Jessica Wiklund og Timothy Buzbee með gljáfægða lúðrana.
Jessica Wiklund og Timothy Buzbee með gljáfægða lúðrana. — Morgunblaðið/ÞÖK
Eftir Bergþóru Jónsdóttur begga@mbl.is ÓHÆTT er að segja að básúna og túba séu óvenjuleg hljóðfærasamsetning á tónleikum - að minnsta kosti ef hið klassíska dúó fiðla og píanó er haft til samanburðar, að ekki sé talað um píanó og söngrödd.
Eftir Bergþóru Jónsdóttur begga@mbl.is

ÓHÆTT er að segja að básúna og túba séu óvenjuleg hljóðfærasamsetning á tónleikum - að minnsta kosti ef hið klassíska dúó fiðla og píanó er haft til samanburðar, að ekki sé talað um píanó og söngrödd. Túba og básúna eru sönglúðrarnir sem blásið verður í í Norræna húsinu á morgun kl. 16, á tónleikum Texasbúans Timothys Buzbees og Jessicu Wiklund frá Svíþjóð.

Timothy Buzbee tók við stöðu túbuleikara við Sinfóníuhljómsveit Íslands á liðnu hausti ásamt því að sinna afleysingum við Sænsku útvarpshljómsveitina. Hann segir mikilvægt að fólk átti sig á því, ekki síst krakkar sem hyggist læra á hljóðfæri, að túban og básúnan séu alvöru hljóðfæri með sjálfstæðar raddir, en séu ekki bara til uppfyllingar í hljómsveitum. "Þetta eru fyrirtaks einleikshljóðfæri og henta vel til einleiks og samleiks, þótt þau hafi hingað til verið fremur sjaldséð í tónleikasölum í þeim hlutverkum. Það er nú þó sem betur fer að breytast, því æ meira er nú samið fyrir þessi hljóðfæri sérstaklega."

Jessica Wiklund tekur undir þetta og segir að þónokkuð sé til af eldri verkum fyrir þessi hljóðfæri. "Langbest er þó að fá tónskáld til að semja fyrir sig - það er alltaf gaman. En svo er sá möguleiki líka fyrir hendi að stela músík sem ætluð er öðrum hljóðfærum. Það er auðvelt að hnupla músík sem samin er fyrir önnur blásturshljóðfæri, og sellótónlist hentar þessum hljóðfærum sérstaklega vel upp á raddsviðið að gera. Við spilum til dæmis sónötu eftir Hindemith sem samin er fyrir fagott og selló og svo erum við líka með verk samin fyrir tvö selló."

Timothy Buzbee nefnir að auki nýtt verk, samið sérstaklega fyrir þau, af amerískum vini þeirra, tónskáldinu James Meador, sem jafnframt er prófessor í básúnuleik við háskólann í Louisiana. "Þetta er mjög sérstakt og skemmtilegt verk - mjög kúl ," segir Buzbee. Verkið var frumflutt í Keflavík í fyrri viku, og heyrist því hér í annað sinn.

Jessica Wiklund segir miklar breytingar hafa átt sér stað síðasta áratuginn á því hvaða hljóðfæri krakkar velji sér til að læra á. "Þegar ég var að byrja á básúnuna var ég eina stelpan í skólanum að læra á þetta hljóðfæri. Nú eru stelpur farnar að læra á hvaða blásturshljóðfæri sem er og hróður þeirra fer vaxandi. Það hefur líka skipt sköpum að það eru miklu fleiri afbragðs hljóðfæraleikarar í dag sem leika á þessi hljóðfæri en var áður fyrr - fólk sem hefur sýnt hvers það eru megnugt."

Buzbee segir að í Bandaríkjunum horfi þetta eilítið öðruvísi við, því þar sé túban gríðarlega vinsælt hljóðfæri, og miklu fleiri góðir túbuleikarar í boði en þær stöður sem hljómsveitir og skólar geti veitt þeim. "Þar er túban allt of vinsæl, öfugt við það sem hún hefur verið í þessum heimshluta. En þá er einmitt ráðið að skapa hljóðfærunum nýjan vettvang, eins og við erum að gera með okkar dúói. Við viljum leyfa þeim að njóta sín."

Wiklund segir að verkin á tónleikunum sýni fjölbreytni í stílbrigðum og spanni allt það litróf sem hljóðfærin tvö hafi upp á að bjóða. Tónleikana kalla þau Heilvita - Frávita , og segja nafnið lýsa tónlistinni prýðilega. "Þetta verður allt frá gregorssöng fyrir básúnu, að músík sem er kolbrjáluð," segir Timothy Buzbee.

Jessica Wiklund spilar nú með Sinfóníuhljómsveitinni í Gävle í Svíþjóð, en vonast til að fá starf hér á landi, þar sem þau vilji búa.

Jessica er nemandi eins kunnasta básúnuleikara heims, Christians Lindbergs. Hún er meðlimur í The Civic Orchestra of Chicago þar sem hún hefur haft tækifæri til að vinna undir stjórn Daniel Barenboim og Pierre Boulez. Árið 2002 hlaut Jessica sænsku heiðursverðlaunin Kristallen den fina fyrir flutning sinn á nútímatónlist. Í umsögn um hana sagði meðal annars: "Listrænir hæfileikar hennar njóta sín sérstaklega á sviði og kristaltær tónmyndun hennar er allt í senn mjúk, hlý, stór, sterk og ákveðin." Jessica hefur haldið tónleika víða í Skandinavíu, Evrópu og Ameríku. Hún starfar nú sem fyrsti básúnuleikari við Sinfóníuhjómsveitina í Gävle.

Á árunum 2001-2004 var Timothy fastráðinn sem fyrsti túbuleikari Singapore Sinfóníuhljómsveitarinnar en fram að því hafði hann starfað reglulega með sinfóníuhljómsveitum í Houston, Chicago, Acapulco og Dallas í Bandaríkjunum.

Það er ekki oft sem haldnir eru tónleikar þar sem leikin eru einleiks- og dúóverk fyrir túbu og básúnu og því má fullyrða að þetta sé einstakt tækifæri fyrir íslenska tónlistarunnendur.