Sænska þjóðin var harmi slegin þegar Palme var myrtur og vottuðu þúsundir Svía honum virðingu sína með því að leggja blóm þar sem glæpurinn var framinn.
Sænska þjóðin var harmi slegin þegar Palme var myrtur og vottuðu þúsundir Svía honum virðingu sína með því að leggja blóm þar sem glæpurinn var framinn. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Olof Palme var einn áhrifamesti stjórnmálaleiðtogi Norðurlanda og það var reiðarslag þegar hann var skotinn til bana, en ein afleiðingin var sú að um manninn sjálfan ríkti nánast þögn í sænsku samfélagi. Nú eru tuttugu ár liðin frá tilræðinu við Palme.

Olof Palme var einn áhrifamesti stjórnmálaleiðtogi Norðurlanda og það var reiðarslag þegar hann var skotinn til bana, en ein afleiðingin var sú að um manninn sjálfan ríkti nánast þögn í sænsku samfélagi. Nú eru tuttugu ár liðin frá tilræðinu við Palme. Sigurður Ólafsson skrifar um Palme og skarðið sem hann skildi eftir sig.

Svíar minnast þess um þessar mundir að tuttugu ár eru síðan sænska sjónvarpið rauf dagskrá sína á tólfta tímanum að kvöldi 28. febrúar 1986 til þess að skýra löndum sínum frá þeim hörmungartíðindum að forsætisráðherra landsins hefði fallið fyrir hendi morðingja á Sveavägen í miðborg Stokkhólms skömmu fyrr um kvöldið.

Þjóðin var harmi lostin. Enginn trúði því að nokkuð þessu líkt gæti hent í því opna og friðsæla samfélagi sem Svíar töldu sig búa í. Í kjölfar morðsins á Palme fylgdi síðan morðrannsókn sem ekki gerði nema að auka á óró fólks. Röð alvarlegra mistaka átti sér stað sem leiddi til þess að enn þann dag í dag hefur ekki tekist að færa sönnur á það hver myrti Olof Palme þó að böndin hafi hingað til vissulega beinst í eina átt öðrum fremur.

Þessi óvissa og endalausa bið eftir því að morðmálið verði leitt til lykta hefur að mörgu leyti orðið til þess að umræðan í kringum Olof Palme hefur á þeim tuttugu árum sem liðin eru frá voðaverkinu fremur snúist um hina óupplýstu morðgátu en að rætt sé um stjórnmálamanninn Olof Palme. Sjálfsagt hefði enginn trúað því meðan að Olof Palme lifði og starfaði að umræða um skoðanir og verk hans yrðu hálfgert laumuspil í sænsku samfélagi en sú hefur engu að síður verið raunin síðan Palme hvarf á braut.

Skekkti alla umræðu

Félagar Palme í sænska jafnaðarmannaflokknum hafa margoft lýst því hvaða hneykslan þeir uppskáru ef þeir leyfðu sér að vitna í orð eða dyggðir Olofs Palme fyrstu árin eftir að morðið var framið. Pólitískir andstæðingar töldu slíkar tilvitnanir misnotkun á minningu fallins leiðtoga sem þeir jafnaðarmenn sem á eftir komu reyndu að nota sér til framdráttar. Að sama skapi var erfitt fyrir andstæðinga Palme að snúa aftur til þeirrar beittu og oft miskunnarlausu gagnrýni sem dundi á honum enda þótti slíkt hvorki við hæfi né líklegt til mikilla vinsælda.

Við þetta bætist sú staðreynd að fræðimenn, blaðamenn og rithöfundar hafa líka verið ótrúlega hljóðir um arfleifð Olofs Palme sem stjórnmálamanns. Aðeins hefur komið út ein ævisaga sem eitthvað kveður að á þessum tíma og sú er frá árinu 1989. Síðan er einungis um að ræða fáeinar minningabækur náinna samstarfsmanna og lausbeislaðar athuganir á einstökum þáttum í fari Palme sem stjórnmálamanns. Margt af því sem þegar hefur komið út er auk þess því miður haldið þeirri hetjukenndu og gagnrýnislausu mynd sem oft einkennir umfjöllun um þá sem voru umdeildir í lifanda lífi en falla frá í blóma lífsins.

