ÁRS- og vetrargildi svifryks og köfnunarefnisdíoxíðs eru með lægra móti nú, miðað við það sem verið hefur frá því að mælingar hófust í Reykjavík árið 1990, og var gildi loftmengandi efna töluvert lægra í fyrra en árið 1995.

ÁRS- og vetrargildi svifryks og köfnunarefnisdíoxíðs eru með lægra móti nú, miðað við það sem verið hefur frá því að mælingar hófust í Reykjavík árið 1990, og var gildi loftmengandi efna töluvert lægra í fyrra en árið 1995. Þetta kemur fram í ársskýrslu fyrir árið 2005, sem Anna Rósa Böðvarsdóttir hjá Mengunarvörnum Umhverfissviðs er að vinna að. Í frétt á vef umhverfissviðs segir að niðurstaðan komi eflaust mörgum á óvart, enda myndist um 75% svifryks vegna uppspænds malbiks og sóts í umferðinni og bílaflotinn í Reykjavík hafi vaxið á undanförnum árum.

Haft er eftir Lúðvík Gústafssyni deildarstjóra mengunarvarna, að flókið samspil nokkurra þátta sé líkleg skýring á þessu. Þessir þættir séu vaxandi úrkoma, sem dregur úr svifryki, hækkandi hitastig og vindhraði. Auk þess megi nefna minni hraða á bifreiðum í borginni og betri mengunarbúnað í þeim. "Aftur á móti hefur bílafloti Reykvíkinga þróast á þann veg að stærri og aflmeiri fólksbifreiðar eru nú á götum borgarinnar í meira mæli en áður og vegur það á móti því sem vinnst með betri mengunarvörnum," segir á vef umhverfissviðs.

Svifryk þrisvar sinnum yfir heilsuverndarmörk í febrúar

Á vefnum kemur einnig fram að svifryk hefur þrisvar sinnum farið vel yfir sólarhrings-heilsuverndarmörk í febrúar í ár. Hefur þetta gerst í stillum og á þurrum dögum en einnig hefur vindasamur dagur þyrlað upp ryki sem hefur safnast saman eða borist hingað frá náttúrulegum uppsprettum.

Í mars í fyrra fór svifryk í níu skipti yfir heilsuverndarmörk. Alls fór svifryk í 21 skipti yfir sólarhrings-heilsuverndarmörk á árinu 2005 og í 29 skipti árið 2004. Köfnunarefnisdíoxíð fór aldrei yfir sólarhrings-heilsuverndarmörkin 2005 en gerði það hinsvegar sjö sinnum árið 2004. Það er hámark þeirrar tíðni sem æskileg er talin.