[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Uppnámið, sem varð á fjármálamarkaði, bæði hér á landi og erlendis, eftir að alþjóðlega matsfyrirtækið Fitch Ratings birti mat sitt á horfum lánshæfismats ríkissjóðs fyrr í vikunni, er fyrir margra hluta sakir athyglisvert og lærdómsríkt.

Uppnámið, sem varð á fjármálamarkaði, bæði hér á landi og erlendis, eftir að alþjóðlega matsfyrirtækið Fitch Ratings birti mat sitt á horfum lánshæfismats ríkissjóðs fyrr í vikunni, er fyrir margra hluta sakir athyglisvert og lærdómsríkt.

"Hrunið"

á Íslandi

Það er ekki nýtt að bæði gengi krónunnar og verð hlutabréfa lækki tímabundið en hækki svo aftur, eins og átti sér stað í þessari viku. Það er hins vegar algjörlega nýtt fyrir okkur að slíkar sveiflur hafi áhrif langt út fyrir landsteinana, eins og átti sér stað á miðvikudag. Þá lækkuðu ýmsir gjaldmiðlar hagkerfa, þar sem vöxtur er hraður og vextir háir, eins og hér á landi. Samkvæmt því, sem fram kemur í t.d. Financial Times , er ástæðan sú að þeir, sem stunda spákaupmennsku með gjaldmiðla á alþjóðlegum fjármálamarkaði, hafa reynt að innleysa hagnað með því að selja aðra gjaldmiðla og bæta sér þannig upp tap, sem þeir urðu fyrir vegna lækkunar krónunnar. Þetta endurspeglar stóraukinn áhuga á krónunni undanfarin misseri vegna hins háa vaxtastigs hér á landi og alþjóðavæðingu hagkerfis okkar.

Það er líka algjörlega nýtt fyrir okkur hversu mikinn áhuga erlendir fjölmiðlar sýna sveiflum á fjármálamarkaðnum hér á landi. Áður fyrr hafa slíkir atburðir hér ekki skipt heimspressuna nokkru einasta máli. Það var vissulega sláandi að sjá í hinu virta, alþjóðlega viðskiptablaði Financial Times á fimmtudag fyrirsögnina "Hrun Íslands hefur áhrif á heimsvísu" (Iceland's collapse has global impact). Þarna er auðvitað átt við "hrun" krónunnar, en ekki hagkerfisins sem slíks, en orðanotkunin er engu að síður harla glannaleg, enda a.m.k. ennþá ekki um neitt hrun að ræða, heldur lækkun á gengi, sem margir hafa spáð lengi og flestir talið óumflýjanlega og nauðsynlega. Í texta fréttarinnar var talað um "skell í fjármálum" (financial crash) og "hrun krónunnar" (the krona's collapse). Menn hljóta að velta fyrir sér hvaða áhrif orðanotkun af þessu tagi í jafnvirtu dagblaði og Financial Times hafi á orðspor Íslands hjá lesendum þess og andrúmsloftið hjá þeim, sem eiga viðskipti við íslenzk fyrirtæki.

Skýrsla Fitch, þar sem spáð var að meiri líkur væru en áður á harðri lendingu íslenzka hagkerfisins eftir núverandi uppsveiflu, fékk svipaða umfjöllun í ýmsum norrænum fjölmiðlum. Þar var víða tekið sterkt til orða; að Ísland væri á barmi kreppu, stefndi í hrun, að öll viðvörunarljós blikkuðu o.s.frv. Þetta er heldur ekki gott fyrir Ísland og íslenzk fyrirtæki, sem stunda viðskipti í viðkomandi löndum, einkum og sér í lagi þegar horft er til þess að þær hækkanir á gengi krónunnar og hlutabréfaverði, sem áttu sér stað hér í lok vikunnar, fengu miklu minni athygli en hinar upphaflegu uppsláttarfréttir um að hér væri allt á heljarþröm. Þessi umfjöllun er ekki góð landkynning, ef svo má að orði komast.

