Ásgeir Sverrisson
Ásgeir Sverrisson
Skipta persónuleg tengsl máli í samskiptum milli þjóða? Að þessu álitaefni er vikið í forystugrein Blaðsins í gær.

Skipta persónuleg tengsl máli í samskiptum milli þjóða?

Að þessu álitaefni er vikið í forystugrein Blaðsins í gær. Þar segir:

Á síðustu árum hefur því þráfaldlega verið haldið fram, að persónuleg samskipti ráðamanna geti bókstaflega skipt sköpum í málum er varða þjóðarhagsmuni. Þannig var ítrekað fullyrt, að persónuleg vinátta með þeim Georg W. Bush, Bandaríkjaforseta og Davíð Oddssyni, þáverandi forsætis- og síðar utanríkisráðherra, hefði í raun komið í veg fyrir að loftvarnir yrðu lagðar af hér á landi. Þetta kann að vera rétt en öldungis fráleitt er að öryggishagsmunir heillar þjóðar hvíli á vináttu tveggja manna."

Úr þessu verður ekki endanlega skorið fyrr en skjöl um samskipti Íslands og Bandaríkjanna á síðustu misserum verða opnuð þegar töluvert verður liðið á 21. öldina.

En það skyldi þó ekki vera, að þá blasi sá veruleiki við hinum gagnfróða ritstjóra Blaðsins, að það hafi einmitt verið persónuleg tengsl ofangreindra aðila, sem hafi ráðið úrslitum?!

Alla vega verður fróðlegt fyrir ritstjóra Blaðsins að lesa þau skjöl!

Og það skyldi þó ekki vera, að við lestur þeirra skjala komi líka í ljós, að sú hreyfing, sem hefur komizt á viðræður milli þjóðanna tveggja síðustu vikur eigi rætur að rekja til persónulegra tengsla milli Geirs H. Haarde, núverandi utanríkisráðherra og bandarískra áhrifamanna?!

Persónuleg tengsl Bjarna heitins Benediktssonar við áhrifamenn í Washington höfðu meira að segja áhrif á það, að okkur Íslendingum tókst að losna við óseljanlega skreið á síðari hluta viðreisnaráranna. Hver skyldi trúa því, að þáverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna hafi beitt sér í skreiðarsölu fyrir okkur Íslendinga?!

En sú var raunin.