Jake Gyllenhaal
Jake Gyllenhaal
Kvikmyndin Brokeback Mountain hlaut flest verðlaun á verðlaunahátíð Bresku kvikmyndaakademíunnar, BAFTA, sem fram fór í London á sunnudagskvöld.
Kvikmyndin Brokeback Mountain hlaut flest verðlaun á verðlaunahátíð Bresku kvikmyndaakademíunnar, BAFTA, sem fram fór í London á sunnudagskvöld. Alls hlaut myndin fern verðlaun, sem besta myndin, fyrir bestu leikstjórnina (Ang Lee), besta handrit byggt á skáldsögu og besta leikara í aukahlutverki (Jake Gyllenhaal). Næstflest verðlaun hlaut kvikmyndin Memoirs of a Geisha, en hún hlaut verðlaun fyrir tónlist, kvikmyndatöku og búningahönnun. Philip Seymour Hoffman var valinn besti leikari í aðalhlutverki fyrir hlutverk sitt sem bandaríski rithöfundurinn Truman Capote í kvikmyndinni Capote. Reese Witherspoon var valin besta leikkona í aðalhlutverki fyrir frammistöðu sína í kvikmyndinni Walk the Line sem fjallar um ævi tónlistarmannsins Johnny Cash. Witherspoon var hins vegar ekki viðstödd þannig að Christina Ricci, vinkona hennar og leikkona, tók við verðlaununum fyrir hennar hönd. Þá var Thandie Newton valin besta leikkona í aukahlutverki fyrir leik sinn í Crash, en myndin fékk einnig verðlaun fyrir besta frumsamda handritið.