Guðmundur Pálsson
Guðmundur Pálsson
Guðmundur Pálsson fjallar um tæknifrjóvgun og getnaðarmál: "Ég tel að enginn hafi rétt á að ráðast á siðferðisgildi konunnar og segja henni hvað er rétt í þessu efni."

RÍKIÐ ætti að skipta sér sem minnst af getnaðarmálum, og sé það gert, þá eingöngu vegna sjúkdóma eða skertrar frjósemi, eins og lög gera ráð fyrir í dag. Mér hrýs hugur við að heilbrigðiskerfið fari að sinna framleiðslu á þessu sviði eftir hentugleikum fullorðinna, en töluverð hætta er á því að sérstakir hópar muni þrýsta á sérhæfðar lausnir fyrir sig.

Sama ætti að gilda fyrir samkynhneigða og aðra þegna varðandi þessa þjónustu heilbrigðiskerfisins. Því ætti ríkið að skipta sér sérstaklega af getnaðarmálum þeirra fremur en annarra? Löggjafinn þarf að standa vörð um að ekki sé gert á hluta þeirra sem málið varðar - sérstaklega barnanna - og að sjálf frjóvgunaraðgerðin sé ekki siðlaus eða skaðleg.

Þá þarf að hugleiða hvort leitt geti til krafna um öfgafullar tæknilausnir síðar, sem enginn hemill yrði á. Kem ég að því hér á eftir. Auðvitað eru óskir samkynhneigðra um barneignir skiljanlegar. Um það er ekki deilt. En eru samkynhneigðum konum allar bjargir bannaðar í þessum efnum; eru brotin á þeim réttindi? Algengast er að sæði komi frá karlmanni með venjulegum getnaði. Varla er það sérstakt réttindamál að sneiða framhjá því.

Hin leiðin er tæknifrjóvgun frá gjafaþega sem gefur samþykki sitt og telst þá faðir barnsins, þótt uppeldisforeldrar verði e.t.v. aðrir.

Stutt í öfgafullar hugmyndir

Sömu reglur ættu að gilda fyrir lesbískar konur og aðrar konur og það er varasamt fordæmi að koma til móts við sérstæðar óskir þeirra um nafnlaust gjafasæði og forgang að tæknifrjóvgun umfram aðrar konur.

Hugmyndir tæknisinna á þessu sviði eru vægast sagt orðnar öfgafullar, þótt ekki sé það enn hér á landi. Mest til að uppfylla eigin þarfir og hafa fulla stjórn á eigninni - barninu sjálfu.

Þannig stefnir í tækni sem gengur út á að kona láti frjóvga egg sitt með útvöldu nafnlausu sæði og setji síðan lífið, sjálfan fósturvísinn, í leg sambýliskonu sinnar.

Þið sjáið hugmyndaflug eignahyggjunnar, lesendur góðir. Þá eru mæðurnar tvær. Ein líffræðileg móðir sem leggur til helming genanna, en hin móðirin sem gekk með barnið. En faðirinn er nafnlausar kjarnsýrur, DNA. Í þetta stefnir og aðrar álíka útfærslur ef menn hafa enga skoðun á þessu og fara ekki með gát þegar í byrjun.

Mikilvægi foreldra

Spurt var í grein hér um daginn hvað væri foreldri og stóð ekki á svari. Ekki þarf að gera málið flóknara en það er, og frá fornu fari er talað um líffræðilega foreldra og uppeldisforeldra. Ég get ekki séð að það séu rök að líffræðilegt foreldri skipti ekki máli lengur, heldur eingöngu uppalendurnir. Báðir skipta vitaskuld máli.

Það er almenn vitneskja að barni sé mikilvægt að geta haft upp á líffræðilegu foreldri sínu, kynnst síðar umhverfi þess og ættmennum og speglað sig í uppruna sínum. Þetta er fyrir suma forsenda sjálfsþekkingar og sáttar við lífið. Það er ástæðulaust að sneiða hjá þessu skipulega og ríkið á ekki að taka þátt í því.

Annað mál er hvað einstaklingar velja að gera.

Nauðsynlegt getur verið vegna sjúkdóma að vita deili á blóðforeldri t.d. vegna ættlægra sjúkdóma.

Málaferli eru fyrirsjáanleg vegna þessara hluta ef löggjafinn leggur grunn að lífi sem er sneytt möguleika á að kynnast erfðaforeldri sínu síðar á ævinni. Gæti þetta átt við einstakling sem teldi sér ekki hafa farnast vel.

Það er mikill munur á að finna ekki foreldra sína t.d. í öðru landi eða standa frammi fyrir því að löggjafinn hafi með vilja sneytt mann möguleikum á tengslum við líffræðilegt foreldri. Annað er lífið eins og það kemur fyrir af skepnunni, hitt er framleiðsla.

Ættleiðingar

Lesbískar konur í samvist munu fyrst og fremst, eðli málins samkvæmt, leita eftir tæknifrjóvgun - síður ættleiðingu. Því það? Af öllum löndum heims leyfir aðeins Svíþjóð slíkar ættleiðingar og af þeim 26 löndum sem eru í ættleiðingartengslum við Svía hefur ekkert þeirra landa tekið við umsókn fyrsta sænska parsins um ættleiðingu (síðan 1. febr. 2003).

Því eru litlar líkur á að um slíkar ættleiðingar verði að ræða í raun hér á landi. En á hinn bóginn töluverðar líkur á því, að lagasetning þessa efnis geti skaðað hagsmuni para eða hjóna sem sækja um ættleiðingu, frá þeim ríkjum sem við erum þegar í góðu sambandi við. Á þetta síðastnefnda bendir félagið Íslensk ættleiðing fyrir hönd þeirra ótal mörgu aðila sem síðar munu sækja um ættleiðingu.

Hugsar íslensk móðir öðruvísi en erlend?

Stæði íslensk móðir frammi fyrir því einhverra hluta vegna að láta dóttur sína eða son í ættleiðingu til fólks, og byðist tveir kostir: að láta barnið til tveggja kyntengdra karlmanna eða gagnkynhneigðs pars, hvað myndi hún gera? Láta sér fátt um finnast? Mér finnst það ekki líklegt.

Er hún þá haldin fordómum og fávisku? Og mikilvægast; er það sjálfgefið að hún hafi þar með sérstaka andúð á samkynhneigðum? Að sjálfsögðu ekki.

Ég tel að enginn hafi rétt á að ráðast á siðferðisgildi konunnar og segja henni hvað er rétt í þessu efni. Hins vegar efast ég ekki um að móðirin velji það sem hún telur barninu fyrir bestu.

Höfundur er sérfræðingur í heimilislækningum.