Gísli Snær Erlingsson býr ásamt fjölskyldu sinni í Tókýó og vinnur meðal annars við gerð auglýsinga.
Gísli Snær Erlingsson býr ásamt fjölskyldu sinni í Tókýó og vinnur meðal annars við gerð auglýsinga. — Ljósmynd/Jónas Hallgrímsson
Gísli Snær Erlingsson hefur ekki verið fyrirferðarmikill á Íslandi undanfarin misseri, en annars staðar á hnettinum hefur hann látið að sér kveða.

Gísli Snær Erlingsson hefur ekki verið fyrirferðarmikill á Íslandi undanfarin misseri, en annars staðar á hnettinum hefur hann látið að sér kveða. Hann býr í Tókýó ásamt fjölskyldu sinni, leikstýrir og framleiðir auglýsingar og hefur með konu sinni stofnað fyrirtæki, sem gefur út og talsetur erlendar barnamyndir. Jónas Hallgrímsson ræddi við Gísla Snæ.

Gísli Snær Erlingsson kom fyrst fram á sjónarsviðið um miðjan níunda áratuginn sem annar umsjónarmanna dægurlagaþáttarins Poppkorns í sjónvarpinu. Hann starfaði sem dagskrárgerðarmaður í innlendri dagskrárgerð í tíð Hrafns Gunnlaugssonar, og kom að kvikmyndagerð, m.a. sem framkvæmdastjóri myndar Friðriks Þórs Friðrikssonar, Skytturnar. Það var reyndar með hjálp Friðriks og Jacques Mer, þáverandi sendiherra Frakka á Íslandi, að Gísli komst í nám í kvikmyndagerð við FEMIS kvikmyndaskólann í París. Hann útskrifaðist þaðan 1994. Að námi loknu bjó Gísli um skeið í París og Lundúnum, sem og á Íslandi. Síðastliðinn fimm ár hefur Gísli búið ásamt fjölskyldu sinni í Tókýó, þar sem hann starfar meðal annars við gerð sjónvarpsauglýsinga.

Auglýsingar fyrir Yamaha

Samtal okkar Gísla fer fram á vinnustofu hans og samstarfsfélaga hans, Dermont Killoran, í Shinjuku-hverfinu í Tókýó. Fyrirtækið heitir Calderwood Productions og er í eigu Killorans, sem sér um viðskiptahliðina, en Gísli sér um framleiðslu og leikstjórn.

"Við vorum með fólk í vinnu, en það fylgdi því svo mikið umstang að við hættum því. Ákváðum þess í stað að vera bara tveir og taka fá en góð verkefni," segir Gísli. Ekki er annað að sjá en það gangi vel því viðskiptavinirnir eru stór fyrirtæki á alþjóðavettvangi, en þeir félagar hafa undanfarið meðal annars unnið kynningarmyndir fyrir Braun, Ricoh og snyrtivöruframleiðandann Kanebo Einnig er í bígerð að þeir félagar taki að sér að vinna allt kynningarefni fyrir Jaguar og Rover. Stærsti viðskiptavinurinn er hins vegar án efa Yamaha, en Gísli hefur leikstýrt tveimur auglýsingum fyrir fyrirtækið og í bígerð er að hann geri tvær til viðbótar síðar á árinu.

"Upphaflega kom þetta þannig til að vinur minn sem vinnur hjá framleiðslufyrirtækinu Dentsu Tec, sem er í eigu auglýsingastofunnar Dentsu, sem er stærsta auglýsingastofa í heimi með um sjötíu þúsund starfsmenn, benti á mig. Dentsu var að leita að útlendingi sem gæti gert mótorhjólaauglýsingar fyrir Yamaha. Þeir höfðu prufað að nota japanskan leikstjóra en það gekk ekki þar sem auglýsingarnar voru ekki hugsaðar fyrir Japansmarkað. Þeir vildu fá útlending þar sem erlendir leikstjórar hafa aðra sýn en þeir japönsku. Japanskir leikstjórar hafa húmor og sýn sem passar eiginlega bara í Japan. En allavega, þá fékk ég starfið."

