Sigurður Hafþórsson
Sigurður Hafþórsson
* SIGURÐUR Hafþórsson varði doktorsritgerð sína í Gamlatestamentisfræðum við Uppsalaháskóla 30. janúar sl.

* SIGURÐUR Hafþórsson varði doktorsritgerð sína í Gamlatestamentisfræðum við Uppsalaháskóla 30. janúar sl. Ritgerðin ber titilinn "A Passing Power: An Examination of the Sources for the History of Aram-Damascus in the Second Half of the Ninth Century B.C."

Damaskus í Sýrlandi var höfuðborg Aram-Damaskus. Þessa ríkis er getið í nokkrum heimildum, m.a. í Gamla testamentinu, en fáar fornminjar hafa fundist eftir íbúa þess. Á grundvelli þessara takmörkuðu heimilda hafa ýmsir fræðimenn þó endurskapað mynd af máttugu ríki, sumir tala jafnvel um stórveldi, mitt á milli stórveldanna í Mesópótamíu og Egyptalandi.

Sigurður hefur í doktorsritgerð sinni rannsakað nákvæmlega þær heimildir sem til eru um sögu Aram-Damaskus í kringum 800 f. Kr. og leitað sérstaklega að áhrifasvæði ríkisins. Niðurstöður hans sýna að fræðimenn hafa tekið of stórt upp í sig þegar þeir tala um stórveldi, í raun og veru gefa heimildirnar ekki góða mynd af hversu umfangsmikið ríkið var á þessum tíma. Ýmislegt bendir þó til þess að þegar ríkið var sem stærst landfræðilega hafi það náð frá Gólanhæðunum í suðri til u.þ.b. 100 km norðaustur frá Damaskus.

Fáir af textunum sem eru áhugaverðir fyrir sögu Aram-Damaskus koma frá Arameunum sjálfum. Fleiri textar koma frá Mesópótamíu, frá Assýringum (núverandi Írak) og frá Gamla testamentinu. Assýrísku textana (og einnig þá arameísku) höfum við varðveitta á stein- og leirtöflum, fílabeini o.þ.h. og eru þeir skrifaðir stuttu eftir þá atburði sem þeir lýsa. Textarnir í Gamla testamentinu gætu mögulega átt uppruna sinn nálægt atburðunum sjálfum en upprunalegir textar eru ekki til eins og með hina assýrísku og arameísku. Þar að auki er mikið af efni í biblíutextunum sem verður að lesa með mikilli aðgát, t.d. goðsögur og kraftaverkasögur, sem eru fléttaðar saman við sögulegar frásagnir. Þó eru einnig arameísku og assýrísku textarnir litaðir af hugmyndafræði skapara þeirra.

Leiðbeinendur Sigurðar voru dr. Stig Norin prófessor og dr. Dag Oredsson lektor, báðir starfandi við Uppsalaháskóla. Andmælandi við vörnina var dr. Hans Barstad, prófessor við Háskólann í Edenborg. Í dómnefnd sátu dr. Gullög Nordqvist prófessor, dr. Olof Pedersén prófessor og dr. Martti Nissinen prófessor.

Sigurður Hafþórsson fæddist í Reykjavík 5. ágúst 1972, sonur hjónanna Hafþórs V. Sigurðssonar kennara og Margrétar Helgadóttur fulltrúa. Hann lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti 1992 og BA-prófi í guðfræði frá Háskóla Íslands árið 1996. Á árunum 1996-1998 stundaði hann nám í Gamlatestamentisfræðum og Assýríufræðum í Uppsölum og í Tübingen. Sigurður vann við rannsóknir og kennslu við Uppsalaháskóla frá 1998 til ársins 2006. Eiginkona Sigurðar er Cecilia Möne umhverfisfulltrúi. Þau eiga tvo syni, Jakob Helga og Jónatan Staffan , og eru búsett í Svíþjóð.