"Leikreynsla mín úr framhaldsskóla er ekki til að hafa mörg orð um og það var hvergi sem ég gerðist senuþjófur," segir Jónína Bjartmarz og bætir sposk við að það megi kannski segja að þingmenn standi að vissu leyti á sviði dagsdaglega, þótt...

"Leikreynsla mín úr framhaldsskóla er ekki til að hafa mörg orð um og það var hvergi sem ég gerðist senuþjófur," segir Jónína Bjartmarz og bætir sposk við að það megi kannski segja að þingmenn standi að vissu leyti á sviði dagsdaglega, þótt það sé annars konar svið en leiksviðið. Í Píkusögum fer hún með tölfræði yfir fjölda nauðgana og kæra og segir einnig frá hörmungum á Balkanskaga. "Að hluta til fer ég með minningu 10 ára stúlku þaðan. Ásamt Ástu Ragnheiði og Guðrúnu Ögmunds fjalla ég síðan um í hverju píkan væri ef hún klæddi sig," segir hún.

Jónína segir að sér og öðrum sem voru í undirbúningshópi fyrir sýninguna hafi fundist lykilatriði að allar konur sem væru á þingi tækju þátt, ef á annað borð yrði ráðist í verkið. "Hugmyndin var kynnt fyrir konum í þingflokkunum og það náðist almenn samstaða um að gera þetta. Stemmningin hefur verið mjög góð og það hefur verið einhugur um að sýna að málefnið er hafið yfir flokkadrætti. Ég held að það gefi þessu aukið gildi. Ég held að þingkonur hafi yfirhöfuð haft gott af því að setjast niður sem hópur og ræða þessi mál."

Ofbeldi gegn konum er víðtækt

Aðspurð hvort erfitt sé búið að vera að taka þátt í uppfærslunni, þar sem umfjöllunarefnið er ekki beint það auðveldasta, segir Jónína að ekkert af því sem fram kemur í Píkusögum sé í raun og veru nýtt. "Það liggur fyrir að ofbeldi gegn konum er mikið og víðtækt og það vitum við sem höfum unnið með þessi mál í mörg ár. Það á sér ótal birtingarmyndir: Í nauðgunum, sifjaspellum, klámi og vændi, mansali og almennu líkamlegu og andlegu ofbeldi. Hins vegar verður að viðurkennast að það er annað að fara yfir málaflokkinn með frásögnum kvenna sem segja frá eigin upplifun. Efnið stendur manni þá nærri og verður persónulegra en að lesa tölur í skýrslu," segir hún.

Jónína bendir á að baráttan gegn kynbundnu ofbeldi þurfi að fara fram á mörgum sviðum - með löggjöf, með umræðum og á ólíkum vettvangi. "Píkusögur eru ein leið í baráttunni og opna vonandi augu einhverra."