Valentino Rossi, heimsmeistari í mótorhjólaakstri, er aðalpersónan í báðum auglýsingunum en hann var á þessum tíma nýbúinn að skrifa undir samning við Yamaha. Fyrri auglýsingin var tekin á kappakstursvelli í Kuala Lumpur í Malasíu.

"Okkur var sagt að við hefðum bara tíma fram að hádegi til að taka auglýsinguna. Við rákum upp stór augu, en félagar mínir hjá Dentsu sögðu þetta nú lítið mál, þeir hefðu nýlega mátt bíða eftir David Beckham í myndveri í Madríd í níu daga þegar þeir voru að gera auglýsingu fyrir Adidas. Allavega þá gekk þetta allt saman upp á endanum. Hlutur Rossi í auglýsingunni var tekinn upp fyrir hádegi, en afgangurinn í Kuala Lumpur og í Tókýó."

Þetta var árið 2004, en á síðasta ári leikstýrði Gísli annarri auglýsingu fyrir Yahama, sem var tekin á Monza-kappakstursbrautinni á Ítalíu. Gísli segir það hafa verið mikla upplifun að koma á Monza.

"Það er bara eitthvað sérstakt við að koma á þennan völl, það var eins og maður andaði að sér allri kappaksturssögunni. Af einhverjum ástæðum vildi Valentino Rossi bara vinna með mér, veit ekki af hverju þar sem við vorum nú ekki í miklu sambandi. Ég þurfti að ráða 120 manns í vinnu, því þetta þurfti að vera alveg eins og um venjulegan kappakstur væri að ræða. Hraðinn var svakalegur, fór mest upp í 310 km á klukkustund og því þurfti að hafa sjúkraliða í hverri beygju ef eitthvað skyldi fara úrskeiðis. Valentino Rossi er með tvö hjól, sem hvort um sig kostar tæpa sjö milljarða. Bæði hjólin eru handsmíðuð. Þeir eru svo með varahluti í það þriðja ef á þarf að halda. Það var alveg ótrúlegt að sjá hvað aðstoðarmennirnir voru snöggir að taka hjólin í sundur og setja saman aftur, tók bara nokkrar mínútur."

Það kostar á milli 27 og 32 milljónir króna að framleiða sjónvarpsauglýsingu í Japan. Það má því ímynda sér að Gísli finni fyrir pressu þegar svo mikið er í lagt, en hann segir svo ekki vera.

"Það er bara ekki hægt að hugsa þannig. Auglýsingarnar eru ekki mín börn, þau eru börn auglýsingastofunnar og viðskiptavinarins. Mitt starf er að skilja hvað þeir eru að reyna að segja með auglýsingunni og ná því fram sem þeir vilja. Ég er búinn að gleyma auglýsingunni um leið og búið er að ganga frá henni. Það er munurinn á kvikmyndum og auglýsingum. Kvikmyndin lifnar við þegar búið er að vinna hana. Hún öðlast líf í kvikmyndahúsum, á kvikmyndahátíðum og á myndböndum og DVD-diskum. Myndin vex og þróast næstum því í lifandi persónu."

Gísli tekst allur á loft þegar að talið berst að kvikmyndagerð. Greinilegt hvar hjartað slær þó að lifibrauðið komi að mestu af auglýsingum. Gísli hefur gert þrjár kvikmyndir í fullri lengd, Stuttur frakki (1993), Benjamín dúfa (1995) og Ikingut (2001). Bæði Benjamín dúfa og Ikingut hafa unnið til fjölda verðlauna á erlendum kvikmyndahátíðum.