Jafnvel í ríkjum, þar sem ætla má að íslenzkt efnahagslíf hafi nánast aldrei áður verið til umfjöllunar, birtust blaðafregnir um fall íslenzku krónunnar. Í suður-afrískum blöðum var tímabundin veiking randsins þannig rakin til atburða á Íslandi. Hinn nýi efnahagslegi veruleiki verður til þess að athygli enn fleiri en ella beinist að Íslandi.

Aukinn

fjölmiðlaáhugi

Þessi mikla umfjöllun erlendra fjölmiðla um atburði í efnahagslífinu hér endurspeglar auðvitað áhuga þeirra á íslenzku viðskiptalífi yfirleitt, sem hefur komið til eftir að íslenzk fyrirtæki hófu útrás til Bretlands og Norðurlandanna. Það telst ekki lengur til tíðinda að fjallað sé um Ísland og íslenzk fyrirtæki á viðskiptasíðum erlendra dagblaða. Í þessum ríkjum er það orðið daglegt brauð. Blaðamenn Morgunblaðsins þekkja það vel að á undanförnum árum hefur legið hingað stöðugur straumur erlendra viðskiptablaðamanna, sem vilja kynna sér íslenzka "efnahagsundrið", en slíkar heimsóknir þekktust í miklu minna mæli áður. Afstaða þessa fólks til íslenzks viðskiptalífs einkennist af samblandi aðdáunar, undrunar og vissrar tortryggni. Danskir blaðamenn spyrja t.d. hvernig í ósköpunum fyrirtæki frá litla Íslandi geti keypt sum af þekktustu vörumerkjum Danmerkur, eins og Magasin og Illum. "Hvaðan koma peningarnir?" er algengasta spurningin. Brezkir blaðamenn spyrja hvernig það megi vera að fyrirtæki frá landi, sem hefur álíka marga íbúa og miðlungsstórt hverfi í London, geti keypt margar af þekktustu búðunum í verzlunarhverfum brezkra borga.

Útlendir blaðamenn velta fyrir sér hvort íslenzka hagkerfið standi undir þessari útrás og hvort íslenzku fyrirtækin geti snúið við rekstri fyrirtækjanna, sem þau hafa keypt og rekið þau með hagnaði, en mörg þeirra hafa ekki gengið vel á undanförnum árum. Hugsanlega er hin neikvæða - og að mörgu leyti yfirdrifna - fjölmiðlaumfjöllun í þessum löndum nú í vikunni til komin vegna þess að fjölmiðlarnir telji að með skýrslu Fitch hafi þeir fengið einhvers konar staðfestingu á grunsemdum sínum um að það geti ekki verið allt með felldu í íslenzku efnahagslífi. Svarið við því hvaðan peningarnir koma, er til dæmis nokkuð skýrt í skýrslunni; þeir koma frá erlendum lánastofnunum og fjárfestum, sem hafa lánað íslenzkum bönkum og kaupsýslumönnum til að þeir geti fjármagnað viðskiptahugmyndir sínar. Fitch telur hinn mikla vöxt í erlendum lántökum hins vegar varasaman.

Þó liggur fyrir að í raun er fátt nýtt í skýrslu Fitch, sem aðrir hafa ekki bent á. Það eina, sem er umfram t.d. ábendingar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD), er samanburðurinn á ástandinu á Íslandi nú og fjármálakreppunni í Asíu í lok síðustu aldar. Sá samanburður er auðvitað umdeilanlegur, eins og sérfræðingar Fitch benda raunar sjálfir á í skýrslu sinni - sumt er líkt með Íslandi og ríki á borð við Suður-Kóreu, annað gerólíkt.