Vakti sterkar tilfinningar

Þrátt fyrir að stjórnmálamenn séu alltaf umdeildir þá vakti Olof Palme sterkari tilfinningar hjá fólki en stallsystkin hans gera yfirleitt. Hann átti það til dæmis sameiginlegt með Jónasi frá Hriflu að hafa verið sakaður um geðsýki af andstæðingum sínum. Auk flökkusagna um geðsýki Palme gengu einnig sögur af svipuðum sannleikstoga um að hann væri háður heróíni eða ópíumi. Honum bárust fjölmargar berorðar morðhótanir gegnum árin og áróðri var dreift, meðal annars með myndum af honum í líki djöfulsins sjálfs.

Hið mikla hatur sem Olof Palme varð fyrir úr annarri áttinni var engan veginn einungis bundið við öfgafulla og hugsanlega geðtruflaða einstaklinga. Mikið af þessari óbeit átti sér þvert á móti stað í fáguðustu hópum ríkra athafnamanna og meðal háttsettra einstaklinga innan stjórnkerfisins og hersins.

Tage G. Peterson, einn nánasti samstarfsmaður Palme, gefur dæmi um þetta í endurminningum sínum um samstarf sitt við Palme: Hann segir frá því að Jón Baldvin Hannibalsson hafði hitt Palme að máli og rætt við hann um bók sem sendiherra Svía á Íslandi hafði fengið honum í hendur með þeim orðum að í henni væri að finna gagnlegan fróðleik um forsætisráðherra Svía. Bókin reyndist vera frægt áróðursrit gegn Palme og dreifing hennar fór fram í sænskum sendiráðum víðar um heim, að sögn Petersons.

Ástæður þessa öfgakennda viðmóts fólks í garð Palme í báðar áttir mátti að mörgu leyti rekja til þess hversu grátt hann átti það til að leika pólitíska andstæðinga sína með harðorðum og miskunnarlausum málflutningi. Slíkt kallaði vitanlega á stundum á jafn hörð og óvægin viðbrögð á móti. Tvennum sögum fer af því hversu nærri sér Palme tók þann óhróður sem að honum beindist meira og minna allan hans pólitíska feril. Opinberlega virtist hann láta sér fátt um finnast en þeir sem næst honum stóðu hafa hins vegar sagt að hann hafi tekið sumt af því afar nærri sér.

Lítil umræða um stefnu Palmes

Vegna þagnarinnar sem ríkt hefur um stjórnmálamanninn Olof Palme síðan morðið var framið fyrir tuttugu árum hefur ekki mikil umræða átt sér stað um þá stefnu sem Olof Palme stóð fyrir í stjórnmálum. Þó má ljóst vera að Olof Palme stóð nokkuð til vinstri við núverandi stefnu sænska jafnaðarmannaflokksins og fjölda systurflokka hans víða um veröld í mörgum mikilvægum málaflokkum nútímans. Þegar hlustað er á gamla ræðubúta og gluggað í gamlar greinar eftir Palme er til að mynda ljóst að hann talar mun verr um lögmál markaðshagkerfisins en nokkrum sósíaldemókrata nú í upphafi 21. aldar myndi nokkurn tíma detta í hug.

Hins vegar hefur það auðvitað alltaf þótt fremur vafasöm iðja að herma stefnur og gjörðir genginna stjórnmálamanna upp á nútímann og ætla sér að setja eitthvert samasemmerki þar á milli. Við fráfall Olofs Palme ríkti enn kalt stríð í heiminum, Svíar stóðu enn utan þess sem nú heitir Evrópusambandið, hnattvæðing var ekki komin á þann skrið sem síðar varð og efnahagskreppan í upphafi tíunda áratugarins og fleiri utanaðkomandi þættir höfðu ekki kallað á enn frekari endurskoðun á aðalsmerki Svía: "Folkhemmet" - velferðarkerfinu víðfeðma sem sænskir kjósendur höfðu haldið að myndi haldast óbreytt og óskert um aldur og ævi.

