Flestir bursta tennur sínar með tannkremi tvisvar á dag til þess að viðhalda tannheilsu og fegurð tannanna.

Flestir bursta tennur sínar með tannkremi tvisvar á dag til þess að viðhalda tannheilsu og fegurð tannanna. Fyrsta þekkta skírskotunin til tannhreinsiefnis er í egypsku handriti frá fjórðu öld, þar sem lýst er blöndu af saltdufti, pipar, mintulaufum og sverðliljum. Rómverjar notuðu tannhreinsiblöndur með mannsþvagi og þar sem þvag inniheldur ammoníak, má ætla að þær hafi gert tennurnar hvítari. Fundist hefur 18. aldar tannkremsuppskrift frá Bandaríkjunum sem inniheldur brennt brauð. Í annarri uppskrift er talið upp drekablóð, kanil og brennt álún. Notkun tannhreinsiefna og -krems varð ekki útbreidd fyrr en á 19. öld. Fyrst eftir aldamótin 1800 var tannbursti aðallega notaður með vatni, en tannhreinsiduft náði fljótlega fótfestu. Yfirleitt var það búið til heima og gert úr kalki, múrsteinssalla og salti. Heimabiblía frá 1866 mælti með muldum kolum og varaði við því að ýmsar tannkremstegundir sem þá var byrjað að selja, gerðu meira illt en gott. Um aldamótin 1900 var byrjað að mæla með kremi úr vetnisperoxíði og natróni, en tannkrem náði ekki almennilegri fótfestu fyrr en upp úr fyrri heimsstyrjöldinni. Colgate framleiddi fyrstu tannkremstúpuna sem hægt var að brjóta saman í New York árið 1896 og líktist hún einna helst túpu sem í dag er notuð fyrir málaraliti. Byrjað var að blanda flúori í tannkrem árið 1914 og er natríumflúor algengasta efnasambandið sem notað er til þess að varna skemmdum. Tannkrem er framleitt með margvíslegu bragði, oftast myntubragði, til dæmis piparmyntu og hrokkinmyntu. Framandi bragðefni þekkjast líka, svo sem anís-, apríkósu- og tyggjóbragð (fyrir smáfólkið) og kanill. Í sumum tilvikum eru engin bragðefni notuð.