Þetta breytir ekki því, að athygli fjölmiðla í löndunum, sem íslenzk fyrirtæki eiga mest viðskipti við og fjárfesta mest í, beinist nú að íslenzku efnahagslífi, þeim hættumerkjum sem Fitch - og margir fleiri - hafa bent á og hvað sé verið að gera til að koma í veg fyrir að þróunin verði í samræmi við verstu spár. Ýmsir fleiri fylgjast með íslenzka markaðnum, t.d. önnur matsfyrirtæki og greiningardeildir. Það skiptir verulegu máli fyrir íslenzkt efnahagslíf að þessir aðilar hafi á tilfinningunni að bæði stjórnvöld, sem ráða yfir helztu hagstjórnartækjunum, og leiðandi fyrirtæki, einkum og sér í lagi bankarnir, geri sitt ýtrasta til að halda þenslunni í hagkerfinu í skefjum og vinna á móti þeirri varasömu þróun, sem lýst var í skýrslu Fitch.

Upplýsingavandi - umtalsvandi - efnahagsvandi

Sú neikvæða fjölmiðlaumfjöllun, sem að framan er lýst, virðist að sumu leyti byggjast á ákveðnum upplýsingavanda. Erlendir fjölmiðlamenn kvarta mikið undan því að erfiðlega gangi að fá upplýsingar hjá íslenzkum fyrirtækjum um það hvernig þau fjármagni útrás sína og hyggist standa undir henni. Íslenzkir kollegar þeirra verða raunar að viðurkenna að þeir fái ekki mikið betri upplýsingar sjálfir. Þegar virt matsfyrirtæki, sem ætla verður að byggi álit sitt á haldgóðum upplýsingum, birtir svartsýna spá, verður það fyrir vikið veruleg frétt. Og upplýsingavandi getur hæglega snúizt upp í efnahagsvanda. Jafnvel þótt allt sé í stakasta lagi hjá fyrirtæki, atvinnugrein eða heilu hagkerfi, getur farið að síga á ógæfuhliðina vegna neikvæðs umtals. Orðspor, umtal og "stemning á markaðnum" skiptir oft miklu meira máli en það, hvernig hlutirnir eru í raun. Það skiptir engu máli að allt sé í lagi ef fólk veit það ekki, eða ef orðrómur er uppi um annað. Af þessum sökum hljóta bæði íslenzk fyrirtæki og íslenzka ríkið að huga að því hvernig þau koma upplýsingum á framfæri, sem slá á neikvætt umtal og vega á móti dómsdagsspám, sem slegið er upp í erlendum miðlum.

Bankar efla upplýsingagjöf

Bankarnir eru byrjaðir að átta sig á að þeir verða að veita meiri upplýsingar en þeir hafa gert. Í nóvember síðastliðnum varð talsvert uppnám í bankakerfinu þegar út komu greinar frá greiningardeildum Royal Bank of Scotland annars vegar og Dresdner Kleinwort Wasserstein hins vegar, þar sem velt var upp ýmsum spurningum og áhyggjum vegna hins hraða vaxtar Kaupþings banka, m.a. hversu háður bankinn væri fjármögnun á lánsfjármarkaði. Að sumu leyti endurspeglaði þessi umfjöllun orðróm, sem uppi var meðal erlendra fjárfesta og jafnframt kom fram sú skoðun að á símafundi með fjárfestum hefði bankinn ekki getað gefið nógu góð svör við ýmsum spurningum. Afleiðingarnar af umfjöllun greiningardeildanna voru þær að vaxtaálag á skuldabréfum allra íslenzku bankanna á eftirmarkaði hækkaði, sem gefur vísbendingu um að lánskjör þeirra geti versnað er fram líða stundir. Morgunblaðið greindi frá því í byrjun þessa mánaðar að sú hækkun væri ekki gengin til baka og vaxtaálagið hækkaði enn nú í vikunni eftir að Fitch gaf út skýrslu sína, þar sem horfunum á lánshæfismati ríkissjóðs var breytt úr stöðugum í neikvæðar.

