælisgjöf geisladisk með eigin tónlist. Guðjón Guðmundsson ræddi við Grétar í tilefni af útkomu disksins.

Grétar segir tónlistina og píanóið afar þægilega leið til þess að slaka á eftir erilsaman vinnudag og vinda ofan af streitunni. Grétar, sem var réttargeðlæknir á Sogni og á Litla-Hrauni á árunum 1992-96, rekur nú læknastofu í Kringlunni. Hann fagnaði sextugsafmæli sínu 14. febrúar sl. með útgáfu á sínum fyrsta geisladiski, Með lífsins ljúfa yl, sem inniheldur lög sem hann hefur samið á átta ára tímabili. Blaðamaður hitti Grétar að máli á heimili hans og ræddi við hann um tónlistina, geðlækningar og óhefðbundnar leiðir í geisladiskasölu. Geisladiskurinn nýi hljómar í tækjunum og laglegur Atlas-flygill er mikið stofustáss á heimili Grétars. Flygillinn var áður í eigu Leifs heitins Þórarinssonar tónskálds og við hann hefur Grétar samið flest sín fallegustu lög, sem allnokkur hafa komist í úrslit í söngvakeppnum. Lagið Þú ert mér allt bar sigur úr býtum í söngvakeppni sem Ríkisútvarpið efndi til á ári aldraðra.

Á diskinum eru tólf lög eftir Grétar en textar eru eftir Kristján Hreinsson, séra Hjálmar Jónsson, séra Stefán Ólafsson (1619-1688) og Grétar á sjálfur einn texta.

Kominn af tónelsku fólki

Grétar er Sunnlendingur í báðar ættir og er kominn af tónelsku fólki. Afi hans var Pálmar Ísólfsson hljóðfærasmiður, bróðir Páls Ísólfssonar tónskálds og organista, og langafi hans var Ísólfur Pálsson, sem samdi mörg falleg lög í fyrndinni. Hann ólst upp í Hlíðahverfinu og var mikið spilað og sungið á heimili hans. Sjálfur stundaði hann píanónám í tvo vetur. Bróðir Grétars er Pálmar Árni hljóðfærasmiður og valdi hann lögin á nýja diskinn með Grétari. Upphaflega komu 36 lög til greina en þeir bræður skáru síðan lagafjöldann niður í 16 lög. Grétari var síðan bent á að með því að fækka lögunum enn frekar niður í tólf mætti ná fram betri hljómgæðum á diskinn og var sú raunin.

Hann segir að viss tenging sé á milli geðlækninga og tónlistar. "Ég spilaði ekki á píanó áratugum saman. Mér fannst ég aldrei hafa tíma til þess vegna anna í námi og starfi. Svo þegar fór að hægjast um hjá mér, eftir að ég gat hætt að vinna á sjúkrahúsum og einbeitt mér alfarið að læknastofu minni, fann ég hvað það gat verið róandi að setjast niður við píanóið og spila. Það getur nefnilega stundum verið stressandi að vera geðlæknir. Það er margt sem reynir á mann og á hverjum degi verður maður fyrir sterkum upplifunum," segir Grétar. Fyrsta lagið samdi Grétar árið 1998. Það ár, reyndar á afmælisdegi Grétars, 14. febrúar, varð tengdafaðir hans, sem bjó norður á landi, bráðkvaddur. Grétar settist við píanóið til að eyða stund áður en farið var út á flugvöll til þess að fljúga norður. Hann sló nokkra hljóma sem tóku á sig mynd lags. "Þá kallaði dóttir mín, Lydía, hér ofan af lofti: "Pabbi, varst þú að búa til þetta lag?" Og ég gat ekki annað en samsinnt því," segir Grétar. Þetta er fyrsta lagið á nýja diskinum og heitir Þú ert mér allt. Lagið sendi Grétar síðan í dægurlagasamkeppni Ríkisútvarpsins á ári aldraðra ásamt öðru lagi. Það fyrrnefnda bar sigur úr býtum og hitt lagið, Enn einn dans, sem einnig er á diskinum, komst alla leið í úrslit en alls bárust 214 lög í keppnina. "Upp frá þessu fór ég að setjast meira við píanóið og búa til melódíur sem er athöfn sem maður gleymir sér algjörlega við."

Árið 2001 átti Grétar tvö lög í tíu laga úrslitum í Evróvisjón-lagakeppninni. Hann hefur á þeim átta árum sem liðin eru frá því Þú ert mér allt varð til, samið mikinn fjölda laga sem hann geymir á segulbandsspólum. Þau bíða þess að fá vængi og geta lyft sér á öldum ljósvakans inn um hlustir landsmanna. Hann kveðst sjálfur ekki vera nógu góður hljóðfæraleikari til þess að flytja lög sín. Af þeim sökum fékk hann til liðs við sig nokkra af fremstu tónlistarmönnum landsins til að gera nýja diskinn. Árni Scheving og Þórir Baldursson útsetja lögin og Árni leikur á harmonikku, víbrafón og bassa í nokkrum lögum, og Þórir sér um píanó og hammond. Aðrir sem leika á disknum eru Jón Páll Bjarnason á gítar, Sigurður Flosason á saxófón, Gunnar Hrafnsson á kontrabassa, Einar Valur Scheving á trommur og Björn Th. Árnason á fagott. Þá syngja á diskinum Friðrik Ómar Hjörleifsson, Friðrik Theódórsson, Páll Rósinkranz, Halldóra Björk Friðjónsdóttir og Lydía, dóttir Grétars.

Hugræn atferlismeðferð á diski

Grétar er þegar farinn að huga að útgáfu á næsta diski og búinn að velja 19 lög sem koma til greina. En fyrst er að fylgja nýja diskinum eftir og koma honum í sölu og dreifingu. Þar segist Grétar einna síst kunna til verka. Hann langar helst að fara óhefðbundnar leiðir í þeim efnum og bjóða diskinn einvörðungu til sölu í lyfjabúum. Hann ætlar þó að fara að ráðum sér hyggnari manna í þessu efni, eins og hann segir sjálfur. "Tónlist á vel heima í lyfjabúðum enda terapía þegar best lætur," segir hann. "Satt best að segja fæ ég minn innblástur frá sjúklingunum mínum. Margir þeirra hafa talsverðan áhuga á því að ég skuli vera að búa til tónlist og spyrja mig gjarnan hvenær ég fari að gefa út. Ég hef stundum brennt nokkur laga minna á disk fyrir þá, þeim til óblandinnar ánægju. Lögin mín eru glaðleg og létt, það er sumar í þeim og sól. Ég hef rætt um þetta við nokkra kollega mína og við höfum komist að þeirri niðurstöðu að þessi iðja mín falli undir "hugræna atferlismeðferð á diski". Hugræn atferlismeðferð felur m.a. í sér að fá menn til þess að hugsa öðruvísi en þeir eru vanir, hugsa jákvæðar hugsanir og líta á björtu hliðar lífsins."