Óvíst er að Donatella Versace væri fyrirferðarmikil á tískusviðinu ef bróðir hennar, Gianni, hefði ekki verið myrtur í skotárás fyrir framan heimili sitt í Miami í júlí árið 1997. Fráfall hans ýtti Donatellu fram á sjónarsviðið og fyrir hennar tilstilli skaust Versace upp í heiðhvolfið og varð að uppáhaldsmerki alþjóðlega þotuliðsins.
Donatella fæddist árið 1955 í Reggio di Calabria á Ítalíu, faðir hennar var kaupsýslumaður og móðirin kjólameistari fyrir yfirstéttina, og er hún yngst fjögurra barna þeirra. Gianni var níu árum eldri en Donatella, en þau voru náin samt sem áður og er sagt að hún hafi byrjað að fylgja bróður sínum á næturklúbba og diskótek 11 ára gömul. "Gianni var villtastur af okkur," var eitt sinn haft eftir henni í viðtali, "og ýtti mér út í hamsleysi, nú er ég trylltari en hann. Þetta er allt honum að kenna."
Donatella lauk námi frá háskólanum í Florence á áttunda áratugnum og gekk þvínæst til liðs við hið nýfleyga tískufyrirtæki bróður síns, Gianni Versace, sem stofnað var árið 1978. Hún sá um almannatengsl til þess að byrja með, en aðild hennar jókst fljótlega og eru margir á því að hún hafi veitt bróður sínum mikla andagift. "Ef systir mín vill láta gera eitthvað, er það fínt. Ef henni líkar ekki skissa af einhverju, sleppi ég því," sagði Gianni eitt sinn um samstarf þeirra í samtali við Vanity Fair .
Donatella var fyrsti hönnuðurinn sem notaði þekktar fyrirsætur til þess að sýna á tískusýningum, enda áttaði hún sig á því að það myndi vekja áhuga fjölmiðla. Á tíunda áratugnum fékk hún ótakmarkað umboð frá Gianni til þess að hanna Versus-línu undir hatti Versace-tískuhússins, en fyrstu Versus-flíkurnar komu á markað árið 1995. Donatella var bróður sínum ómetanleg, ekki síst vegna óskeikullar tilfinningar fyrir tíðarandanum. Hún stundaði næturlífið af kappi og hafði sérstaka hæfileika til þess að skynja hvað það var sem unga fólkið þráði.
Sló strax í gegn
| Sem nærri má geta hafði morð Gianni djúpstæð áhrif á hana. Hún hóaði fjölskyldunni saman á leynilegum dvalarstað við Karíbahafið til þess að syrgja og vor- og sumartískulína Versace fyrir árið 1998 var blásin af. Svo áttaði hún sig á því að hún vildi halda merki bróður síns og Versace á lofti. Talið er að Gianni hafði sagt systur sinni þegar hann greindist með krabbamein á tíunda áratugnum, að hún ætti að taka við af honum ef með þyrfti. Fyrsta fatalína Donatellu eftir að Gianni lést sló algerlega í gegn og var bekkurinn á tískusýningunni þéttsetinn af stjörnustóði.Unnið hefur verið að endurskipulagning Versace Group síðastliðin ár, vegna niðursveiflu í rekstrinum. Fyrirtækið er alfarið í eigu Versace-fjölskyldunnar og rekur til að mynda Palazzo Versace, fimm stjörnu lúxus-hótel á gullnu ströndinni í Ástralíu, þar sem gestir geta velt sér upp úr munaði að hætti Versace. Donatella er bæði varastjórnarformaður og listrænn stjórnandi fyrirtækisins.
Talað hefur verið fjálglega um hönnun Donatellu á síðustu mánuðum. Vor- og sumartískan 2006 er undir áhrifum frá orlofsparadísinni Palm Springs í Kaliforníu í Bandaríkjunum og hefur hún sagt að litirnir í umhverfinu og landslagið hafi veitt sér mikinn innblástur. Tískublaðamenn eru sammála um að fatalínan hafi heppnast vel, ekki síst vegna mjúkra útlína og látlausari fatnaðar en Versace hefur verið þekkt fyrir til þessa. "Hugmynd hennar um hversdagskjól gengur minna út á brjóstaskoru og lærasýningu en áður, sniðið er afslappaðra (miðað við hana), þó að það dragi enn fram útlínurnar, og faldurinn er sjö sentímetrum fyrir neðan hné. Flottur og nýstárlegur kynþokki. Fínleiki og tilfinning sem hún hefur ekki sýnt áður," eru dæmi um umsagnir sem hún hefur fengið.
Viðleitni Donatellu til þess að fríska upp á Versace-merkið hófst á síðasta ári og sáust þess strax merki í hausttískunni.
"Andinn sem hana hefur kannski skort á liðnum árum birtist á táknrænan hátt í fyrirsætum, sem litu út eins og gyðjur, og minnti sterklega á hvers vegna Versace var eitt sinn rafmagnað fyrirbæri. Hún sýndi að tískusýning getur verið meira en nokkrar guggnar stúlkur sem ganga áhugalausar fram og til baka á pallinum. Öll veröldin veit að Donatella er nýkomin úr meðferð. Það sést í því sem hún er að fást við. Hún vill hreinsa út og horfast í augu við raunveruleikann, hefur klipið utan af flíkunum, og einbeitir sér 85% að hversdagsfatnaði. Niðurstaðan er straumlínulaga útgáfa af Versace-klassík, þar sem Medúsu-gyllingin hefur að mestu leyti verið látin fyrir róða. Kynþokkinn er þó enn til staðar," segir í annarri umsögn.
Donatella er gift Paul Beck, sem er fyrrverandi karlfyrirsæta. Hermt er að þau fari sínar eigin leiðir og hvort í sínu lagi í hjónabandinu. Hún er tveggja barna móðir. Dóttirin, Allegra, fæddist árið 1986 og var aðalerfingi Giannis. Sonurinn, Daníel, er fimm árum yngri.
Hún á húsnæði úti um allan heim og lúxus-hótel Versace kváðu vera að spretta upp eins og gorkúlur um víðan völl. Hún lifir flökkulífi sem aðeins hinir ofurríku geta leyft sér. Daily Telegraph segir Donatellu skreytta demöntum sem séu stærri en mjög stór vínber en örlítið minni en apríkósur; að hún sé holdtekning yfirdrifins töfraljóma. Lífsspeki hennar kristallast líklega í svari til blaðamanns sem spurði hvort hún ætlaði að skipta á vörumerkinu, hvíta háralitnum, og náttúrulegri tónum. "Náttúrulegt. Hvað er náttúrulegt?" sagði hún og hryllti sig. "Hvað er það? Náttúrulegt hefur ekkert með andlitið eða hárið að gera. Ég trúi ekki á náttúrulegt yfirbragð fyrir konur. Þvættingur! Í mínum huga tengist hugtakið náttúrulegt mat, einhverju sem viðkemur grænmeti." | helga@mbl.is