Ættum að gera fáar en góðar myndir

Gísli er ekki mikið fyrir að ræða eigin myndir, en talar þess í stað um stöðu íslenskrar kvikmyndagerðar: "Þegar ég var yngri hélt ég alltaf að vandamálið væri að fá peninga til að framleiða myndir, en það er nóg af peningum til. Hins vegar verður að tryggja dreifingu myndanna því annars er þetta ónýtur peningur. Í mörg ár hafa kvikmyndagagnrýnendur, eins og þeir ágætu menn Sæbjörn Valdimarsson og Arnaldur Indriðason, bent íslenskum kvikmyndagerðarmönnum á að ekki þýði bara að framleiða myndir, það verður líka að selja þær. Oftar en ekki er ráðist út í að gera bíó á Íslandi án þess að hugsa nokkuð um markaðssetningu. Ég held að við ættum ekki að gera dýrar myndir, heldur fáar góðar. Það er mun erfiðara að gera litlar og ódýrar myndir. Í slíkum tilvikum reynir virkilega á hæfileika leikstjórans og handritshöfundarins. Sem dæmi um hvað markaðsetning er stór hluti þá getur við til dæmis sagt að ef mynd kostar 60 milljónir í framleiðslu, þá má gera ráð fyrir að það kosti 100 milljónir að markaðssetja hana."

Gísli hefur nýlokið við handrit að lítilli mynd, í samvinnu við breskan félaga sinn, sem hlotið hefur vinnuheitið Ég er hús og á að hans sögn að vera lítil og einlæg mynd. Hann er með þrjár hugmyndir til viðbótar í kollinum. Segist hafa hug á að gera litla mynd eftir sögu Auðar Ólafsdóttur, Rigning í nóvember, auk þess sem japanskir framleiðendur hafi komið að máli við sig um að gera tvær myndir tengdar Íslandi á japönsku.

"Þetta er allt á hugmyndastigi enn þá, og svo eru málin fljót að breytast í þessum bransa. Mynd sem á að gera í dag gæti allt eins verið dottin upp fyrir á morgun. Það tekur tvö ár að skrifa handrit. Það skrifar enginn maður kvikmyndahandrit á einni helgi uppi í sumarbústað. Gullna reglan um að kvikmynd verði ekki góð nema að handritið sé gott stendur alltaf fyrir sínu. Eftir því sem maður eldist og þykist vita meira, þeim mun meira gerir maður sér grein fyrir að maður veit í raun ekki neitt," segir Gísli og hlær.

Útgáfa erlendra barnamynda

Árið 2003 stofnuðu Gísli og eiginkona hans fyrirtækið AnsurPictures og hafa þau á síðastliðnum þremur árum gefið út þrjár erlendar barnamyndir á DVD-diskum, í seríu sem þau kalla Kodomo Cinema Collection. Þau hjónin lögðu út í talsverðan kostnað við að talsetja myndirnar á japönsku og fengu þekkta japanska leikara til verksins. Fjórða myndin í seríunni, finnska myndin "Hayflower and Quiltshoe", var undir lok síðasta árs sýnd í kvikmyndahúsum í Japan við góðan orðstír. Um fimmtíu þúsund manns sáu myndina, sem verður að teljast gott þar sem um erlenda barnamynd er að ræða. Þau fengu dreifingarfyrirtækið Nikatsu til liðs við sig, en fyrirtækið á fjögur kvikmyndahús og hefur þar að auki aðgang að um tvö þúsund kvikmyndasölum. Myndin var sýnd í tuttugu sölum í helstu borgum landsins, meðal annars í Osaka, Sapporo, Kobe og Tókýó. Í bígerð er að gefa myndina út á DVD-diski innan skamms.

Um tildrög fyrirtækisins segir Gísli: "Hugmyndin á bak við þetta er í raun mjög einföld. Okkur langaði til þess að dóttir okkar gæti séð heiminn og veröldina eins og hún gerist í öðrum löndum. Hér var bara hægt að leigja japanskar teiknimyndir, sem mér finnst oft innihalda falda erótík, jafnvel klám. Við erum ekki að segja teiknimyndunum stríð á hendur með þessu, en okkur langar til að fólk hafi eitthvert val. Við vorum að safna fyrir íbúð þegar við fórum út í þetta, íbúðin flaug fljótlega út um gluggann og í raun erum við enn í mínus með þetta, en við erum að gera eitthvað sem við trúum á. Takmarkið er að gefa út eina barnamynd á ári."