Víða um hinn vestræna heim komu upp svipaðar aðstæður og það kallaði meðal annars á allsherjar endurskoðun jafnaðarmanna víða um lönd á stefnu sinni. Niðurstaða þeirrar endurskoðunar var meðal annars sú meðal sænskra jafnaðarmanna að ýmsir sem höfðu á sínum tíma talað á svipaðan hátt og Olof Palme fikruðust nær miðju stjórnmálaássins.

Ómögulegt er að komast að niðurstöðu um það hvort Palme hefði fylgt þessum straumi flokksfélaga sinna eða ekki. Þó að sjálfsagt megi færa rök fyrir hvoru tveggja má benda á að Olof Palme hefur af mörgum samherjum sínum og andstæðingum verið lýst sem raunhyggjustjórnmálamanni sem átti það til að skipta um skoðun í veigamiklum málum ef hann skynjaði að skoðanir meirihluta kjósenda væru að breytast.

Þó má eins gera ráð fyrir þriðja möguleikanum: Það er að segja að Olof Palme hafi þegar örlögin gripu inn í þegar verið farinn að huga að því að hætta afskiptum af sænskum stjórnmálum. Mörgum af þeim sem umgengust Palme sem mest á síðustu árunum fannst margt benda til þess að hann hygðist draga sig í hlé frá og með þingkosningunum 1988. Þetta hafa hins vegar synir Palme ekki viljað kannast við og segja þeir ekkert fararsnið hafa verið á föður sínum úr sænsku stjórnmálavafstri. Þriðji möguleikinn er því jafn óræður og hinir tveir þegar kemur að þeirri marklausu iðju að spá í hvað hefði getað orðið.

Samviska heimsins

Olofs Palme er hins vegar ekki síður minnst fyrir framlag sitt til alþjóðastjórnmála. Þar var hann réttnefndur fulltrúi "heimssamviskunnar", eins og hin hlutlausa sænska utanríkisstefna var stundum nefnd á þessum árum. Palme nýtti sér hlutleysið til þess að skjóta föstum skotum í allar áttir á alþjóðavettvangi. Hann gagnrýndi Víetnamstríðið harkalega allt frá árinu 1965 og sú gagnrýni reis ef til vill hæst þegar hann tengdi loftárásirnar á Hanoi rétt fyrir jólin 1972 við staðarnöfn þar sem mörg af verstu illvirkjum í sögu 20. aldarinnar voru framin. Þetta olli miklu uppnámi vestanhafs. Nixon kallaði Palme "the Swedish asshole" og samskipti Bandaríkjamanna og Svía voru í töluverðu uppnámi um nokkurn tíma eftir þetta.

Önnur markverð ummæli hans á svipuðum tíma voru þegar hann fordæmdi innrás Sovétmanna inn í Tékkóslóvakíu 1968 harkalega og aftur í kjölfar innrásar hinna sömu inn í Afganistan rúmum áratug síðar. Francoista á Spáni kallaði hann "morðingja skrattans" og aðskilnaðarstefnu kallaði hann sérstaka birtingarmynd hins illa. Hins vegar þótti hann ekki alltaf jafnberorður og stundum jafnvel ekki alveg samkvæmur sjálfum sér við það að verja lítilmagnann. Dæmi um þetta er þegar að hann fór undan í flæmingi þegar hann var spurður hvort hann ætlaði sér ekki að beita sér gegn mannréttindabrotum á Kúbu og Austur-Þýskalandi á sama hátt og hann gerði annars staðar.

Þess virði að gagnrýna Vesturlönd

Í slíkum tilvikum þótti andstæðingum hans sem hann gerðist sekur um tvöfeldni, þar sem hann væri tilbúinn til þess að ráðast harkalega að því sem honum þótti miður fara í Bandaríkjunum og leppríkjum þess í kalda stríðinu en að hann tæki hins vegar Sovétríkin og leppríki þess vettlingatökum. Þessu var Olof Palme sjálfur mjög ósammála. Hann orðaði það svo í eyru Henrys Kissinger, utanríkisráðherra Bandaríkjanna í tíð Nixons og Fords, að hann talaði ef til vill harkalegar til Vesturveldanna en ástæðan fyrir því væri að í Sovétríkjunum og leppríkjum þess ríktu einræðisstjórnir sem ekki hlustuðu á gagnrýni en vestan megin járntjalds væru rökræður rétta leiðin og þess vegna fyndist honum frekar þess virði að standa í slíku gagnvart Bandaríkjunum og öðrum Vesturveldum.

