Margrét S. Jónsdóttir
Margrét S. Jónsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Margrét S. Jónsdóttir og Þorbjörg Róbertsdóttir svara, fyrir hönd 16 félagsráðgjafa sem starfa í Þjónustumiðstöð Laugardals og Háaleitis, grein Hildar Jónsdóttur: "Félagsráðgjafar eru ekki að fara fram á hærri laun en aðrir, heldur eru þeir að biðja um jafnrétti til launa á við sambærilegar fagstéttir sem starfa hjá Reykjavíkurborg."

HINN 9. febrúar sl. birtist í Morgunblaðinu bréf til blaðsins, undir yfirskriftinni "Kjör félagsráðgjafa hjá Reykjavíkurborg". Þar var lýst áhyggjum af gangi samningaviðræðna milli Reykjavíkurborgar og félagsráðgjafa sem þar starfa. Fjallað var um beiðni félagsráðgjafa frá október sl., um leiðréttingu tekna til jafns við aðrar stéttir innan þjónustumiðstöðva borgarinnar, sem eiga að baki sambærilega langt nám. Bent var á að í nýfelldum samningum hefði sú leiðrétting ekki náðst fram, hvað þá veruleg kjarabót á samningstímanum. Jafnframt var nefnt að umræddir samningar bættu ekki kjör félagsráðgjafa til jafns við hefðbundnar karlastéttir innan borgarkerfisins, þrátt fyrir að af umfjöllun síðustu vikna mætti ráða að jöfnun kjara karla og kvenna væri mikið baráttumál.

Í Morgunblaðinu 14. febrúar sl. sá Hildur Jónsdóttir, jafnréttisráðgjafi Reykjavíkurborgar, ástæðu til að taka umræðuna upp, enda telur hún um rangfærslur að ræða hjá greinarhöfundum. Athygli vekur að Hildur sér ekki ástæðu til að ræða þá staðreynd að krafa félagsráðgjafa um að kjör þeirra verði leiðrétt til jafns við aðrar fagstéttir innan þjónustumiðstöðvanna, hefur á engan hátt verið virt viðlits. Hún kýs að einblína á kynjabundinn tekjumun og segir að félagsráðgjöfum hafi verið "boðinn samskonar kjarasamningur og verkfræðingar og tæknifræðingar hafa samþykkt". Það vekur undrun okkar að Hildur vitni þarna til samninga sem höfðu ekki verið kynntir félagsmönnum stéttarfélags verkfræðinga þegar hún skrifaði greinina. Þeir samningar höfðu því hvorki verið samþykktir af félagsmönnum, né voru þeir öðrum aðgengilegir til samanburðar. Auk þess kemur fram í grein Hildar að starfsmat hefði átt að bæta strax og að fullu þann kjaramun sem það kynni að leiða í ljós. Kynning á samningnum gaf félagsráðgjöfum ekki tilefni til að ætla að svo yrði, líkt og rakið verður hér. Forsvarsmönnum borgarinnar er vel kunnugt um þann launamun sem viðgengst innan þjónustumiðstöðva borgarinnar. Sú leiðrétting sem félagsráðgjafar hafa óskað eftir frá þeim tíma er þjónustumiðstöðvarnar tóku til starfa, hefur á engan hátt verið virt viðlits. Félagsráðgjafar telja sýnt að þeir séu ein lægst launaða háskólastéttin innan þjónustumiðstöðva Reykjavíkurborgar. Þeir vilja njóta jafnréttis í launum á við aðrar fagstéttir sem þar starfa, enda er um að ræða kjaramun sem ekki getur talist réttlætanlegur, hvort heldur sem tekið er mið af menntun, ábyrgð í starfi, álagi eða öðrum þáttum. Í flestum tilvikum er ekki endilega um að ræða grófan mun á grunnlaunum umræddra stétta, heldur þá staðreynd að sumum stéttum hefur verið boðið upp á einhvers konar fastlaunasamninga, sem fela í sér óunna yfirvinnu, lesdaga o.þ.h. Á sama tíma hafa félagsráðgjafar sem vinna hjá Reykjavíkurborg sjaldnast möguleika á að auka tekjur sínar, þar sem þeir sæta nær undantekningalausu yfirvinnubanni. Mismunurinn á kjörum félagsráðgjafa og þessara stétta skýrist af ofangreindum uppbótum og dæmin sýna að hann nemur allt að 100.000 kr. á mánuði. Í nýfelldum kjarasamningi var ekki að finna neina leiðréttingu á þessum mismun, en slíkt hlýtur að teljast óviðunandi.

Í grein Hildar kemur skýrt fram að félagsráðgjöfum hafi verið "gert tilboð sem í engu var lakara en fyrirliggjandi nýgerður kjarasamningur við verkfræðinga". Því er sérstaklega fróðlegt að bera saman þau kjör sem þessar stéttir hafa búið við undanfarið. Byrjunarlaun félagsráðgjafa hjá Reykjavíkurborg í dag eru kr. 204.852. Samkvæmt nýfelldum kjarasamningi hefðu byrjunarlaun félagsráðgjafa verið komin í kr. 269.435 í október 2008. Upplýsingar um kjör ólíkra stétta hafa því miður ekki verið aðgengilegar innan borgarkerfisins, því er hér á eftir stuðst við kjarakönnun stéttarfélags verkfræðinga fyrir árið 2005. Samkvæmt henni voru meðtaltekjur 26-29 ára verkfræðinga hjá ríki og Reykjavíkurborg fyrir ári eða í febrúar 2005 kr. 259.000 eða 10.000 kr. lægri en grunnlaunin sem félagráðgjöfum hefðu boðist 3½ ári síðar. Í sömu könnun kemur fram að í febrúar 2005 sé meðaltal heildarlauna verkfræðinga sem starfa við ráðgjöf hjá ríki og Reykjavíkurborg kr. 339.000, en að meðtöldum bílastyrkjum, dagpeningum o.fl. nemi heildargreiðslur þeirra kr. 420.000. Í dag eru meðaltekjur félagsráðgjafa sem starfa hjá Reykjavíkurborg kr. 234.979 kr. samkvæmt upplýsingum frá launanefnd Reykjavíkurborgar. Við drögum mjög í efa að þeir samningar sem tæknifræðingum og verkfræðingum eru boðnir nú feli í sér kjaraskerðingu til móts við þær tekjur sem samningstilboð borgarinnar til félagsráðgjafa fól í sér. Félagsráðgjafar eru ekki að fara fram á hærri laun en aðrir, heldur eru þeir að biðja um jafnrétti til launa á við sambærilegar fagstéttir sem starfa hjá Reykjavíkurborg.

Höfundar eru félagsráðgjafar hjá Reykjavíkurborg.