Söngkonan og hörpuleikarinn Joanna Newsom.
Söngkonan og hörpuleikarinn Joanna Newsom.
SÖNGKONAN og hörpuleikarinn Joanna Newsom spilar á tónleikum í Fríkirkjunni fimmtudaginn 18. maí. Á undan henni spilar hljómsveitin Slowblow en þeir félagar hafa ekki spilað á Íslandi í langan tíma.

SÖNGKONAN og hörpuleikarinn Joanna Newsom spilar á tónleikum í Fríkirkjunni fimmtudaginn 18. maí. Á undan henni spilar hljómsveitin Slowblow en þeir félagar hafa ekki spilað á Íslandi í langan tíma.

Joanna Newsom er án efa með forvitnilegri tónlistarmönnum sem komið hafa fram á síðustu árum. Harpa og söngur eru nóg til þess að vekja hjá mönnum áhuga en það er samt svo miklu meira sem bíður þeirra sem leggja við hlustir; einstök rödd og sérstakar lagasmíðar sem skarta bæði næmni og fegurð.

Fyrstu tvær plötur Joanna Newsom voru heimagerðar. Það eru plöturnar Walnut Whales (2002) og Yarn and Glue (2003), sem voru stuttskífur sem vöktu athygli manna eins og Will Oldham og Devandra Banhart. Fljótlega eftir útkomu Walnut Whales var henni boðið að spila á tónleikum með þeim báðum og jókst hróður hennar upp úr því. Eina breiðskífa Joanna Newsom kom síðan út árið 2004. Hún heitir The Milk-Eyed Mender og hefur fengið frábæra dóma úti um allan heim og vakið verðskuldaða athygli.

Söngkonan hefur komið fram á tónleikum úti um allan heim undanfarin misseri og kom hún meðal annars fram á Hróarskelduhátíðinni í fyrra. Hún þykir vera einstök á sviði og lætur engan ósnortinn.

Að sögn Gríms Atlasonar tónleikahaldara verða aðeins seldir um 400 miðar á tónleikana. Það verður selt í þrjú hólf á tónleikana en þess ber að geta að ekki verður selt í aftari bekkina á svölum þannig að allir eiga að sjá það sem fram fer á sviðinu í Fríkirkjunni þetta kvöld.

Joanna Newsom ásamt Slowblow í Fríkirkjunni 18. maí kl. 20. Miðasala er hafin á midi.is og í verslunum Skífunnar og BT um allt land. Miðaverð er 2.500 kr. auk miðagjalds.