Yoweri Museveni
Yoweri Museveni
Kampala. AP. | Yoweri Museveni verður áfram forseti Úganda en forsetakosningar fóru fram í landinu sl. fimmtudag.

Kampala. AP. | Yoweri Museveni verður áfram forseti Úganda en forsetakosningar fóru fram í landinu sl. fimmtudag. Bráðabirgðaniðurstöður talningar, sem birtar voru í gærmorgun, sýndu að Museveni hafði unnið öruggan sigur á keppinaut sínum, stjórnarandstæðingnum Kizza Besigye.

Birta átti endanleg úrslit seint í gær en skv. upplýsingum kjörstjórnar hafði Museveni 60,8% atkvæða þegar búið var að telja 91%. Besigye hafði hins vegar 36% fylgi.

Museveni hefur verið forseti í Úganda í tuttugu ár. Lög kváðu á um að hann gæti ekki setið lengur en tvö kjörtímabil á valdastóli en Museveni lét breyta þeim lögum í fyrra, svo hann gæti setið lengur, og hlaut fyrir það gagnrýni, m.a. frá erlendum alþjóðastofnunum og styrktaraðilum.

Stuðningsmenn Besigye sögðu kosningarnar nú hafa einkennst af kosningasvindli. Eftirlitsmenn á vegum Evrópusambandsins tóku ekki svo djúpt í árinni en sögðu ljóst að forsetinn hefði beitt aðstöðu sinni til að tryggja að Besigye sæti ekki við sama borð í kosningabaráttunni. Besigye var seint á síðasta ári ákærður fyrir nauðgun og landráð. Stjórnarandstaðan fullyrðir hins vegar að ákærurnar hafi verið af pólitískum rótum runnar og til þess fallnar að skaða hann í aðdraganda forsetakosninganna.