Bankarnir drógu allir þá ályktun af því, sem gerðist í nóvember, að þeir yrðu að efla upplýsingagjöf sína til fjárfesta. Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings banka, sagði t.d. hér í blaðinu að umfjöllunin bæri þess merki að Kaupþing banki hefði vaxið mjög hratt og þar með vakið athygli. Því yrði að veita fjárfestum meiri upplýsingar. "Það er ljóst að við þurfum að gera enn betur. Við þurfum að upplýsa markaðinn með öflugri starfsemi," sagði Hreiðar Már í Morgunblaðinu 25. nóvember í fyrra. Sama dag sagði Davíð Oddsson seðlabankastjóri í blaðinu: "Allar þær tölur sem við sjáum benda til þess að bankinn sé með góðan grunn. Á hinn bóginn vekur það náttúrulega athygli annars staðar að bankarnir hafa verið að styrkjast og stækka undrahratt og þá má vel vera að það veki spurningar. Þá er þýðingarmikið að íslensku bankarnir hafi á reiðum höndum trúverðugar skýringar á stöðu sinni því í þessum heimi skiptir raunsönn ímynd öllu máli."

Talsmenn bankanna kvörtuðu í nóvember - og kvarta aftur nú - yfir því að hjá erlendum fjárfestum, fjármálastofnunum og greiningaraðilum sé ákveðin vanþekking á íslenzku efnahagslífi, íslenzku útrásinni og íslenzku bönkunum. En hverjum stendur það nær en einmitt bönkunum og öðrum útrásarfyrirtækjum að bæta úr því?

Gagnrýni

á ónógar

upplýsingar

Í nóvember sögðu bankamenn jafnframt að það væri ekki mikið mark takandi á því, sem greiningardeildir segðu. Það, sem alþjóðlegu matsfyrirtækin segðu, skipti öllu máli, enda hefðu þau miklu betri aðgang að upplýsingum. Út úr skýrslu Fitch-matsfyrirtækisins frá því fyrr í vikunni má hins vegar lesa ákveðna gagnrýni á skort á upplýsingum um erlendar skuldir bankanna. Þannig ber fyrirtækið íslenzka hagkerfið saman við það ástralska og nýsjálenzka og segir að síðarnefndu hagkerfin tvö sýni svipuð, en ekki eins öfgakennd einkenni ójafnvægis. Hins vegar sé miklu betri upplýsingar að hafa um uppbyggingu og áhættuvarnir (e. hedging) erlendra lána í þessum ríkjum en á Íslandi. Fitch segist hafa áhyggjur af þeirri áhættu, sem felist í lánum í erlendri mynt til innlendra aðila, færi svo að gengi krónunnar færi á flakk. Fyrirtækið segir að svo allrar sanngirni sé gætt, séu sumir bankarnir byrjaðir að veita betri upplýsingar um þennan þátt í útlánastarfsemi sinni. Hins vegar hafi íslenzk stjórnvöld ekki, eins og stjórnvöld í Ástralíu og Nýja-Sjálandi, gefið nákvæma heildarmynd af áhættuvörnum lántakenda í einkageiranum. Þessi ríki hafi búið miklu lengur við fljótandi gengi en Ísland og lántakendur í einkageiranum hafi miklu lengri reynslu af því að fást við gengissveiflur. Fitch segist bíða með eftirvæntingu eftir skýrslu Seðlabankans um fjármálalegan stöðugleika í maí til að varpa frekara ljósi á þá þætti, sem fyrirtækið segist hafa áhyggjur af.

Í þessu efni virðist það standa jafnt upp á bankana sjálfa og Seðlabankann að veita ýtarlegri upplýsingar.