Sagt er að Kissinger hafi glaðst við þessi orð og það staðfestist ef til vill í eftirmælum hans um Palme: "Þegar allt kom til alls stóðu skoðanir Palme fyrir það sem mest er um vert af vestrænum gildum: Hvar sem friði var ógnað, ranglæti ríkti, frelsi var teflt í tvísýnu eða rætt var um kjarnorkuvopn þá gekk Palme fremstur í flokki þeirra sem létu sig málið varða."

Framganga Olofs Palme á alþjóðavettvangi varð til þess að til hans var leitað um samstarf á ýmsum sviðum alþjóðastjórnmála og eins var honum treyst fyrir hinum og þessum ábyrgðarstöðum. Hann sat í alþjóðlegri nefnd undir stjórn Willys Brandt sem leggja átti til leiðir til þess að minnka bilið milli ríkra landa og fátækra og stuðla að friðsamlegum samskiptum þjóða á milli. Palme hélt svo sjálfur svipaðri alþjóðlegri vinnu áfram í nefnd undir eigin stjórn. Afrakstur þeirrar vinnu var sá að hin stríðandi öfl í Kalda stríðinu ættu sameiginlegra hagsmuna að gæta í öryggismálum og þau þyrftu því að vinna sameiginlega, en ekki hvort í sínu lagi, að afvopnun ef árangur ætti að nást. Palme var síðan einn þeirra þjóðarleiðtoga sem tóku þátt í framtaki sex þjóðhöfðingja frá fimm heimsálfum sem bundust samtökum um miðjan níunda áratuginn, ásamt alþjóðlegum þingmannasamtökum, um að hvetja kjarnorkuveldin til aukinnar afvopnunar.

Þá var honum einnig falið hlutverk sáttasemjara Sameinuðu þjóðanna árið 1980 í stríðinu milli Íraka og Írana. Tilraunir hans til þess að miðla málum milli hinna stríðandi afla báru þó ekki árangur en skipan hans sem sáttasemjara í þeirri erfiðu deilu sýnir hversu mikla virðingu hann hafði áunnið sér um allan heim sem hlutlaust afl sem ósjaldan talaði máli suðursins á alþjóðavettvangi. Mårten, sonur Olofs Palme, sagði meira að segja frá því í viðtali við Svenska dagbladet á dögunum að árið 1979 hefði faðir hans spurt hann dag einn við eldhúsborðið í raðhúsinu í Vällingby hvernig honum myndi lítast á það ef pabbi hans yrði skipaður aðalritari Sameinuðu þjóðanna. Það skal ósagt látið hvort Palme spurði son sinn að þessu út í loftið eða hvort það bjó raunverulega undir að honum kynni að bjóðast staðan.

Hvað sem því líður hafa fáir seinni tíma stjórnmálamenn á Norðurlöndum haft meiri áhrif á leiðtoga og þegna þjóða um veröld alla. Svíinn Jan Eliasson, sem nú er forseti allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna, gerði þetta að umtalsefni í nýlegri grein um Palme og utanríkisstefnu hans. Þar sagði hann alþjóðleg áhrif Olofs Palme best sjást á öllum þeim skólum, götum og torgum um allan heim sem nefnd hafa verið í höfuðið á honum.

Mikill Íslandsvinur

Thage G. Peterson segir frá því í minningum sínum um félaga sinn Olof Palme að hann hafi sýnt mjög takmarkaðan áhuga á norrænu samstarfi. Þó hafi á því verið undantekningar sem ekki síst hafi sýnt sig í viðhorfum hans til Íslands. Peterson lýsir Palme sem miklum Íslandsvini sem fannst mikið til íslenskrar náttúru koma - þótti sérstaklega gaman að ganga um Þingvelli - og var mikill aðdáandi íslenskra bókmennta þar sem honum þótti bæði mikið til hins forna bókmenntaarfs koma svo og verka Halldórs Laxness.

