VIÐSKIPTARÁÐ Íslands segir, í áliti sínu um frumvarp menntamálaráðherra um Ríkisútvarpið hf., að frumvarpið dragi í engu úr þeirri hörðu samkeppni sem stofnunin stundi við einkaaðila, sem ekki njóti sama stuðnings frá hinu opinbera.

VIÐSKIPTARÁÐ Íslands segir, í áliti sínu um frumvarp menntamálaráðherra um Ríkisútvarpið hf., að frumvarpið dragi í engu úr þeirri hörðu samkeppni sem stofnunin stundi við einkaaðila, sem ekki njóti sama stuðnings frá hinu opinbera. Frumvarpið er nú til meðferðar í menntamálanefnd Alþingis. Í áliti Viðskiptaráðs kemur fram m.a. að ráðið telji að draga eigi RÚV af auglýsingamarkaði.

"Enn á ný er gerð tilraun af hálfu stjórnvalda til að breyta um rekstrarform á Ríkisútvarpinu," segir m.a. í áliti Viðskiptaráðs. "Stofnunin er olnbogabarn stjórnkerfisins og virðist einhverra hluta vegna undanskilið þeirri eðlilegu kröfu frjáls markaðar að ríkið stundi ekki samkeppni við einkaaðila. Nú hefur menntamálaráðherra sett fram frumvarp þar sem lagt er til að stofnunin verði gerð að hlutafélagi en frumvarpið dregur í engu úr þeirri hörðu samkeppni sem stofnunin stundar við einkaaðila sem njóta ekki sama stuðnings frá hinu opinbera."

Í álitinu segir að ráðið hafi m.a. lagt það til að Ríkisútvarpið verði gert að hlutafélagi með það að markmiði að selja að minnsta kosti hluta þess í fyllingu tímans. Ráðið telur að ýmislegt megi betur fara í frumvarpi ráðherra hvað áhrærir almenna stefnumörkun.