Hlutur ríkisins

Menn hljóta líka að spyrja hvort ríkisstjórnin þurfi ekki að veita meiri upplýsingar og leggja ríkari áherzlu á tengsl við erlenda greiningaraðila, fjárfesta og fjölmiðla en nú er. Það er til dæmis alveg ljóst að nánast allir, sem skoða íslenzka hagkerfið nú um stundir, eru þeirrar skoðunar að aðhaldið í ríkisfjármálum sé of lítið og of mikið lagt á peningastefnu Seðlabankans að vinna gegn þenslunni í hagkerfinu. Ríkisstjórnin er ljóslega ósammála þessu mati. En þarf hún þá ekki að sannfæra þá erlendu aðila, sem um ræðir, um að aðhaldið í ríkisfjármálunum sé nægilegt? Í Vefriti fjármálaráðuneytisins, sem út kom í vikunni, er röksemdum Fitch svarað og færð rök fyrir því að ríkisstjórnin hafi aukið aðhaldið í fjármálum sínum og að horfurnar séu mun betri en matsfyrirtækið gefur í skyn. Vefritið kemur nú út á ensku á vef ráðuneytisins, sem auðveldar erlendum aðilum að kynna sér sjónarmið ríkisstjórnarinnar. En dugar það til? Fréttir upp úr Fitch-skýrslunni eru í ótal erlendum fjölmiðlum. Þar finnst hins vegar engin frétt upp úr Vefriti fjármálaráðuneytisins. Þarf ríkisstjórnin ekki að leggja stóraukna áherzlu á tengsl við fjölmiðla og fjárfesta í helztu viðskiptalöndum okkar og vinna gegn neikvæðu umtali?

Það má færa sterk rök fyrir því að íslenzk fyrirtæki, ekki sízt þau sem standa í útrásinni, þurfi að leggja miklu meira á sig við upplýsingamiðlun og almannatengsl erlendis en þau hafa gert til þessa. Þetta á ekki sízt við um bankana. Að sjálfsögðu er ekki nóg að draga upp fallega mynd fyrir fjölmiðla og fjárfesta; það þarf að vera innstæða fyrir henni. Raunar má ætla að það aðhald, sem fylgir umfjöllun fjölmiðla, greiningardeilda og matsfyrirtækja, stuðli að því að fyrirtækin taki síður áhættu en ella og fari varlegar í lántökum og fjárfestingum.

Íslenzka ríkið hlýtur sömuleiðis að vilja gæta orðspors síns í hinum alþjóðlega fjármálaheimi og leggja meiri áherzlu á starfsemi af þessu tagi. Stjórnvöldum hér hefur aldrei tekizt sérlega vel upp í almannatengslum á erlendum vettvangi. Hvalveiðimálið er skýrt dæmi um það; erlend umhverfisverndarsamtök hafa stýrt umræðunni um hvalveiðar Íslendinga í erlendum fjölmiðlum, án þess að íslenzkum sjónarmiðum hafi verið komið á framfæri sem skyldi. Það væri óheppilegt ef umræður um íslenzkt efnahagslíf og íslenzku útrásina stýrðust annars vegar af ónákvæmum eða ónógum upplýsingum og hins vegar af orðrómi og áhyggjum, sem ef til vill eiga sér ekki nægilega stoð í raunveruleikanum.

Það er sameiginlegt hagsmunamál atvinnulífsins og ríkisvaldsins að stuðla að því að veittar séu sem beztar upplýsingar um efnahagsumhverfið hér á landi, ekki sízt nú þegar svo mikil athygli beinist að því í helztu viðskiptalöndum okkar. Samstarf ríkisvaldsins og fyrirtækja og samtaka þeirra liggur því beint við. Hægt er að sækja margvíslegar fyrirmyndir til nágrannaríkja okkar, t.d. Noregs og Finnlands, þar sem gott samstarf er milli upplýsingadeilda utanríkisráðuneyta landanna, stjórnsýslu, fyrirtækja og fjárfestingarskrifstofa.

Þessi ríki, eins og svo mörg önnur, átta sig á að orðspor þeirra á alþjóðlegum vettvangi er einhver verðmætasta eignin, sem þau hafa yfir að ráða og ýmsu er til kostandi að styrkja það og vernda. "Landkynning" felst ekki lengur bara í því að kynna íslenzka náttúru og menningu; hún þarf ekki síður að byggjast á ríkulegri upplýsingagjöf um íslenzka "efnahagsundrið", bakgrunn þess og undirstöður.