Peterson þótti það lýsandi fyrir þær sterku taugar sem hann bar til Íslands að þegar hann frétti af gosinu í Heimaey í ársbyrjun 1973 voru hans fyrstu viðbrögð þau að segja: "Við skulum færa þeim sænsk tréhús til að búa í." Þrjátíu milljónir sænskar voru síðan sendar til Íslands og Olof Palme pakkaði niður í tösku og flaug þangað.

Olof Palme bast mörgum Íslendingum sterkum böndum og á viðbrögðum íslenskra stjórnmálamanna eftir morðið á forsætisráðherranum mátti sjá að fréttirnar voru mörgum hér í landi mikið reiðarslag. Harmurinn kom ekki bara til af því áfalli sem í því fólst að forsætisráðherra norrænnar frændþjóðar væri veginn á götu úti heldur var missirinn líka persónulegs eðlis fyrir marga þá sem kynnst höfðu Olof Palme. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hafði kynni af honum gegnum störf sín í þingmannasamtökum þeim sem unnu með sex þjóða leiðtogahópnum að afvopnunarmálum sem þegar er getið um í þessari umfjöllun.

"Eini heimsstjórnmálamaður Norðurlanda"

Í viðtali við Morgunblaðið í kjölfar morðsins lýsti hann Palme sem "eina heimsstjórnmálamanni Norðurlanda". Hann lét auk þess eftirfarandi orð falla um persónuleg einkenni Olofs Palme: "[Þ]essi maður, sem sumum fannst vera hvass í orðræðu og stundum háðskur og kaldur rökhyggjumaður, [var jafnframt] mjög viðkvæmur og jafnvel stundum feiminn og hlédrægur. Hann hafði til að bera ríka kímnigáfu, sem einkum kom fram í hópi vina og kunningja. Í heild var hann einstaklega leiftrandi persónuleiki." Þessi persónulega lýsing Ólafs Ragnars á sænska forsætisráðherranum rímar nokkuð vel við þá mynd sem fólk yfirleitt hafði af einstaklingnum Olof Palme sem manni andstæðna, út á við annars vegar og inn á við hins vegar.

Morðið á Olof Palme situr enn þá í sænsku þjóðinni þrátt fyrir að á þeim tuttugu árum sem liðið eru hafi önnur og ekki síðri áföll dunið yfir sænsku þjóðina: Estoníu-sjóslysið, morðið á Önnu Lindh og náttúruhamfarirnar í Suðaustur-Asíu fyrir rúmu ári þar sem hundruð Svía létu lífið. Hið voveiflega fráfall forsætisráðherrans hefur auðvitað sett sitt mark á mynd Svía af Olof Palme og þann hetjukennda blæ sem hún hefur fengið. En kannski má líka segja að mynd Svía af Olof Palme tengist ákveðinni fortíðarþrá sænsku þjóðarinnar til þess tíma þegar Svíar voru óháðir á alþjóðavettvangi og gátu leyft sér að vera með uppsteyt, velferðarkerfið blómstraði og engin meiriháttar áföll skóku þjóðina.

Eins og yfirleitt gildir um fortíðarþrá styðst hún að mestu fremur við fegraða mynd af ímyndaðri gullöld heldur en raunsætt mat á liðinni tíð. Þrátt fyrir það er ekkert sem bendir sérstaklega til þess að Svíar hætti í bráð að líta með draumkenndum hætti til fortíðar sinnar þar sem Olof Palme ríkir sem eins konar táknmynd. Líkt og morðið á John F. Kennedy markaði ákveðin endalok ameríska draumsins eftir seinni heimsstyrjöld má ef til vill segja að morðið á Olof Palme hafi markað lokin á sænska drauminum um öruggt og gott samfélag þar sem allir voru óhultir og allir voru vel haldnir.

Slíka táknmynd verður erfitt að brjóta niður og því verður þess sjálfsagt langt að bíða að orð og verk Olofs Palme verði metin eins og hvers annars stjórnmálamanns.

Höfundur er stjórnmálafræðingur og magister í alþjóðafræðum.