— Ljósmynd: Ásdís
Um síðustu helgi varð Hjörvar Steinn Grétarsson Norðurlandameistari í skólaskák í flokki ungmenna tólf til þrettán ára á móti í Espo í Finnlandi, en hann sigraði líka á sama móti í hittifyrra.

Um síðustu helgi varð Hjörvar Steinn Grétarsson Norðurlandameistari í skólaskák í flokki ungmenna tólf til þrettán ára á móti í Espo í Finnlandi, en hann sigraði líka á sama móti í hittifyrra. "Ég byrjaði að fara á mót sex ára," segir Norðurlandameistarinn aðspurður og kveðst hafa lært skák í skóla og mannganginn af eldri bróður sínum, Birgi Erni. Þegar hann var 7-8 ára gekk hann svo í Taflfélagið Helli. "Ég hreifst strax af skákíþróttinni. Hún krefst mikillar einbeitni og vinnu og er erfiðari en margir halda. Skák gengur ekki bara út á að hreyfa einhverja kalla og peð," segir hann. Hjörvar Steinn segir skákina "ekki fyrir" þegar hann er spurður hvort hún bæti námsárangur. "Líklega gerir hún mig einbeittari og fljótari að hugsa og hjálpar til í stærðfræðináminu," bætir hann við. Uppáhaldsskákbyrjunin er riddari g1-f3, Reti-byrjun, eða kóngspeðsbyrjun, e2-e4, segir hann jafnframt.

Hjörvar Steinn er drengjameistari Íslands og Unglingameistari Reykjavíkur annað árið í röð og var valinn efnilegasti skákmaður Hellis 2004 og 2005. Auk þess sigrar hann reglulega á unglingaæfingum og atkvöldum hjá félaginu. Hann er yngsti skákmaður sem valinn hefur verið í landsliðsflokk. Hjörvar Steinn þakkar góðan árangur kennara sínum, Helga Ólafssyni, Vigfúsi Óðni Vigfússyni æskulýðsfulltrúa og Gunnari Björnssyni formanni Hellis, sem og Helga Árnasyni skólastjóra Rimaskóla, en skáksveit Rimaskóla hefur bæði orðið Norðurlandameistari og Íslandsmeistari.

Í framtíðinni er takmarkið að verða stórmeistari. "Það væri hápunkturinn," segir hann. Næsta skákmót sem Hjörvar Steinn tekur þátt í er Reykjavík Open, sem fram fer í mars, en það er opið öllum sem hafa 2000 stig og yfir. Hjörvar Steinn er með 1965 íslensk skákstig og 2040 alþjóðleg stig, sem þykir vel af sér vikið af 13 ára dreng. | helga@mbl.is