[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Douro-dalurinn í Portúgal er þekktastur fyrir að þar eru púrtvínin einstöku sem hafa verið flaggskip portúgalskrar vínframleiðslu um aldabil ræktuð.

Douro-dalurinn í Portúgal er þekktastur fyrir að þar eru púrtvínin einstöku sem hafa verið flaggskip portúgalskrar vínframleiðslu um aldabil ræktuð. Í Douro eru hins vegar einnig framleidd hefðbundin rauðvín úr þrúgunum sem þar eru ræktaðar og mörg Douro-vínanna eru meðal bestu rauðvína Portúgal.

Vínhúsið Quinta do Crasto er í hópi þeirra allra bestu og hefur m.a. verið valið vínframleiðandi ársins í Portúgal árið 2002. Á ekrum Crasto er vínviður ræktaður á 47 hektörum, þar af eru um 18 hektarar af mjög gömlum vínvið sem notaður er í Reserva-vín hússins.

Tvö vín frá Quinta do Crasto eru nú fáanleg í vínbúðunum og mæli ég af eindrægni með þeim báðum.

Quinta do Crasto 2003 er ágengt og öflugt vín með krydduðum, svörtum berjaávexti í nefi, uppbyggingin er skörp, vín sem hefur sveitalegan þokka og nýtur sín afskaplega vel með mat. 1.260 krónur. 17/20

Quinta do Crasto Reserva Old Vines 2003 er mun þykkara og feitara. Í nefi krydd og svartur ávöxtur, þroskaður og heitur, örlítið anís, kaffi og þurr vanilla og eik. Í lokin situr eftir í munni þægilegur keimur af súkkulaði og eik. 1.860 krónur. 18/20

Nýverið hafa einnig bætst við í úrval vínbúðanna þrjú vín frá Ítalíu sem bera nafnið VoloRosso. Segja má að þarna sé um ákveðna tilraun að ræða af hálfu Ítalíu því VoloRosso er fyrsta tilraun vínframleiðanda þar til að markaðssetja vín frá fleiri en einu svæði á Bandaríkjamarkaði undir sama nafni og með sama útliti. Standa fimm stór vínsamlög frá jafnmörgum víngerðarhéruðum að VoloRosso. Alls munu um 17 vín vera til í VoloRosso-seríunni en hér eru nú í boði þrjú, Primitivo , Syrah og Rosso .

Rosso og Syrah -vínin koma frá Sikiley en Primitivo-vínið frá Salento í Púglía. Þetta eru allt ágætlega snotur og þægileg vín. Hvorki stór né merkileg en fín með t.d. pastaréttum og á afskaplega góðu verði öll eða 990 krónur . Sjálfur var ég hrifnastur af Rosso sem einkennist af þægilegum heitum ávexti þar sem dökk og svört ber eru í fyrirúmi.

Og svo eitt hvítt frá Vesturheimi í restina.

Clay Station Viognier 2004 er vín frá Lodi í Kaliforníu. Þetta er einfaldlega yndislegur viognier sem endurspeglar þrúguna frábærlega - og svolítið ýkt eins og í Nýja heiminum. Apríkósumauk og apríkósumarmelaði og angan af nýbökuðum pönnukökum. Ferskt og feitt í munni, bragðmikið og bragðgott út í gegn. 1.690 krónur. 18/20