Kýrnar í Suður-Súdan eru vel hyrndar. Stundum hafa horn eins og þessi verið tekin og snúið upp á þau til að fá á þau sérstakt lag. "Ef maður ætti kýr með svona horn - ú la la!" sögðu súdanskir félagar mínir þegar við sáum slíkar gersemar. Kýr eru í raun nokkurs konar gjaldmiðill á þessu svæði og afar mikils metnar.
Kýrnar í Suður-Súdan eru vel hyrndar. Stundum hafa horn eins og þessi verið tekin og snúið upp á þau til að fá á þau sérstakt lag. "Ef maður ætti kýr með svona horn - ú la la!" sögðu súdanskir félagar mínir þegar við sáum slíkar gersemar. Kýr eru í raun nokkurs konar gjaldmiðill á þessu svæði og afar mikils metnar. — Morgunblaðið/Sigríður Víðis
Svipmynd frá Súdan
Sigríður Víðis Jónsdóttir
"Leikreynsla mín úr framhaldsskóla er ekki til að hafa mörg orð um og það var hvergi...

Sérðu þessar þarna, þær eru magnaðar!" sögðu félagar mínir og bentu út um bílrúðuna. "Já, geðveikt flottar," heyrðist í strákunum í aftursætinu. "Alveg rosalegar. Líttu á þær, maður!"

Ég mændi út um framrúðuna á stóran hóp af kúm. Þær voru að minnsta kosti nokkrir tugir, kannski eitt hundrað. Umræðuefnið var kýr - nei ekki kvenfólk. "Sko, þær sem eru með snúin horn eru flottastar," sögðu félagarnir og bentu á kú með risavaxin horn, fagurlega snúin. Strákarnir voru af Dinka-þjóðernishópnum. Í Suður-Súdan forma margir horn kúa sinna á ýmsa vegu. Kýrnar hafa margfalt stærri horn en þær íslensku.

Við vorum stödd í jeppa á holóttum vegi í Suður-Súdan. Moldarryk þyrlaðist upp þegar hjörðin gekk hjá. "Maður myndi nú ganga í augun á stelpunum með þessum," sagði einn strákanna hugsi. "Já, ef maður ætti kýr með svona horn - ú la la!" sagði annar og skellti upp úr.

Ég fór sömuleiðis að hlæja. Ef ég ætti kýr heima á Íslandi og legði metnað minn í að snúa upp á hornin á þeim, yrði ég líklega lögð inn á stofnun. Birtist ég með flatskjá í Suður-Súdan og segði að ég hefði þurft að kaupa mér enn fínna sjónvarp en ég þegar ætti, því það pirraði mig svo gasalega þegar skjárinn væri kúptur en ekki flatur, hefðu strákarnir aftur lagt mig inn á einhverja súdanska stofnun.

Þetta eru för eftir sprengjubrot

Um kvöldið sagði einn kunningja minna að hann hafi misst tvo bræður sína í borgarastyrjöldinni sem lauk í fyrra. Sjálfur tók hann upp vopn og barðist með uppreisnarmönnunum.

"Nú varst þú einn af þeim?" spurði ég hissa. Þá hafði ég ekki enn áttað mig á að annar hver maður á svæðinu virtist hafa verið í uppreisnarhernum SPLA. "Hvað heldurðu að þetta sé?" spurði vinurinn einungis glottandi og benti á handlegginn á sér. "Þetta eru för eftir sprengjubrot. Systir, ég særðist margoft."

Í nálægu húsi drakk ég te og ræddi við karlmann á milli þrítugs og fertugs. "Hvort ég meiddist í stríðinu? Jú, ég varð til dæmis fyrir sprengju sem hent var úr lofti," sagði hann og sýndi mér hægri höndina. Hún var bækluð. "Hvernig getum við gleymt því sem gerðist í stríðinu?" spurði hann, strauk sér um höfuðið og bætti annars hugar við: "Já, hvernig er hægt að gleyma einhverju svona? Hvernig geta konur sem nauðgað var í stríðinu til dæmis mögulega gleymt?"

Ég kinkaði kolli og varð hugsað til Darfur. Þar var fólk enn drepið og konum nauðgað. Þótt Darfur væri í sama landi gat það allt eins verið í annarri heimsálfu, landið var svo stórt. Sjálft Darfur-hérað var á stærð við Frakkland.

Er komið stríð?

Um nóttina hrökk ég upp við mikil læti. Ég svaf í steinsteyptum kofa með stráþaki og tveimur gluggum. Fyrir þeim voru strengd flugnanet. Ég skimaði út um gluggann í gegnum moskítónetið sem ég lá undir, en sá ekki neitt í náttmyrkrinu. Að utan heyrðust hróp og köll, flaut og baul. Jörðin dunaði. Hvað í ósköpunum er að gerast?

Skyndilega heyrði ég rödd félaga míns. Hann kallaði nafnið mitt. Ég stökk svefndrukkin undan moskítónetinu og hljóp út úr kofanum. Átök hlutu að hafa brotist út aftur. Guð minn góður. Kannski var það svona sem fólkinu leið meðan hérna var barist. "Hvað er að gerast?" öskraði ég og hljóp til félaga míns. "Æ, þú rétt misstir af því!" sagði hann einungis og var sársvekktur. Ég horfði forviða á hann.

- Það var verið að fara með þúsundir nautgripa hérna framhjá. Það hefði verið svo gaman fyrir þig að sjá það! sagði hann.

- Ha, en hvað með stríðið? stamaði ég.

- Stríðið?! spurði hann.

- Já, er ekkert stríð?

- Ha, nei, bara kýr. Hva, ertu svona syfjuð?

- Já, auðvitað. Það er mið nótt.

- Já, ég veit. En það hefði verið svo gaman fyrir þig að sjá þetta!

Ég gekk að kofa mínum, þrátt fyrir að mér væri vinsamlega bent á að klukkan væri fimm og tími til kominn að fara á fætur.

"Magnaðar kýr hérna maður, ú la la," sagði ég svefndrukkin og blikkaði félagann. Síðan skreið ég aftur í rekkju mína.

sigridurv@mbl.is

Fletta í greinum frá þessum degi